29.04.1924
Neðri deild: 58. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

1. mál, fjárlög 1925

Jón Baldvinsson:

Jeg hefi leyft mjer að flytja nokkrar brtt., sem jeg kemst ekki hjá að minnast nokkuð á. Fyrsta brtt. mín, á þskj. 463, fer í tekjuáttina. Jeg vil sem sje hækka áætlunina í 2. gr. 14 úr 600000 kr. í 1100000 kr. Svo stendur á þessari brtt., að mjer virtist hv. Ed. hafa farið skemra í hækkun sinni á þessum lið en rjett væri. Þegar verðtollsfrv. kom fram hjer í hv. deild, var í nefndaráliti fjárhagsnefndar jafnvel gert ráð fyrir því, að tekjurnar af þeim tolli yrðu ekki minni en 1 milj. kr. á ári, en brtt. mín gerir ekki ráð fyrir meiri hækkun á stimpilgjaldinu, sem þessi tollur er fólginn í, en 800 þús. kr. frá því, sem var í frv. stjórnarinnar. Nú eru að vísu margar af þessum vörutegundum bannaðar í bili, en þegar litið er á, hvað gerst hefir síðan frv. um verðtollinn kom fyrst fram, má búast við, að tollurinn verði miklum mun hærri en þá var gert ráð fyrir. Það er kunnugt, að hæstv. stjórn hefir lýst yfir, að hún ætli að beita höftum eftir því, sem fjárhagur ríkissjóðs leyfði. Og tveir hæstv. ráðherrar hafa lýst yfir, að þeir hafi enga trú á höftum, þó að þeir geri ráð fyrir, að þau verði að standa fyrst um sinn. Má því búast við, að mjög bráðlega komi ný reglugerð um bann gegn innflutningi, sem sje að einhverju leyti frábrugðin þeirri, sem nú gildir, sennilega á þann hátt, að það skuli lagt undir úrskurð stjórnarinnar, hvað leyft skuli að flytja inn í hvert sinn, eða þá að sumt, sem nú er bannað, verði ekki heft með öllu. Eftir því sem meiri hluta hæstv. stjórnar hefir farist orð, má við því búast, að fastlega verði haldið til ríkissjóðsins og að meira verði um hann hugsað, en minna um höftin. Jeg tel rjett að taka það fram í fjárlögunum, hve miklum tekjum má gera ráð fyrir af þessum tolli, og hygg jeg, að brtt. mín sje ekki fjærri sanni, en þó má vera, að hún áætli heldur lágt. Jeg viðurkenni að vísu, að breytingar hafa verið gerðar á verðtollsfrv., sem draga nokkuð úr þeim tekjum, sem gert var ráð fyrir í upphafi, en þegar litið er til yfirlýsinga hæstv. ráðherra, má búast við, að talsvert langt verði gengið í því að láta verðtollinn ná til sem mests af vörum og banna síður innflutning. Hygg jeg því mjög sanngjarnt að áætla þennan lið eins og brtt. mín fer fram á.

Þá hefi jeg flutt aðrar brtt., er miða til útgjalda. Við 2. umr. hjer í hv. deild flutti jeg tillögu um að veita 5000 kr. til styrktarsjóðs verkamanna- og sjómannafjelaganna í Rvík. Lýsti jeg þá starfsemi þessa sjóðs og hve miklu fje væri varið úr honum árlega til þess að styrkja þá menn, sem verða fyrir slysum eða veikindum. Var vel tekið í þetta af mörgum hv. þm., þó að engin tillaga mín um styrk til þessa sjóðs yrði þá samþykt. En ýmsir ljetu í ljós við þá umræðu, að þeir mundu geta fallist á að samþykkja einhverja lægri fjárhæð en jeg fór þá fram á. Ber jeg því fram þessa tillögu með enn lægri upphæð, í þeirri von, að menn geti fallist á að samþykkja hana, svo hóflega sem hjer er farið. Sjóður þessi er nú um 100 þús. kr., og er vöxtum hans varið árlega til styrktar mönnum, sem verða fyrir slysum og veikindum. Auk vaxtanna fær sjóðurinn tillög frá ýmsum fjelögum, sem nema hálfum tekjum hans, eða rúmlega 2000 kr. Vænti jeg þess, að hv. deild samþykki þessa fjárveitingu, og það því fremur, sem þingið hefir talið slysatryggingarmálið hið mesta nauðsynjamál, þó að sjerstök lög um það hafi ekki verið samþykt ennþá.

