26.02.1924
Neðri deild: 8. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í C-deild Alþingistíðinda. (2818)

32. mál, vörutollur

Flm. (Jón Sigurðsson):

Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er enginn nýr gestur í þinginu. Eins og flestum hv. þm. mun kunnugt, þá lá það fyrir í fyrra, og var þá samþ. hjer í hv. deild með nokkrum breytingum. Síðan fór það til Ed., en dagaði þar uppi í nefnd.

Enda þótt nú mörgum hv. þm. muni síðan í fyrra vera kunnugt um ástæður þær, er við flm. bárum þá fram fyrir því, þykir mjer alt að einu hlýða að láta nokkur orð fylgja því úr garði nú, sjerstaklega þar sem nokkrir nýir þm. eiga hjer sæti.

Eins og öllum er vitanlegt, þá var það styrjöldin mikla og fjárkreppa sú, er af henni leiddi, sem fyrst kendi þjóðunum fyrir alvöru, hversu mikil nauðsyn var á því fyrir þær að búa sem mest að sínu og vera sjálfum sjer nógar í sem flestum greinum. Því hafa flestar þjóðir lagt meiri áherslu á það að styðja og vernda innlenda framleiðslu en áður þektist, og það jafnvel þær þjóðir, sem minst hirtu um það fyrir stríðið. Aðalleiðin, sem farin hefir verið í þessu skyni, hefir verið sú, að reyna að bægja erlendum þjóðum frá innlenda markaðinum, til þess að láta heimamarkaðinn njóta hans sem best. Í þessu sambandi þarf ekki annað en minna á ullartollinn í Ameríku og kjöttollinn í Noregi og nýlega las jeg um það í dönskum blöðum, að Danir væru í þann veginn að breyta tollalöggjöf sinni og færa hana út, og svo leit jeg til, að sumar íslenskar vörutegundir myndu falla þar inn undir, svo sem selskinn, dúnn og fleira. Afleiðing alls þessa verður sú, að þjóðirnar hrekjast land úr landi með vörur sínar, og höfum vjer Íslendingar þegar fengið á því að kenna, og sitjum vjer nú yfir einu slíku máli. Það liggur því i augum uppi, að oss er það lífsnauðsyn að nota sem best markaðinn í okkar eigin landi, og ekki verður þá heldur annað sagt en að það sje óeðlilegur innflutningur, að vjer skulum fá frá útlöndum árlega mikið af þeim vörutegundum, sem mest er framleitt af eða hægt að framleiða í landinu sjálfu, svo sem kjöt og fiskur ýmiskonar, o. m. fl., og gjalda við okurverð. Á það er líka að líta, að erlendar þjóðir gera oft mikið til þess að styðja framleiðslu sína til þess að bola framleiðslu annara landa úr vegi, og mun ekki alveg dæmalaust, að erlendum þjóðum hafi á þann hátt tekist að gereyðileggja innlenda framleiðslu. Þær vörutegundir, sem þannig eru styrktar af því opinbera, er auðvitað hægt að selja mjög lágu verði, og því er samkepnin oft örðug við þær. Af þessu tvennu, sem jeg nú hefi nefnt, höfum vjer fengið að reyna hið fyrra, en máske ekki ennþá hið síðara. En mál er samt komið til að hyggja að, hvar vjer stöndum og hvernig vjer erum búnir undir það, að mæta þessari hættu. Og sorglegur sannleikur er það, að ekki verður annað sjeð en vjer sjeum mjög lítið viðbúnir. Vjer höfum ennþá allar dyr opnar og fáar þjóðir sýna atvinnuvegum sínum slíkt kæruleysi, nema kanske Englendingar, og er þó ólíku saman að jafna.

Mín skoðun er nú sú, að vjer verðum að veita atvinnuvegum vorum meiri vernd; í fyrsta lagi til þess að vernda markaðinn heimafyrir fyrir innlenda framleiðslu, í öðru lagi til þess að standast samkepni við þá erlenda framleiðslu, sem stuðnings kann að njóta frá hinu opinbera, og í þriðja lagi, sem er vel þess vert að sje athugað, nefnilega til þess að hjálpa nýjum atvinnurekstri á fætur. Þetta tel jeg höfuðástæðurnar fyrir því, að rjett sje að fara þessa leið, og í þá átt er þessu litla frv. ætlað að miða.

Mín skoðun var sú, að best væri að fara gætilega af stað í þessu og taka með fyrst í stað það allra nauðsynlegasta. Einnig get jeg búist við því, að ýmsum þyki það orka tvímælis, hvort tiltækilegt sje, að leggja verndartoll á niðursoðna mjólk. Það mun hafa mætt talsverðri mótspyrnu á þinginu í fyrra, en við flm. frv. höfum samt tekið hana upp, þar sem vjer vildum gjarnan leita úrskurðar þingsins um hana. Er það líka kunnugt, að fjelag nokkurt í Borgarfirði mun komið vel á veg í því að undirbúa niðursuðu mjólkur, en hinsvegar fer, eins og allir vita, stórfje árlega fyrir þessa vörutegund út úr landinu.

Þá get jeg enn búist við því, að einhverjir, sem eru á móti innflutningshöftum, leggist á móti frv. En þegar betur er að gætt, geta menn sjeð, að það ætti ekki að hamla framgangi þessa máls. Eins og allir menn vita, má altaf eiga von á því, að flóð komi eftir fjöru, og frv. þessu, ef það nær að verða að lögum, er einmitt ætlað að stemma stigu fyrir því flóði, sem jeg þykist viss um að verði, þegar fyrirhuguðum innflutningshöftum verður ljett af.

Annars vil jeg ekki fara frekar út í einstaka liði frv. nú, þar sem jeg lít svo á, að langar umræður eigi ekki við og sjeu óþarfar við 1. umr.

Að lokum vil jeg vænta þess, að hv. deild láti frv. ganga til fjhn.