01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í C-deild Alþingistíðinda. (2792)

139. mál, almenn sjúkratrygging

Flm. (Jón Sigurðsson):

Það, sem hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hafði einkum að athuga við frv. þetta, var, að hjer er um nefskatt að ræða. Svo er það í rauninni um allar tryggingar. Hjá Norðmönnum er þetta t. d. eins. Sá munurinn er þar aðeins á, að það eru atvinnurekendurnir, sem leggja út fjeð, en halda því eftir af kaupi verkafólksins; það er því einungis fyrirkomulagsatriði. Það, sem einkum vakti fyrir hv. þm. (JBald) var, að þetta kæmi ranglátlega niður. En þess er hjer að gæta, að þeir efnuðu greiða í þennan sjóð eins og þeir, sem fátækari eru, en aftur á móti eru líkur til, að þeir um langt skeið hafi sjálfir ekkert beint gagn af honum, því það liggur í hlutarins eðli, að slíkur sjóður yrði ekki svo aflögufær fyrstu árin, að búast megi við að allir geti fengið sjúkrastyrk, og þess verður sjálfsagt nokkuð langt að bíða, þangað til hann er orðinn svo stór. Hjer kemur því til að standa líkt á og með ellistyrktarsjóðina, sem þegar hafa gert stórgagn og hafa þegar forðað fjölda fólks frá sveitinni.

Þá kunni hv. þm. (JBald) því illa, að sjúklingar þurfi að sækja um styrkinn, en jeg tel það mjög lítilfjörlegt atriði, sem ekki getur skift miklu máli, en það er eðlileg afleiðing af því skipulagi, sem frv. gerir ráð fyrir. Í þessari nefnd, sem styrknum úthlutar, kemur hjeraðslæknir að sjálfsögðu til að eiga sæti, og er hann flestum mönnum kunnugri um ástand manna í þessu efni. Efast jeg ekki um, að þessi nefnd muni vinna sitt starf eftir bestu samvisku, og er engin ástæða til að gera ráð fyrir hlutdrægni hjer, frekar en um aðrar styrkveitingar.

Þá kom hv. þm. (JBald) að einu af verkefnum frv., að ljetta með þessu berklavarnakostnaðinum af ríkissjóði og sýslusjóðunum, og mjer skildist, að honum þætti miður, hve mikið af fje sjóðsins gengi til þess. En jeg býst við, að hann sje nokkuð einstæður með þessa skoðun, enda væri það undarlegt, ef gengið væri fram hjá þessum hættulega og langvinna sjúkdómi, er slík lög væri sett, enda þótt mikið fje gangi til þess, þá verður þó nokkur afgagur til annara þarfa, og jafnframt ætlast til, að 1/10 hluti af árlegum tekjum sjóðsins leggist við höfuðstólinn, og yrði hann þá eftir nokkurn tíma orðinn að miklu fjársafni, sem með tíð og tíma getur gefið meiri vaxtatekjur en sem því nemur, sem nú er varið til berklavarnanna. Jeg skal nú ekki orðlengja þetta meira, en vona, að hv. deild láti frv. fara til 2. umr. og allshn.