22.04.1924
Neðri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í D-deild Alþingistíðinda. (2911)

131. mál, slysatryggingar

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg hefi borið fram till. til þál. á þskj. 335. Þessi till. fer fram á, að skipuð sje nefnd til að semja frv. um slysatryggingu. Það mál hefir oft legið fyrir þinginu, og það hafa verið samþ. allmargar áskoranir til ríkisstjórnarinnar um að koma fram með frv. um það. Svo hefir þó ekki orðið, en sennilega eru þó allmiklar rannsóknir fyrir hendi hjá stjórninni og nokkuð búið að vinna að málinu. Það sem jeg hygg, að aðallega standi á, er sjálf framkvæmdin eða hvernig lögin eigi að vera, og þá sjerstaklega, hvernig fje eigi að koma til trygginganna, hvað trygðu mennirnir eða atvinnurekendumir eigi að leggja í tryggingarsjóðinn.

Nú sting jeg upp á, að sett sje nefnd, sem svo er skipuð, að ef hún verður sammála, má segja að atvinnurekendur og verkamenn hafi komið sjer saman um, hvernig framkvæmdin á þessu atriði eigi að vera, og hnúturinn þar með leystur.

Það er farið fram á lítilsháttar þóknun handa nefndarmönnunum. Mjer er ekki kunnugt um, hvað ríkisstjórnin greiðir þeim mönnum, sem semja frv. fyrir hana eða fara yfir þau, en jeg veit, að í stærri málum fá þeir miklu meira en þessar 300 kr., sem hjer er farið fram á.

Jeg hefi ástæðu til að ætla, að hæstv. atvrh. (MG) taki þessu máli vel og sjái um framkvæmd þessarar till., ef hún nær samþykki hv. þdm. En af því að till. fer fram á örlitla fjárhæð, þarf hún að ganga í gegnum tvær umr. í hvorri deild. Hygg jeg, að það sje hægt, þó að liðið sje á þingtímann.

Jeg vil svo ekki við þessa umr. tefja frekar framgang till., en fel hann velvilja hv. deildar.