22.04.1924
Neðri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í C-deild Alþingistíðinda. (2806)

138. mál, happdrætti

Sigurjón Jónsson:

Jeg held, að það væri öllu betra, að umræður um mál þetta væru látnar bíða, þangað til menn hafa sett sig vel inn í það. Mjer finst það koma skýrt fram, sjerstaklega hjá andmælanda þess, hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að hann og aðrir hafi ekki sett sig vel inn í málið.

Hið fyrsta, sem hann ber fram, er það, að við flm. göngum með þessu frv. erinda útlendra manna, til þess að þeir geti haft fje af landsmönnum. Jeg veit, að þegar hv. þm. (JakM) skoðar þetta með nákvæmni, þá fær hann ekki einu sinni sannfært sjálfan sig um, að það sje rjett, hvað þá aðra. Annars furðar mig á því, að hv. þm. (JakM) skuli leyfa sjer að slá slíku fram hjer í salnum. Í öðru lagi kemur hann fram með ýmislegt í málinu, sem er alls ekki rjett. Hann gerir t. d. ráð fyrir, að ágóði leigutakanna verði 20–30%. Þetta nær ekki nokkurri átt. Það er gert ráð fyrir 27% brúttóágóða í frv., en hv. þm. (JakM), og þm. yfirleitt, vita, að til hlutasala er minst reiknað 10–15%. Þegar þessutan er tekinn með símakostnaður og burðareyrir undir póst, skrifstofu- og stjórnarkostnaður, þar sem fjelagið hefir aðalaðseturstað sinn, þá sjá allir, að hagnaður leigutakanna verður lítill á móts við það, sem hv. þm. (JakM) hefir kastað fram. Hinsvegar er sjálfsagt, að menn geri sjer grein fyrir, fyrst því, hvað landsmenn geti látið af mörkum með þeirri hlutasölu, sem gert er ráð fyrir, og að hinu leyti, hve marga hluti verði að selja utanlands, til þess að ekki sje haft fje af landsmönnum. Við flm. höfum gert okkur grein fyrir þessu, hve mikið verði að selja utanlands til þess að fje hafist ekki af landinu, og við höfum komist að raun um, að það er sáralítið. Og jeg veit, að hv. þm. (JakM) setur sig alveg inn í þetta atriði og önnur, þegar það er komið til væntanlegrar nefndar, sem hann á sæti í.

Það er annað atriði, sem enn hefir ekki verið minst á, en hefir hrint þessu máli mest á stað, það eru þau hlutakaup, sem þegar hafa átt sjer stað og ómögulegt er hjá að komast. Við flm. höfum athugað það mjög vel, bæði áður en við komum á þing og eins nú á þingi, og okkur er ljóst, að mikið fje fer út úr landinu á þennan hátt, svo mikið fje,. að það er verulega tilfinnanlegt fyrir þjóðina. En við flm. álitum, er við höfðum hugsað málið, að ekki væri hægt að taka fyrir kaup eða sölu þessara erlendu hluta, nema með því að koma á fót innlendu fyrirtæki, sem fullnægt gæti kauplöngun og kaupgetu fólks í þessu efni. Og það mun sannast, að það verður ekki hægt á annan hátt.