30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

1. mál, fjárlög 1925

Hákon Kristófersson:

Jeg á hjer litla brtt., sem heldur er ekki ókunnug hjer í deildinni, því að jeg hefi borið hana hjer fram áður, en ekki svona háa upphæð eins og nú er farið fram á. Þegar jeg flutti þessa brtt. í fyrra skiftið, gerðu sumir háttv. þdm. gaman úr því, hversu nægjusamur jeg væri, og úr því að háttv. Ed. gaf mjer þetta tækifæri til þess að bera hana hjer fram öðru sinni, sá jeg ástæðu til að hækka hana lítið eitt. Það má vel segja um þessa brtt. mína hvað ríkissjóð snertir eins og karlinn sagði, „hún gerir hvorki til nje frá.“ Jeg hefi mælt hjer fyrir þessari brtt. áður og fer jeg því ekki að endurtaka það aftur að þessu sinni, en það var meðferð hv. Ed. á þessari brtt. minni, sem jeg ætlaði að víkja að fáum orðum. Það er eftirtektarvert um hv. Ed., að hafi hún ekki verið á undan hv. Nd. um bruðlunarsemi á fje ríkissjóðs, hefir hún áreiðanlega ekki verið þar á eftir henni. Raunverulegar hækkanir hv. Ed. á útgjöldum ríkissjóðs hafa numið rúmum 100 þús. kr. Eiginlega mætti segja, að hækkunin næmi rúmlega 200 þús. kr., en ef dregnar eru frá 100 þús. kr., sem af vangá höfðu ekki verið settar inn í frv. hjer í Nd., en áttu þar að vera, verður hækkunin samt, sem Ed. hefir gert á frv., 100 þús. kr. Auk þess, sem háttv. Ed. hefir ekki getað sjeð sjer fært að samþykkja þær verulegu sparnaðartillögur, sem hjer höfðu verið samþyktar, fanst henni helst það horfa til umbóta á hag ríkissjóðs að leggjast á þennan gamla og heiðarlega barnakennara, sem jeg hafði viljað hlynna svolítið að.

Það hefði nú mátt búast við því, að hv. Ed. hefði þó sýnt einhverja viðleitni til sparnaðar, eftir að hafa hækkað þannig útgjöldin, en eftir samviskusamlega leit finn jeg ekki, að það hafi átt sjer neinn stað þar, nema ef finna mætti einhver sambærileg tilfelli við þessa brtt. mína, að veist hafi verið að einstökum mönnum. Það er eftirtektarvert, að þeir sömu menn, sem lagt hafa á móti þessari lítilfjörlegu upphæð, sem jeg fór fram á, flytja eða eru meðmæltir till. um útgjöld, sem skifta tugum þúsunda króna. Þessa bruðlunarsemisákæru þurfa ekki þeir að taka til sín, sem ekki voru svo smásmuglegir að vera á móti þessari smávægilegu upphæð, sem jeg fór fram á, að yrði veitt þessum manni. Þessi maður, sem slitið hefir starfskröftum sínum á því að stunda barnakenslu á hinum þjóðnýtasta grundvelli, var valinn til þess að verða fyrir áreitni þeirrar þingdeildar, sem sumir — máske í skopi — hafa kallað höfuð þingsins; en sje þessi deild höfuð þingsins, er það höfuð varla of fult af sanngirni, ef dæma skal eftir verkum hennar. Nei, það eru sömu sjúkdómseinkennin, sem koma fram í háttv. Ed. og alstaðar annarsstaðar, annarsvegar bruðlunarsemi á fje ríkissjóðs, en á hinn bóginn aftur smámunasemi, eltingaleikur og áreitni við einstaka menn. Jeg legg svo þessa litlu brtt. mína undir dóm hv. deildar og vænti þess, að hjer verði henni sýnd hin sama góðvild nú og í hið fyrra skiftið, er hún var hjer á ferðinni. Jeg skal annars geta þess, að mjer þætti það leitt, sem þó má búast við að komi fram, — það er ekki nema eftir öðrum vinnubrögðum háttv. Ed., — að fjárlögin yrðu að fara fyrir sameinað þing vegna þessarar litlu brtt. minnar einnar saman.

