25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (2903)

103. mál, endurheimt ýmsra skjala og handrita

Jón Baldvinsson:

Það er ekki rjett tilgetið, að jeg vilji halda fast í hverskonar ríkisrekstur sem er. Jeg myndi t. d. vera fús til að leggja niður áfengisverslun ríkisins þegar í kvöld, ef við losnuðum þar með við vínið.

Að því er snertir það, að hjer sje ekki um venjulega vínverslun að ræða, þá er það hlutur, sem ekki er hægt að segja fyrir. Það getur nokkuð farið eftir þeim kjörum, sem sett eru um útsöluna. Má eins vel búast við því, að þar verði um eitthvert hundraðsgjald að ræða, og þá er um leið vakin hvöt hjá sölumanninum til að selja sem mest af víninu. Jeg vil ekki neita því, að talsvert kunni að sparast með þessu móti, en þá verður ekki heldur framfylgt þeim reglum um söluna, sem gert hefir verið hjá ríkinu. Það hefir meðal annars verið talað mikið um að leggja niður spjaldskrárhaldið, og býst jeg við, að það myndi sjálfsagt verða niður lagt, ef svo yrði breytt til sem till. Þessi fer fram á. En að því óbreyttu sýnist mjer óvíst, hver spámaður yrði að þessu. Hjer er ekki um það að ræða, að ríkið losi sig alveg við vínverslunina, heldur aðeins smásöluna. Kostnaðurinn við hana hjer í Reykjavík mun vera nálægt 40 þús. kr., og getur vaxið; getur verið, að á þessu megi eitthvað spara, en ekki ýkjamikið. Og ástæðan til þess, að jeg felst ekki á till., er ekki sú, að jeg vilji halda þessari verslun hjá ríkinu. En jeg vil ekki varpa henni yfir á aðra, sem alveg eins má búast við, að þeim yrði til ills.