25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í D-deild Alþingistíðinda. (2917)

131. mál, slysatryggingar

Fjármálaráðherra (JÞ):

Þessi till. er nokkuð öðruvísi orðuð en hún ætti að vera. Þar er meðal annars komist svo að orði, að nefndarmenn skuli fá hver um sig 100 króna þóknun fyrir starfa sinn, er greiðist úr ríkissjóði að loknu starfi. Það er ekki unt að ákveða þannig borgunina í slíkri till. Hitt er leyfilegt, að skora á ríkisstjórnina að greiða úr ríkissjóði þann kostnað, sem af þessu leiðir; hún gerir það þá annaðhvort af því fje, sem hún hefir til umráða, eða þá upp á væntanlega fjárveitingu eftir á. Það er auðvitað ekki svo mikið fje, að það geti orðið til neinnar fyrirstöðu, en hitt er ekki rjett að ákveða þannig laun í þál.