09.04.1924
Neðri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (2929)

124. mál, sparisjóður Árnessýslu

Frsm. (Jakob Möller):

Þessi till. er borin fram af fjhn. í einu lagi, og er ástæðum svo rækilega lýst í greinargerðinni, að óþarfi er fyrir mig að halda langa ræðu um málið. Hv. þm. sjá af greinargerðinni, að þessi stofnun er nú svo stödd, að óhjákvæmilegt er að gera einhverjar alvarlegar ráðstafanir til þess að bjarga þeim miklu hagsmunum ýmissa manna, sem hún hefir að geyma. Hjer er um eignir að ræða, sem nema l½ miljón króna, og eru eigendur þeirra 3000 að tölu, svo það er fljótsjeð, að hjer er um mjög víðtæka hagsmuni að ræða. En nú eru þessir hagsmunir í tvísýnu, þar sem svo er nú ástatt, að sjóðurinn er stjórnlaus, og alt liggur í útistandandi skuldum, sem svo er um, að þótt þær geti verið góðar á einum tíma, þá geta þær, ef illa er að farið, orðið einskisvirði á öðrum tíma. Nú er það víst, að sparisjóðurinn verður ekki endurreistur með öðrum hætti en að Landsbankinn taki hann að sjer. Hitt er aðeins spurningin, á hvaða hátt það verður heppilegast. Nefndin hefir ekki sjeð sjer fært að leggja til, að ríkissjóður gengi í þá ábyrgð, sem til hefir verið mælst. Nú sem stendur vita menn ekkert um hag sparisjóðanna út um land, og færi þingið inn á þessa braut, þá myndu aðrir nauðstaddir sparisjóðir koma á eftir, og gæti sá baggi orðið ofviða ríkissjóðnum. Hinsvegar stendur sjerstaklega á með þennan sjóð, þar sem hann er rjett undir handarjaðri útibús Landsbankans. Stendur Landsbankinn því sjerstaklega vel að vígi gagnvart honum, og yrði slík hjálp hans, sem hjer er um að ræða, naumast talin fordæmi. Það er auk þess tekið fram í greinargerð til., að bankastjórnin skuli hafa fullan ákvörðunarrjett í því, hvort hún taki hann að sjer. Það hefir verið lögð mikil áhersla á það, að bankinn teygi sig sem lengst í því að tryggja innstæðueigendum innstæðu þeirra. En það er vafasamt, hvort rjett er að leggja svo mikla áherslu á þetta. Bankinn hefir boðið að tryggja 70%, en skuldbyndi sig jafnframt til að skila eigendum öllu, sem inn kæmi umfram, svo að eigendum sjóðsins er þar með trygt, að þeir haldi öllum þeim eignum sínum, sem ekki eru þegar tapaðar. Það er því naumast hægt að segja annað en að þeir sæti hjer góðum kjörum. Hins vegar ætti bankinn vel að standa sig við að tryggja 80%, jafnvel þó að gert væri ráð fyrir, að hann næði ekki alveg svo miklu inn af útistandandi skuldum sjóðsins, því bæði er sparisjóðurinn mikils virði fyrir hann sem viðskiftaaukning, og auk þess batnar aðstaða bankans talsvert við þetta í þessum hjeruðum. Því að það er augljóst, að á slíkum tímum, sem nú standa yfir, þá standa útlánsstofnanir betur að vígi þar, sem þær eru einar um hituna, því að öll lán eru óvissari þar sem tvær slíkar stofnanir starfa hver á móti annari. Nefndin telur þetta vel gerandi fyrir bankann.

Jeg skal geta þess, að þeir samningar, sem átt hafa sjer stað í þessu máli, hafa farið fram aðallega fyrir milligöngu ríkisstjórnarinnar. Stjórn Landsbankans átti ekki uppástunguna að því, að ríkissjóður gengi í þessa ábyrgð.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, þar sem greinargerð till. gefur allar þær upplýsingar, sem nefndin á yfir að ráða.

Eins og hv. þdm. geta skilið, þá hafði nefndin enga aðstöðu til að mynda sjer sjálfstæðar skoðanir um hag sparisjóðsins, en varð í þeim efnum að fara eftir þeim upplýsingum, sem hún gat frekast fengið.

En það ætti ekki að vera neinni hættu bundið að samþ. till. þessa, þar sem það er tekið fram, að þetta skuli ekki framkvæmt nema bankinn sjái sjer það fært. En þá ákvörðun sína tekur hann auðvitað ekki fyr en að lokinni mjög ítarlegri rannsókn á hag sparisjóðsins.