09.04.1924
Neðri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (2937)

124. mál, sparisjóður Árnessýslu

Magnús Jónsson:

Jeg stend aðeins upp til þess að bera af mjer sakir. Mjer finst þeir hv. 2. þm. Rang. (KlJ) og hv. samþm. minn, 3. þm. Reykv. (JakM), hafa tekið orð mín fullóstint upp. Jeg veit ekki til þess, að jeg sje neinn málfærslumaður fyrir Landsbankann. Jeg hefi meira að segja ekki minst á málið við neinn af bankastjórunum, og væri það þó ekkert ódæði, þó að jeg hefði gert það. Hv. 2. þm. Rang. (KlJ) veit það líka, að í hans ráðherratíð hreyfði jeg nákvæmlega sömu andmælum gegn málinu á þingmannafundi uppi í stjórnarráði. Annars hafði jeg varla búist við að taka hjer til máls. En mjer fanst, að einhver yrði að tala máli bankans. En þetta leysist nú líklega alt vel. Ef ástandið er eins bjart og hv. þm. segist frá, þá er hættan engin, hvort sem bankinn borgar út 70 eða 80%. Annars vil jeg láta þess getið, að jeg lít svo á, að enginn eigi heimting á meira fje en hann á inni, og inneign hans fer ekki að öllu leyti eftir því, hvað hann hefir lagt í fyrirtækið, heldur eftir því, hvernig hagur þess stendur, þegar það er leyst upp. Því tapi fyrirtækið, minkar fje það, sem hann hefir lagt í það; græði fyrirtækið aftur á móti, eykst eign hans. Eigendur sparisjóðsins hafa lagt í hann fje, kosið stjórn hans og sjeð um hann að öllu leyti, og þeir eiga því enga heimtingu á að fá útborgað meira en hagur sjóðsins nú sýnir, að þeir eigi þar. Fái þeir því hlutfallslega inneign sína, kalla jeg, að þeir fái alt sitt.