Þá kem jeg að brtt. minni á þskj. 463, við 16. gr. 41, en það er nýr liður um að veita 500 þús. kr. til lögheimilaðra framkvæmda í atvinnubótaskyni. Jeg þykist sjá fram á hið megnasta atvinnuleysi, að minsta kosti í kaupstöðum, eins og 2 síðustu árin. Það hefir komið í ljós 2 undanfarin ár hjer í Reykjavík, að jafnvel þegar mest atvinna er hjer á vetrum, komast ekki nándarnærri allir verkamenn að störfum. Nú um vertíðina í vetur eru það ekki minna en 200–300 manns, sem verða að ganga frá án vinnu á hverjum morgni. Þegar til lengdar lætur getur ekki hjá því farið, að þessir menn verði að leita fátækrastyrks úr sveitarsjóði, eða það opinbera verður að fylla í skörðin, þar sem atvinnurekstur einstakra manna nær ekki til. Atvinnutæki einstaklinganna eru yfirleitt ekki það mikil, að þau nægi öllum, sem þurfa atvinnu. Nú eru allar horfur á því, að næsta sumar taki algerlega, eða því sem næst, fyrir alla húsagerð hjer í bænum, sem hefir verið allmikil síðastliðin sumur og veitt fjölda manna atvinnu. En af því leiðir, að allur fjöldi iðnaðarmanna, trjesmiða og steinsmiða, sem hafa haft atvinnu við húsagerð, bætist í hóp atvinnuleysingjanna.

Menn hljóta því að sjá, að það væri ekki að ástæðulausu, að ríkissjóður hjeldi uppi einhverjum atvinnubótum, til þess að draga úr atvinnuleysinu. Bæjarfjelagið hefir viðurkent að nokkru leyti á síðustu árum skyldu sína til þess að sjá mönnum fyrir atvinnu. Hefir það látið vinna ýms verk, sem að vísu voru nauðsynleg, en þó hefði mátt fresta. Er það beinlínis gert í sparnaðarskyni, því að auðsær sparnaður er að því að veita mönnum atvinnu við nauðsynlegar framkvæmdir, í stað þess að láta þá ganga vinnulausa og veita þeim svo fátækrastyrk úr sveitarsjóði. Síðastliðið sumar hafði Reykjavíkurbær 2 allstór verk með höndum, sem gáfu töluverða atvinnu. Bæjarsjóður ljet gera nýja vatnsleiðslu og svo þurfti að gera við hafnargarðinn, sem brotnaði í fyrravetur. Nú eru engar líkur til svipaðra framkvæmda á sumri komanda, bærinn lætur lítið af hendi rakna í því skyni, og í gildandi fjárlögum er ekki gert ráð fyrir, að ríkissjóður ráðist í neinar framkvæmdir.

Nú er stjórninni með lögum heimilað að ráðast í ýmiskonar verk, sem hún getur látið framkvæma þegar er hún hefir fje til þess. Skal jeg minna á lög um húsabyggingar ríkisins, þar sem meðal annars er gert ráð fyrir, að reistur verði landsspítali og geðveikrahælið stækkað. Til þessa hefir stjórnin heimild, auk brúarsmíða og vegagerða eftir þar til settum lögum. Eftir tillögu minni er lagt undir stjórnina, hvað hún vill ráðast í og hvernig hún telur heppilegast að verja þessum 500 þús. kr. Þá er nokkru af þeim tekjuauka, sem þingið hefir tekið, sumpart af fátækasta lýðnum, með verðstollslögunum, varið til að hjálpa fátæklingum. Það er enginn vafi á því, að þau lög, verðtollslögin, auka dýrtíð í landinu, sem legst þyngst á þá, sem úr litlu hafa að spila, og er því sanngjarnt, að nokkru af því fje sje varið til þess að ljetta undir með þeim.

Jeg tel sjálfsagt, að þessi tillaga verði samþykt, og auðvitað ætti hæstv. stjórn að vera ljúft að mæla með henni. Hún hefði þá heimild í fjárlögum, ef hún neyddist til að ráðast í einhverjar framkvæmdir, sem annars þyrfti aukafjárveitingar til. Ætti hæstv. stjórn því að taka þessari tillögu fegins hendi.

