07.04.1924
Efri deild: 42. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í C-deild Alþingistíðinda. (2813)

122. mál, verðtollur á nokkrum fyrirliggjandi vörubirgðum

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg hjelt, að hæstv. fjrh. (JÞ) myndi nota tækifærið til þess að skýra þinginu frá, hvað hann ætlaði að gera til þess að halda vöruverðinu niðri, ef frv. þetta yrði ekki samþykt. Þar sem þurfa mun ný lög til þess að skipa verðlagsnefnd, vil jeg óska að fá nánari skýrslu frá honum um þetta atriði, því að vel gæti komið til mála, að jeg tæki frv. þetta aftur, ef jeg fengi áreiðanlegar upplýsingar frá hæstv. stjórn um það, að hún ætlaði að gera ráðstafanir til að halda niðri verðinu á hinum fyrirliggjandi vörubirgðum. Fái jeg þær ekki, læt eg frv. mitt halda áfram.