Jeg finn ástæðu til þess að þakka hv. þm. Dala. (BJ) fyrir brtt. hans á þskj. 460, IV, um fjárveitingu til sjúkraskýlis í Flatey á Breiðafirði. Sumir hafa haldið, að hv. þm. Dala. hafi tekið upp þessa till. vegna tilmæla um það frá mjer, en svo er þó ekki. Hann kom til mín og spurði mig, hvað jeg hefði gert til þess að fá þessu framgengt, vegna þess, að hann hafði sjálfur fengið áskorun frá kjósendum sínum í Dalasýslu, sem vitja læknis út til Flateyjar, um þetta. Jeg þarf ekki að fara að taka það upp aftur hjer, af hvaða ástæðum það var, að hv. Nd. lagðist á móti till. minni um þetta, en tók þann upp, að veita 20 þúsund kr. alls til slíkra framkvæmda á einum 2 eða 3 stöðum. Háttv. Ed. fann auðvitað ástæðu til þess að klípa af þessari sjálfsögðu fjárveitingu, en það sætir mikilli furðu, að þessi háttv. deild skuli leyfa sjer að gera þetta og kalla það af sparnaðarástæðum gert, en fjölgar þó embættum á ýmsan veg og allskonar bruðlunarsemi á mörgum sviðum. Þannig hefir t. d. hv. Ed. viljað leggja fram fje til aukinnar starfrækslu bæjarfógetaembættisins í Reykjavík. Það er að vísu síður en svo, að jeg telji þetta alveg ónauðsynlegt, en jeg tel þess þó varla meiri þörf en að tryggja líf og heilsu almennings. Þá liggur og fyrir þinginu till. til þál. frá tveimur háttv. þm. í Ed. um byggingu landsspítalans, og er þar hið sama uppi og í öðrum till. háttv. Ed., að þar er ekki um neitt smáræði að tefla. Mjer dettur ekki í hug að segja, að þetta sje alveg rangt hjá hv. Ed., en landsspítalinn á engan meiri rjett á sjer en sjúkraskýlin úti um land; þau eiga að hafa sama rjett og Reykjavík. Þeir sömu háttv. þm., sem þetta bera fram, geta þó verið þektir fyrir að leggjast á móti samskonar tilmælum og alveg eins nauðsynlegum, aðeins af því að þau tilmæli hafa komið frá mönnum, sem heima eiga víðsvegar úti um land. (JBald. Það er heldur farið að fækka mönnum hjer í deildinni). Jeg átel það ekki, þó að gestirnir fari, ef aðeins heimamenn geta haldist við á heimilinu. Annars hefir háttv. þm. Dala. (BJ) mælt svo vel fyrir þessari till., að jeg treysti mjer alls ekki að bæta neitt þar um, en vildi aðeins benda á þetta ósamræmi í atferli háttv. Ed. í þessu máli, eins og í mörgum öðrum, t. d. er lagst er á móti sjálfsögðum nauðsynjamálum eins og þessu, líklega aðeins af því, að þau viðkoma meira öðrum hjeruðum landsins en Reykjavík.

Jeg sje á þskj. 468 till. frá samgöngumálanefnd Ed., og af því að á það var minst í Ed. í sambandi við þetta mál, býst jeg ekki við, að hæstv. forseti telji mig fara um of út fyrir efni það, sem hjer skal rætt, þó jeg fari nokkrum orðum um þetta atriði. Þó að þessi till. sje fram komin og að samgmn. Nd. hefir enn ekki athugað hana til hlítar, býst jeg ekki við, að hæstv. stjórn skoði þessa till. sem fullnaðarúrskurð í þessu máli. Að þessi till. er nú fram komin, býst jeg við, að stafi af því, að það þarf að semja um styrkinn til Faxaflóabátsins (Suðurlands) og Djúpbátsins fyrir næstu áramót, en jeg býst við, að fullnaðarákvæði um allar aðrar styrkveitingar geti beðið til næsta þings. Jeg get tekið það strax fram, að eftir þeirri stefnu, sem tekin hefir verið í þessu máli, er jeg algerlega mótfallinn því, að 5000 kr. verði veittar til Hornafjarðarbátsins, og jeg geri ráð fyrir, að meiri hluti samgmn. Nd. verði mjer sammála í þessu. Jeg vildi aðeins skjóta þessu fram, til athugunar fyrir hæstv. stjórn, til þess að hún bindi sig ekki um of við þessa till. Að vísu sagði einn mikilsmetinn háttv. þm. nýlega, að stjórnin ætti ekki að binda sig um of við till. samgmn. Nd., en jeg býst við, að þetta megi með jafnmiklum rjetti segja um sömu nefnd í hv. Ed. (PO Nei, miklu síður). Miklu síður, segir háttv. þm. Borgf., en jeg held, að hann hafi alls enga ástæðu til þess að kvarta undan samgmn. Nd.; við höfum ávalt reynt eftir bestu getu að verða við óskum hans kjördæmis. Öll ummæli háttv. þm. Borgf. þessu viðkomandi voru órökstuddir sleggjudómar.

En mjer dettur það í hug í sambandi við styrkina til sjúkraskýlanna, að það er alleinkennilegt, að það er hið sama virðulega Alþingi, sem gerir þannig við þau, en samþykkir miklar aukningar á þjóðvegunum; en þrátt fyrir alla þá virðingu, sem jeg ber fyrir glöggskygni og þekkingu hæstv. fjrh. (JÞ) á þeim málum, er það þó trúa mín, að kostnaðurinn við vegina muni fara langt fram úr 25 þús. kr. á næsta ári, eins og hann gerði ráð fyrir. En það er eftirtektarvert, að þetta sama Alþingi veitir minni upphæð til þess að tryggja líf og heilsu almennings og að á þessu sama þingi er því og hreyft að fella niður berklavarnalögin að meira eða minna leyti, sem þó má nærri segja um, að líf allrar þjóðarinnar liggi við, að fái að standa óhögguð; og jeg verð að segja, að það er betra þó ríkið yrði að bera kostnaðinn af sjúkravist eins af hverjum tíu, sem gætu kostað sig, heldur en að níu af hverjum tíu gyldu þess, sem ekki gætu kostað sig af eigin ramleik. Það má enginn skilja þessi orð mín svo, að jeg álíti þessa sparnaðarviðleitni þingsins sprottna af öðrum ástæðum en þröngum hag ríkissjóðs, en jeg vil benda aðeins á þetta til þess að sýna fram á, að það skortir samræmið í gerðum hins háa Alþingis.

