31.03.1924
Neðri deild: 37. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í C-deild Alþingistíðinda. (2764)

108. mál, gengisskráning

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Jeg hafði ætlað mjer að innleiða þetta mál með nokkrum orðum, en þar sem svo stendur á, að slíta á fundi svo að segja samstundis, þá verð jeg að sleppa flestu, sem jeg hafði ætlað mjer að segja.

Jeg skal taka það fram, að við flm. þessa frv. teljum okkur ekki hafa með því fundið upp neitt kynjalyf, sem geti komið peningamálum þjóðarinnar í gott horf á svipstundu og eitt út af fyrir sig. Heldur er frv. aðeins einn hlekkur í langri keðju af ráðstöfunum, sem gera þarf.

Hjer á þinginu hefir nú töluvert verið rætt um gengismálið, í sambandi við önnur mál, og flestir hafa lokið upp einum munni um það, að gengisfallið væri þjóðarböl, þó rödd hafi að vísu komið í gagnstæða átt. En hvað sem um það má segja, þá eru víst allir sammála um það, að sífeldar breytingar á genginu sjeu mjög óheppilegar.

Ástæðurnar til þess, að frv. þetta er fram komið, eru teknar fram í greinargerðinni, og skal jeg ekki endurtaka það, sem þar er sagt. Ekki skal jeg heldur fullyrða neitt um það, hvort ráðstafanir þær, sem frv. ætlast til að gerðar verði, koma að fullum notum. En þetta er þó tilraun, sem sjálfsagt er að gera. Þingið má ekki lengur láta reka á reiðanum með þetta mál. Jeg lít svo á, að í sjálfu sjer sje það siðferðisleg skylda ríkisins að sjá um, að pappírspeningar þeir, sem það lætur gefa út eða leyfir að gefa út, sjeu í fullu gildi. Á hverjum Íslandsbankaseðli stendur, að bankinn greiði handhafa gegn seðli þessum upphæð þá, sem seðillinn hljóðar upp á, í gulli. Ríkið hefir að vísu í bili veitt bankanum undanþágu frá að innleysa seðlana, en það dregur ekki úr skyldu ríkisins í þessu efni, heldur þvert á móti.

Að vísu gerir enginn það, sem hann getur ekki, ríki og bankar ekki frekar en aðrir. En það, sem hægt er að gera í þessu efni, má ekki láta undir höfuð leggjast. Og minna má það áreiðanlega ekki vera en að fastar reglur sjeu settar um það, hvernig gengið er skráð, og virðist þá sú tilhögun, sem stungið er upp á í frv., vera eðlileg, að trúnaðarmenn þeirra, er þetta mál skiftir mestu, hafi þar hönd í bagga, með öðrum orðum, fulltrúar frá hinum tveimur verslunargreinum, samvinnuverslun og kaupmannaverslun og svo bönkunum.

Jeg hafði ætlað mjer að segja ýmislegt fleira um þetta mál, en þar sem fundartíminn er liðinn, verð jeg að sleppa því. Vil jeg leggja til, að málinu verði vísað til hv. fjárhagsnefndar og að því verði vísað til 2. umr.