25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í D-deild Alþingistíðinda. (2901)

103. mál, endurheimt ýmsra skjala og handrita

Jón Baldvinsson:

Það munu ýmsir vera þeirrar skoðunar, að ástæðulaust sje að setja upp þessa smásölu hjer, sökum þess, að vel megi komast af með heildsöluna, án þess að hafa útsöluna. Man jeg, að það þótti yfirleitt gert á móti vilja bæjarbúa, þegar þessi vínverslun var sett hjer upp. Áður en bannlögin komust á, var það í lögum, að hvert hjerað skyldi með almennri atkvæðagreiðslu ráða því, hvort sölustaður með áfeng vín yrði settur í því hjeraði. Var farið fram á það í fyrra, að þessu væri aftur komið á, en þingið þorði það þá ekki, af hræðslu við Spánverja. Og hjer er nú komin fram till. um að fela útsöluna einstökum manni, og býst jeg við, eftir því sem hv. flm. (ÁÁ) fórust orð, að hún verði samþ., og það því fremur sem hæstv. forsrh. (JM) hefir nú lýst yfir því, að stjórnin hafi einmitt hugsað sjer að fara þessa leið. Það hefir stundum verið talað um að slá þessari vínverslun saman við landsverslunina, og hefir það verið fært fram sem ástæða, að spara mætti með því móti. Jeg hefi hjer til ekki skift mjer neitt af þessum umræðum, ekki af því, að mjer sje neitt óljúfur sparnaðurinn, heldur af hinu, að mjer stendur hálfgerður stuggur af þessu máli. Mjer finst eins og eitthvað óhreint hljóti jafnan að vera kringum þessa áfengisverslun, enda er það sjeð, að ekki fylgir þar nein gæfa fyrir þá, sem við hana eru riðnir. Nú er tvennskonar landsverslun í landinu: önnur með nauðsynjavöru, en hin með óþarfa vöru, áfengi. Þetta tvent er svo ólíkt, að það er svipað og dalirnir inni á öræfum, sem sagt er frá í þjóðsögunum, að hafi verið skrúðgrænir öðrumegin og þar ávalt sól og sumar, en hinumegin alt snævi þakið og þoka og drungi í lofti. Það er nokkuð áþekt með þessar verslanir ríkisins. Yfir annari hvílir velvilji þjóðarinnar, en að hinni standa hinar verri hvatir.

Þar sem talað er um að setja útsöluna í hendur einstaks manns, þá vantar algerlega upplýsingar um það, hvernig því skuli hagað. Hv. flm. (ÁÁ) bjóst við, að vínsalan yrði boðin út og fengin þeim í hendur, sem best byði og væri viðurkendur sómamaður. Það er nú alls ekki víst, að sá, sem best býður, sje viðurkendur sómamaður; hann gæti eins vel verið það gagnstæða.

Svo að jeg víki aftur að þeirri óheill, sem mjer virðist fylgja þessari verslun, þá finst mjer ekki rjett, að ríkið efni til nýrrar ógæfu fyrir einhverja einstaklinga þessa lands, með því að fá þeim þessa verslun í hendur. Þykir mjer maklegast, að ríkið beri sjálft fjanda sinn, þar til það verður fært um að senda þessa illu sendingu aftur til Spánverja.