09.04.1924
Neðri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í D-deild Alþingistíðinda. (2889)

103. mál, endurheimt ýmsra skjala og handrita

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg hefi þann heiður að vera flm. þessarar þáltill. ásamt hæstv. forseta þessarar deildar (BSv). Þetta er ekki í fyrsta skifti, sem málið kemur fyrir Nd. Hygg jeg, að jeg geri besta grein fyrir málinu með því að rekja sögu þess, og vil jeg þá fyrst leyfa mjer að lesa upp þáltill. þá, sem núverandi skjalavörður, Hannes Þorsteinsson, flutti á Alþingi 1907. Les jeg þá upp till., með leyfi hæstv. forseta:

„Neðri deild Alþingis ályktar að skora á stjórnina að gera ráðstafanir til þess, að skilað verði aftur landinu öllum þeim skjölum og handritum, sem fyrrum hafa verið ljeð Árna Magnússyni og eru úr skjalasöfnum biskupa, kirkna, klaustra og annara embætta og stofnana hjer á landi, en hefir ekki verið skilað til þessa“.

Vil jeg því næst taka mjer í munn þau orð, sem flutningsmaður málsins þá hafði að áhersluorðum:

„Vjer viljum ekki beita neinni ósanngirni í þessu, en rjett vorn viljum vjer hafa óskertan“.

Flutningsmaður flutti merkilega ræðu um málið. Hann gat þess meðal annars, að Árni Magnússon hefði fengið fjölda mörg skjöl og handrit að láni, sem hann síðan hefði ekki skilað aftur. Við lát hans innlimuðu þeir dönsku menn, er fjölluðu um safnið, skjölin orðalaust inn í það, jafnt þau, sem lánuð voru, og hin, sem Árni hafði þegið að gjöf eða keypt. Íslendingar höfðu engan á vaðbergi þar ytra, og komu því ekki fram nein mótmæli gegn því, að Danir slægju eign sinni á skjölin. Síðan hefir fæstu af þeim verið skilað aftur. Langsamlega meirihlutinn er ennþá í Kaupmannahöfn á ýmsum söfnum þar, svo sem í ríkisskjalasafninu og konunglega bókasafninu, en auðvitað meginhlutinn í safni Árna Magnússonar. Þegar stjórnin fluttist til landsins 1904, var íslenska ríkisskjalasafnið frá 1847 flutt heim, en öll eldri skjöl viðvíkjandi stjórn landsins eru ennþá í Kaupmannahöfn. Flutningsmaður gerði grein fyrir þessu öllu og lauk ræðu sinni með þeim orðum, sem jeg hefi áður upp lesið og vil gera að mínum.

Þegar þáltill. var borin fram, var Hannes Hafstein ráðherra. Hann tók því vel að fylgja fram þessu máli, og fól þegar eftir þing dr. Jóni Þorkelssyni skjalaverði að rannsaka málið. Ritaði hann bók, er hann nefndi: „Skýrsla um skjöl og handrit í safni Árna Magnússonar, sem komin eru úr opinberum skjalasöfnum á Íslandi“. Í ritinu er gerð glögg grein fyrir málinu með vísindalegri nákvæmni. Höfundurinn flokkar í fjóra aðalflokka hin opinberu íslensku skjalasöfn, er eigi skjöl í söfnum í Kaupmannahöfn: 1. Skjalasafn Skálholtsstóls. 2. Skjalasafn Hólastóls. 3. Skjalasöfn kirkna. 4. Skjalasafn Bessastaðamanna, klaustra og veraldarmanna. Um langflest skjölin sannar hann með óyggjandi rökum, að vjer eigum fullan rjett til þeirra. Orð dr. Jóns um þetta eru svo merkileg, að jeg get ekki stilt mig um að lesa upp kafla úr skýrslu hans, með leyfi hæstv. forseta. Hann bendir á, að

„ekki virðist mjög sanngjarnt, að af hendi Árna Magnússonar safns yrði krafist neins endurgjalds fyrir þau skjöl, sem órækt er um, að sjeu geymslufje“.

