03.04.1924
Neðri deild: 41. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í C-deild Alþingistíðinda. (2768)

119. mál, gjaldeyrisnefnd

Flm. (Klemens Jónsson):

Vjer höfum leyft oss að koma fram með frv. þetta, sem aðallega gengur út á, að skipuð sje 5 manna gjaldeyrisnefnd. Jeg þarf ekki að lýsa ástandinu eins og það er. Gengið fellur jafnt og þjett, og hvenær verður það stöðvað? Þó þetta sje einstökum mönnum til góðs, enda alkunnugt, að þeim er ant um að halda því við, eða að minsta kosti, að krónan stígi ekki fljótt eða taki stór stökk, þá er hitt vitanlegt, að þetta gengishrun liggur nú eins og mara á þjóðinni, og verður þó verra síðar.

Af því stafa þær álögur, er nú er verið að leggja á þjóðina, tvenn skattalög, önnur um 25% gengisálagning á ýmsa tolla og 20% verðtollur. Þetta hlýtur að valda dýrtíð í landinu og kemur svo hart niður á fátæklingum landsins, að vafasamt er, hvort þeir fái undir því risið. Það er því brýn nauðsyn að finna einhver ráð til þess að stöðva gengisfallið, en það nægir ekki, heldur verður að finna ráð til þess að hækka krónuna.

Það eru víst allir sammála um það, að ekkert eitt ráð sje einhlítt til að ráða bót á þessu, og verður því að grípa til allra þeirra ráða, sem vænlegust þykja. Eitt ráðið, er hefir verið lagt til, er, sem kunnugt er, verslunarhöftin. Sannfæring margra manna er sú, að þau muni hafa fullkominn verslunarjöfnuð í för með sjer, og gengið við það hækka. Með aðflutningsbanni eykst sparnaður í landinu, og auk þess má þá gera ráð fyrir frekari framleiðslu í landinu og betri hagnýting á eigin afurðum, til að mynda í klæðaburði, mataræði o. s. frv.

En sem sagt, alt þetta er ekki einhlítt. Það er alkunnugt, að ýmsir útflytjendur hafa lagt fyrir sig gengisbrask nú upp á síðkastið. Menn hafa braskað með gjaldeyri í stað þess að leggja hann inn í bankana, eins og hefði átt að vera. Jeg veit, að þetta tíðkast hjer í Reykjavík, hvernig sem annarsstaðar er. Þeir hafa haldið andvirði afurðanna og selt það kaupmönnum, sem aðeins hafa um það hugsað að ná í útlent fje, hvað sem það kostar. Þeim má standa alveg á sama, því þeir leggja alt á vöruna og meira til. Þetta hefir haft veruleg áhrif á gengishækkunina, auk þess sem það hefir aukið eyðsluna í landinu og dregið mjög úr kaupgetu manna. Bankarnir, sem er það nauðsynlegt að hafa „control“ með og helst að ráða yfir öllum erlendum gjaldeyri, hafa staðið alveg varnarlausir gagnvart þessu braski og bauki.

Bankarnir hafa því oft hreyft því, að eitthvað þyrfti að gera til að stemma stigu fyrir þessu, og flestir, ef ekki allir stærri útflytjendur hafa líka sjeð og viðurkent þörfina til þess, og mjer er kunnugt um, að þeir hafa hugsað sjer að taka málið í sínar hendur, mynda sjálfir eigin gjaldeyrisnefnd. Þó ekkert hafi orðið úr því, virðist óumflýjanlegt að skipa þessu máli með lögum, að skipa sjerstaka gjaldeyrisnefnd, er sje svo samansett, að vissa sje fyrir því, að hana skipi þeir einir menn, er bera fult skynbragð á málið. En að öðru leyti verður stjórnin að hafa framkvæmd þessa máls.