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) talaði í gær fyrir till. sinni um hækkun stimpilgjaldsins um ½ milj. kr., og vildi hann láta verja þeim 500 þús. kr. til atvinnubóta. Samkvæmt allri starfsemi þessa hv. þm. í bæjarfjelagi Reykjavíkur, var það ekkert undarlegt, að þessi till. kæmi fram frá honum, enda er það í samræmi við ýmsar aðrar till. hans. Eftir þessu ætti þá ríkissjóður að fara að gefa sig við atvinnubótum í Reykjavíkurbæ. Hann sagði, að á hverjum morgni yrðu 200–300 atvinnulausra manna að halda heimleiðis aftur eftir árangurslausa leit eftir vinnu. Jeg dirfist alls ekki að rengja þessi orð frá svo merkum þm., en hvað sannar þetta annað en að það er of margt fólk í þessum bæ, miðað við þann atvinnurekstur, sem hjer á sjer stað; en jeg býst við, að þetta eigi sjer og stað í svipuðum hlutföllum í öðrum kauptúnum landsins. Ef þetta kæmist á, að ríkið færi að skifta sjer af atvinnubótum, yrði eðlilegasta afleiðingin af því sú, að menn mundu síður beita sjer til þess að leita sjer atvinnu utanbæjar. En ef þetta er rjett, sem hann nú hefir sagt, að of margt fólk sje saman komið í þessum bæ, er það þá ekki í samræmi við frv., sem þessi sami háttv. þm. hefir flutt um breytingu á sveitarstjórnarlögunum, í þá átt, að ekki megi flytja fólk úr öðrum landshlutum, sem styrkþurfar hafi orðið í þessu bæjarfjelagi, burt hjeðan á þess framfærsluhjerað, án þess að samþykki þurfalinganna sjálfra komi til. Þessi háttv. þm. (JBald) benti á það, að hin nýsamþyktu verðtollslög hefðu aukið dýrtíðina í bænum, og því ætti ríkið að hlaupa undir bagga með verkafólkiuu. Jeg er samþykkur hv. þm. í því, að verðtollslögin hafa aukið dálítið á dýrtíðina í landinu; en þau voru samþykt til þess að hlaupa undir bagga ríkissjóðs, er var allhallur, og ef það á að taka þetta fje frá ríkissjóði til atvinnubóta, yrði lítið úr hjálpinni við ríkissjóð.

Það hefir verið frv. hjer á ferðinni í þessari hv. deild um bygðarleyfi. Jeg verð að líta svo á, að ekki hafi verið mjög almennur áhugi á því, að þetta frv. gengi fram, úr því að það er ekki komið lengra en það er ennþá. En jeg mundi telja það ekki óverulegan þátt í því, að ráðið yrði fram úr atvinnuleysinu hjer og annarsstaðar, ef banna mætti bygðarleyfi. Jeg veit sem sje ekki til þess, að neitt sje gert til þess að stemma stigu fyrir fólksflutningi til bæjanna úr sveitunum, heldur sje þar tekið tveim höndum við hverjum sem er. Þrátt fyrir hinn mesta velvildarhug minn til verkalýðsins, sje jeg mjer þó alls ekki fært að verða með þessari till. hv. 2. þm. Reykv. af þeim ástæðum, sem jeg nú tók fram, Hann mintist og á það, að bæjarfjelagið hjer hefði látið vinna ýmisleg verk til atvinnubóta, og sýnist mjer sjálfsagt, að bæirnir geri það; þetta sama er oft gert af hreppsfjelögum úti um land, en auðvitað í ofursmáum stíl, enda er þar sjaldan af miklu að taka til þeirra hluta. Jeg hefði sem sagt gjarnan viljað hafa getað greitt atkv. með þessari till. hv. 2. þm. Reykv., en vegna hins erfiða fjárhags sje jeg mjer það þó ekki fært; enda er mjer ekki grunlaust um, að í sumum tilfellum geti þetta orðið til ills eins. Það gæti vel hugsast, að þetta dragi úr tilraunum manna að útvega sjer atvinnu annarsstaðar. Í annan stað get jeg búist við því, að þessi tillaga sje ein af þeim, sem fluttar eru án þess að búist sje við árangri.

Jeg held svo, að jeg láti óáreittar brtt. á þskj. 460 og eins frá öðrum háttv. þm., að öðru leyti en því, sem jeg tek afstöðu til þeirra með atkv. mínu, og mun jeg því ekki tala neitt sjerstaklega um þær. Enda vil jeg ekki stuðla til þess, að fjárlagafrv. komist ekki frá deildinni á þessari nóttu.