Og svo bætir hann því við, að öðru máli geti verið

„að gegna um það af opinberum skjölum og handritum, sem Árni hefir safnað saman hjer og hvar af refilstigum og ef til vill þægt eitthvað fyrir“.

Og enn segir hann:

„Að öðru leyti kemur það ekki hjer til greina að metast um það, hvað Árni hafi frelsað frá glötun af skjölum og handritum, en í hinum opinberu skjalasöfnum hjer á landi hefir enginn gert meiri glundroða en hann, og líklega hjá engum meira úr þeim glatast, og það voru engin bjargráð við þetta land, nje í þess þágu gert, að hann flutti skjalasöfn Hólastóls og klaustranna úr landi. Þau hefðu verið til eins fyrir því, þó að hann hefði látið það ógert. Munurinn var sá, að þau hefðu þá verið hjer á landi nú“.

Loks segir dr. Jón, að að vísu megi Dönum vera söknuður að þessum skjölum.

„En hins er þá jafnframt að gæta, hversu miklu sárara það má vera fyrir Ísland að vera — fyrir góðsemd og greiðasemi hinna fyrri yfirvalda hjer á landi við Árna Magnússon — án þess, sem það á, en fyrir þá, sem ekki eiga, heldur geyma, að skila geymslufjenu af höndum sjer“.

Á þinginu 1909 var málinu hreyft á ný. Bar þá núverandi forseti Nd., Benedikt Sveinsson, fram fyrirspurn um það til ráðherra, hvern árangur þáltill. hefði haft. Hannes Hafstein svaraði fyrirspurninni. Auk þess sem dr. Jón Þorkelsson hafði samið skýrslu sína, hafði Hafstein borið fram málið við dönsku stjórnina og ítrekað beiðni um svar. Kvað hann kenslumálaráðherrann hafa verið málinu hlyntan, en endanleg svör ekki komin frá forstöðumönnum safnanna. Lauk Hafstein síðan ræðu sinni á þessa leið:

„Jeg get vel ímyndað mjer, að hinn nýi ráðherra Íslands, Björn Jónsson, geti fengið áskorun Alþingis að mestu framgengt, ef hann fer vel og lipurlega í málið“.

En þær vonir hafa ekki ræst. Björn Jónsson virðist ekki hafa hreyft málinu, og skal ekkert efast um hans góða vilja, en hann var orðinn þreyttur og farinn að heilsu, og átti auk þess í allmikilli vök að verjast hjer heima fyrir. Síðan komu einskonar millibilsráðherrar, og loks skall heimsstyrjöldin á. Var þá auðvitað ekkert vit í því að flytja dýrmæt og óbætanleg skjöl á milli landa.

En auðvitað stendur það óhaggað, sem sagt hefir verið um málið, „að rjett vorn viljum vjer hafa óhaggaðan“.

Þá vil jeg aðeins lauslega víkja að öðru, og hefi jeg þó skrifað um það áður. Fyrir nokkru síðan birtist í „Berlingske Tidende“ í Kaupmannahöfn grein eftir mann nokkurn, sem H. O. Lange heitir og er yfirbókavörður við konunglegu bókhlöðuna í Khöfn. Skýrir hann þar frá, hvernig sjer hafi verið innanbrjósts, þegar ófriðurinn mikli var að byrja. En svo stendur á þar, að aðalherstöðvar Dana eru í miðri Kaupmannahafnarborg, en konunglega bókhlaðan, háskólabókasafnið og fleiri vísinda- og listasöfn eru þar í miðri borginni líka. Þá var talin vera talsverð hætta á því, að Danir gætu eigi haldið hlutleysi sínu, en mundu dragast inn í ófriðinn og lenda í hópi fjandmanna Þjóðverja. Var það því augljóst, að þjóðverjar mundu, ef til ófriðar kæmi við Dani, aðallega beina árásum sínum á Kaupmannahöfn, er aðalherstöðvarnar væru þar, og var því ákaflega mikil hætta á því, að söfnunum yrði hætt, ef skotið yrði á borgina. En í söfnum þessum eru margir og dýrir fjársjóðir geymdir, sem óbætandi væru, ef týndust í hernaðinum. Hr. Lange fór því á fund æðsta herforingja Dana og spurði, hvaða ráðstafanir væri hægt að gera til þess að bjarga söfnunum undan skothríð. Jeg ætla með leyfi hæstv. forseta að lesa upp nokkur atriði úr svörum hershöfðingjans, eins og jeg hefi þýtt þau upp úr blaðinu. Þar segir svo:

