07.04.1924
Neðri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í C-deild Alþingistíðinda. (2796)

123. mál, sérleyfi til að reka víðboð

Flm. (Jakob Möller):

Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er flutt sem umsókn frá hlutaðeigandi manni. Málið er þannig vaxið, að hv. þm. hafa fengið glöggva hugmynd um, hvað um er að ræða, af greinargerð þeirri, sem frv. fylgir, og vil jeg ekki fara að tefja tímann að óþörfu með því að fara að lýsa því alment, hvað við sje átt. Að öðru leyti verður mál þetta best athugað í nefnd, og vænti jeg, að hv. deild leyfi því að fara til 2. umr. og til allshn. (BL: Til samgöngumálanefndar!) Það gæti auðvitað komið til mála að vísa því til samgmn.; geri jeg það ekki að neinu kappsmáli.

Jeg skal svo að endingu vekja athygli á því, að gert er ráð fyrir, að fyrirtækið komi ekki til framkvæmda fyr en 24 mánuðir eru liðnir. En auðvitað er til þess ætlast, að stjórnin veitir ekki þetta sjerleyfi fyr en fulltrygt er, að úr framkvæmdum verði.