15.03.1924
Neðri deild: 24. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í C-deild Alþingistíðinda. (2773)

79. mál, sparisjóðir

Flm. (Magnús Torfason):

Jeg hefi ekki miklu að svara.

Hvað því viðvíkur, að farið er fram á að takmarka fje, sem lánað er út á sjálfskuldarábyrgð og víxla, þá var það ákvæði í lögunum 1913, og hefði betur farið, að það hefði þá strax verið samþykt, þótt einstöku sparisjóðir hafi komist klaklaust af, af því þeim var stjórnað af sjerstaklega góðum mönnum, en kóngarnir hafa jafnan verið misjafnir.

Hv. 2. þm. Skagf. (JS) var hræddur um, að þetta frv. myndi kyrkja sparisjóðina og þeir kæmu ekki út fje sínu, en það er gert ráð fyrir, að þeir kaupi bankavaxtabrjef og ríkisskuldabrjef, ef ekki er pláss fyrir sparisjóðsfjeð gegn fasteignaveði innan sýslunnar, en þar sem svo er ástatt, eru menn sjerstaklega vel stæðir og þurfa lítið á víxlum og ábyrgðum að halda. Eins var hv. þm. (JS) móðgaður af því, að jeg hafði nefnt okurholur. En það er bara blár og ber sannleikur. Jeg held að Landsbankinn hafi aldrei gefið nema 5% vexti af sparisjóðsfje, og það um stuttan tíma, venjulegast 4½%, en sumir sparisjóðir hafa leyft sjer að keppa við Landsbankann og gefið 6% vexti. Og þetta kapp hefir einmitt gert það að verkum, að þeir hafa farið á hausinn. Vitanlega dettur mjer ekki í hug að bera sparisjóðum það yfirleitt á brýn, að þeim sje stjórnað eins og okurholum, en þeir 4 sparisjóðir, sem jeg er kunnugastur, hafa gefið 6% í vexti, og eru útlánsvextirnir auðvitað því hærri, en slíkt fyrirkomulag bendir til svindilbrasks.

Jeg er ekki kunnugur sparisjóðum norðanlands, nema hvað um einn þeirra er sagt, að honum sje vel stjórnað. En þessi ákvæði koma ekki við þá sjóði, sem vel er stjórnað, og þar sem hagur manna er góður, en þegar hagurinn er vondur, þá reynir fyrst á lögin, og eru þau til þess gerð að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í hann, en fara ekki að eins og 1913, þegar sagt var: „Við skulum láta reynsluna skera úr,“ eða með öðrum orðum, stefnan var þá að láta barnið drukna áður en brunnurinn væri byrgður.