17.03.1924
Neðri deild: 25. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (2861)

78. mál, kennsla heyrnar og málleysingja

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er oft talað um þann reipdrátt, sem eigi sjer stað milli kaupstaða og sveita, en hlægilegt finst mjer það, ef einnig á að heimfæra þetta mál undir þá togstreitu. Það atriði, sem vjer flm. leggjum áhersluna á, er einmitt hagur þeirra, sem eru svo óhamingjusamir að þurfa að leita til þessa skóla, og vjer erum þess fullvissir, að þeim verði vistin í sveit miklu hollari, og að allra hluta vegna sje heilnæmast fyrir börnin að alast þar upp. Og jeg býst við, að þessir veslingar sjeu svo illa farnir, að aðrir verði að ráða fyrir þá.

Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) kastaði hnútum til fjvn. fyrir að hafa komið með þessa þál. Jeg vil nú gleðja hann með því, að fleiri sparnaðartillögur muni á eftir fara frá sömu nefnd. Það er auðvitað hreinasta tilviljun, að þetta frv. skyldi verða það fyrsta frá hendi fjvn., alveg á sama hátt og hundafrv. var hið fyrsta, sem kom frá hv. 4. þm. Reykv. (MJ), eftir að hinn voldugi íhaldsflokkur var settur á laggirnar. Það má spauga með slíkt, en varla draga neinar ályktanir af því.

Aðalatriði þessa máls er auðvitað það, hvar sje best fyrir þessi börn að alast upp. Um það má altaf deila. En hjer í Reykjavík eru þessir aumingjar svo miklu varnarlausari en heilbrigðir menn gagnvart þeirri hættu, sem þeim er búin af umferðinni. Og er þess skemst að minnast, að ekki alls fyrir löngu ók bifreið yfir einn af þessum aumingjum. Hann gat auðvitað ekki heyrt, þegar bifreiðin pípti.

Vel getur hv. 4. þm. Reykv. (MJ) fullyrt, að hjer geti skólinn orðið ódýrari en uppi í sveit. Og við vitum, að það er jafnan viðkvæðið, að alt geti orðið hjer ódýrara. En hvers vegna verður reyndin altaf sú, að alt er hjer allra dýrast? Með öðrum orðum, það er „theoretiskur“ möguleiki fyrir því, að hjer sje ódýrara, en þegar til framkvæmdanna kemur, þá verður alt annað uppi á teningnum.