Þá hefi jeg enn flutt brtt. á þskj. 481, við 22. gr. II, þar sem ræðir um heimildir fyrir stjórnina. Vil jeg gera breytingu á þeim lið, sem heimilar stjórninni að greiða Eimskipafjelagi Íslands alt að 60 þús. kr. styrk. Þegar þessi liður komst inn í fjárlögin fyrir þetta ár, hugði jeg, eftir orðalaginu að dæma, að einungis væri um það að ræða að setja inn upphæð, sem aldrei væri ætlað að greiða. Þessi heimild ætti einungis að sýna keppinautum fjelagsins, ef í harðbakka slægi, að það ætti vísan stuðning ríkissjóðs. Nú hefi jeg heyrt, að styrkur þessi hafi verið greiddur þegar í ársbyrjun, og má því gera ráð fyrir, að hann verði einnig greiddur að ári, þó að liðurinn sje orðaður eins og nú er. Þetta finst mjer ekki geta gengið ár eftir ár, að ríkissjóður leggi fjelaginu styrk og fái ekkert í staðinn. Hefir mjer því komið til hugar, að í stað þessa mætti koma heimild til þess að verja alt að 60 þúsundum króna til hlutabrjefakaupa í fjelaginu. Tel jeg þetta rjetta leið til þess að hjálpa fjelaginu til þess að komast yfir mestu erfiðleikana, ef það er í fjárhagsvandræðum, enda er algengt, að fjelög auki hlutafje sitt, þegar svo stendur á. Og því fremur ætti að velja þessa leið, sem fjelagið greiðir engan arð af þessum hlutabrjefum frekar en hluthöfum sýnist. Auðvitað eru heldur engir vextir greiddir af styrknum, ef hann fær að standa, — því það er gjöf — en mjer þykir einkennilegt að veita fjelaginu slíkan styrk sem þennan. Ríkissjóður mun nú eiga ekki allfáa hluti í fjelaginu, og sje jeg ekkert á móti því að auka við þá eign, ef fjárhagur fjelagsins er erfiður. Einhver skaut því að mjer, er tilrætt varð um þetta, að rjettast væri, að ríkið tæki forgangshlutabrjef, en jeg taldi það ekki eiga við. Jeg vil ekki líta svo svart á ástæður fjelagsins, að jeg örvænti um hag þess, en það liggur beint við, ef krafist er forgangshlutabrjefa.

Jeg leyfi mjer að vænta þess, að hv. deild fallist á þessa tillögu. Þetta hefði átt að gera í fyrra, í stað þess að veita stjórninni heimild til þess að greiða fjelaginu styrk. Úr því verður ekki bætt, þar sem styrkurinn hefir verið greiddur fjelaginu, en nú er tækifærið til þess að samþykkja ekki beina styrkveitingu, heldur hjálpa fjelaginu yfir erfiðleikana með því að kaupa hluti í því. Vilji fjelagið ekki þiggja stuðning í þessari mynd, gefa út ný hlutabrjef, ef engin liggja óseld hjá fjelaginu, þá nær það ekki lengra. Þá er fjelagið ekki svo hjálparþurfi sem látið er, ef það vill ekki vinna til að gefa út ný hlutabrjef, sem ríkissjóður kaupi. Það er sæmileg leið, en hitt er hálfgerð ölmusa, að veita fjelaginu styrk með þeim ummælum, sem nú standa í frv.

Þá vildi jeg minnast stuttlega á eina brtt. hv. fjvn. á þskj. 460, XV,2, um lækkun á styrknum til Þórbergs Þórðarsonar. Háttv. nefnd hefir verið iðin við að fella þennan styrk í burt eða lækka hann. Tókst það, illu heilli, við 3. umr. hjer í hv. deild, en hv. Ed. hefir í þetta sinn bjargað málinu, svo að nú er styrkurinn 1200 kr. Nú vill hv. nefnd aftur lækka hann um 200 kr. Ef öllu á að bjarga með þessu, mun ekki ofsögum sagt, að fjárhagurinn sje erfiður. Jeg hygg, að verði enn klipið af þessum styrk, fáist hlutfallslega minna fyrir það fje, sem til þessa er veitt, heldur en ef upphæð hv. Ed. er látin standa. Það er sýnilegt, að maðurinn getur gefið sig miklu minna að þessu starfi, ef svo er skorið við neglur sjer, sem hv. nefnd ætlast til. Þetta munar ríkissjóð engu, en getur verið dálítill stuðningur fyrir þennan mann og gert honum ljettara að vinna það nauðsynjaverk, sem hann hefir með höndum.

Jeg vil að lokum leyfa mjer að spyrja hæstv. stjórn, hvernig hún hugsi sjer að koma því fyrir, sem um ræðir í 16. gr. 16. Þar eru veittar 10000 kr. til erindrekstrar í Miðjarðarhafslöndunum, gegn tvöföldu framlagi annarsstaðar að, og kom þessi liður inn í hv. Ed. Mig langar til að fá vitneskju um það hjá hæstv. stjórn, hvernig hún hugsar sjer framkvæmdir á þessu og hvaðan tvöfalt fjárframlag á að koma. Vænti jeg þess, að hæstv. atvrh. (MG) geti skýrt frá þessu við þessa umr.