„það er alls eigi hægt að gera neitt til bjargar söfnunum. Bókhlaðan er á hinum allra hættulegasta stað, mitt á milli aðalstöðva hersins: herráðsins og vopnabirgðanna í hergagnabúrinu. Óvinirnir munu auðvitað beina skotum sínum þangað fyrst og fremst. Herskip, sem hefði langdrægar fallbyssur, getur legið úti á Kögeflóa og skotið þessi hús í rústir. Við getum ekki komið í veg fyrir það. Væntanlegir óvinir vita auðvitað, hvar helstu stöðvar hersins eru. Þeir munu alls eigi taka nokkurt tillit til vísindalegra stofnana. Það er ekki hægt að gera neitt fyrir bókhlöðuna. Það væri alveg tilgangslaust að flytja eitthvað af því dýrmætasta niður undir gömlu hvelfingarnar frá dögum Kristjáns IV. og bera þar að sandsekki. Skipabyssur nútímans skjóta í gegnum þetta alt. Það er ekkert hægt að gera. Þeir staðir eru ekki til í borginni, sem talist geta öruggir fyrir nútíma stórskotahríð, nema á sumum herstöðvunum. Bókhlaðan getur alls ekki notið góðs af þeim“.

Það er því með öllu ljóst orðið, að það er eigi einungis, að þessum dýrmætu skjölum er með órjetti haldið fyrir okkur suður í Kaupmannahöfn, heldur eru þau einnig í mikilli hættu stödd. Þau eru svo að segja sett á guð og gaddinn. Ef Danir lenda í stríði, er mikil hætta á því, að þessi skjöl verði öll gereyðilögð. Jeg vil minna á það, að í brunanum mikla í Khöfn fyrir 200 árum síðan varð safn Árna Magnússonar fyrir miklu og óbætanlegu tjóni, og ætti þetta því að vera okkur næg viðvörun að eiga skjölin ekki lengur á þessum stað. Það renna því tvær meginstoðir undir þetta mál, að vjer viljum fá vorn skýlausan rjett, og að geymslustaður þessi er illa valinn fyrir svo dýrmæta hluti.

Árið 1907 var alt Alþingi samhuga í því að fá þessum rjetti vorum fullnægt og heimta þessi skjöl aftur, og vænti jeg því, að hv. deild fallist og nú á þetta. Jeg vona einnig, að hæstv. forsrh. (JM) taki þetta mál að sjer og fylgi því rösklega fram, þrátt fyrir það, að hann hefir ekki nú, fremur en oft áður, sýnt þessari þingdeild þann sóma að vera viðstaddur umræður. Jeg vænti einnig, að Danir sýni oss sanngirni í þessu máli, eins og kenslumálaráðherra Dana fullyrti við Hannes Hafstein á síðustu stjórnarárum Hannesar, að hann væri þessu máli hlyntur og gerði fullkomlega ráð fyrir, að þeim mundi fást framgengt. Því vona jeg, að þetta beri góðan árangur nú. Vil jeg svo enda mál mitt með sömu orðum og Hannes Þorsteinsson á þinginu 1907: „Vjer viljum ekki beita neinni ósanngirni í þessu, en rjett vorn viljum vjer hafa óskertan“.