07.04.1924
Efri deild: 42. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í C-deild Alþingistíðinda. (2811)

122. mál, verðtollur á nokkrum fyrirliggjandi vörubirgðum

Flm. (Jónas Jónsson):

Eins og hv. deildarmenn mun reka minni til, gat jeg þess í umr. um verðtollinn, að komið gæti til mála að færa hann einnig yfir á þær vörubirgðir, sem fyrirliggjandi væru í landinu, af hinum tollskyldu vörum. En þar sem hæstv. fjrh. (JÞ) hefir ennþá ekkert svar gefið viðvíkjandi þessu atriði, taldi jeg rjett að láta frv. það, sem hjer liggur fyrir, koma fram. Því að það er önnur leiðin af tveimur, sem fara þarf í þessu máli. Fyrsta hugsanlega leiðin er sú, að stjórnin geri nú þegar ráðstafanir til að halda niðri verðinu á hinum fyrirliggjandi vörubirgðum. En önnur sú, sem frv. þetta fer fram á, að hinn sami verðtollur verði einnig látinn ganga yfir þær vörubirgðir, sem til eru af þeim vörutegundum, sem tollur þessi nær til, þegar lögin gengu í gildi.

Jeg skal strax játa, að jeg tel fyrri leiðina æskilegri, að reynt yrði að halda verðinu niðri á vörunum, og gegn því eru það engin rök, sem sumir háttv. þm. hafa viljað halda fram, að verðið á fyrirliggjandi birgðum myndi ekki verða hækkað í skjóli verðtollsins, því að altaf má um það deila fram og aftur, hvort vörurnar hafi verið hækkaðar eða ekki. En eftir allri verslunarvenju má fullkomlega gera ráð fyrir, að allar fyrirliggjandi vörubirgðir, sem tollur þessi nær til, verði hækkaðar, að því er honum nemur, þegar lögin eru alment farin að verka.

Þar sem nú ekki bólaði á neinu frá hæstv. stjórn í þá átt að halda verðinu niðri, taldi jeg skyldu mína að koma fram með þetta frv.

Þá hefir því verið haldið fram, að erfitt myndi fyrri verslunarhús, sem ættu sinn helminginn af hvoru, gömlum og nýjum vörubirgðum, að gera mun á verði þeirra, en jeg hygg, að það sje auðvelt, með þeirri leið, sem frv. fer fram á, og þó að ýmsir óttist, að ef sú leið verður farin, þá þurfi að endurgreiða einhverjum toll þennan, þegar lögin ganga úr gildi. En ekkert beint samband er á milli í þessum efnum. Það eru ekki sömu menn, sem eiga birgðir nú og kunna að eiga. Þá geta það orðið alt aðrir menn. Er þetta því út af fyrir sig engin ástæða.

Jeg tel nú rjett, að máli þessu verði vísað til nefndar, að umræðunni lokinni, og þá vitanlega til fjhn.