30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

1. mál, fjárlög 1925

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg hafði hugsað mjer að gera nokkrar athugasemdir út af ræðu hv. 2. þm. Rang. (KlJ) í gær, sem mjer þá vanst ekki tími til að svara. En fyrst vildi jeg þó víkja nokkrum orðum að tveim brtt. frá hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Er þá fyrst sú á þskj. 463, um að hækka áætlunina um stimpilgjaldið. Jeg skal ekki vera margorður um þetta, en vænti þess aðeins, að hv. deild sýni ekki þá ljettúð að samþykkja þá hækkun, því þó ástæða væri til að gera það, ef með því fengjust auknar tekjur í aðra hönd, þá er því ekki að heilsa hjer. Þetta 20% stimpilgjald á aðfluttum vörum verður nefnilega mjög óviss tekjustofn. Þykir mjer öllu líklegra, að það verði fremur til þess að draga úr innflutningi heldur en að færa tekjur. Áætlunin hefir líka verið hækkuð úr 300 þús. kr. upp í 600 þús. kr., og álít jeg, að þar sje eins langt farið og forsvaranlegt er, svo framarlega sem þingið vill áætla varlega tekjuhlið fjárlaganna. Jeg get ekki heldur fallist á brtt. frá sama hv. þm. um 500 þús. kr. framlag í atvinnubótaskyni. Það nær ekki nokkurri átt, þegar búið er að samþykkja niðurlagningu allra verklegra framkvæmda, sem hægt er að komast af án í bili. Að samþykkja þetta væri því alger mótsetning við aðrar gerðir þingsins. Enda hygg jeg, að þessi brtt. sje fram komin frekar til þess að sýna skoðun hv. flm. á þessum málum heldur en að hann ætlist til, að þetta verði gert.

Þá vil jeg enn minnast á brtt. sama hv. þm. viðvíkjandi heimildinni til að greiða h/f Eimskipafjelagi Íslands 60 þús. kr. sem uppbót fyrir þau stimpilgjöld, sem það greiðir í ríkissjóð. Þetta fjelag á erfiða aðstöðu í samkepninni við önnur skipafjelög, þar sem það hagar ferðum sínum fyrst og fremst eftir þörf landsmanna, og heldur þannig uppi, sjer til skaða, vöruflutningum milli útlanda og hinna smærri hafna. Er það fjelag því alls góðs maklegt og ekki nema sjálfsagt, að ríkissjóður veiti því nokkurn styrk í þessu skyni. Eins og fjárhag þess er komið, er ekki einu sinni hægt að ætlast til, að það geti haldið þessu áfram án hjálpar frá ríkinu, eða geti að öðrum kosti staðist samkepnina. En að láta fjelagið borga þennan styrk með hlutabrjefum er alls ekki rjett. Það mætti vel verða til þess, að hlutabrjefin lækkuðu í verði, og kæmi það þá niður á fjelaginu, m. ö. o., fjeð yrði tekið af því sjálfu. Fjelagið á heldur ekki að auka hlutabrjef sín nema það um leið eignist verðmæti, sem beri það uppi. Að gefa út aukin hlutabrjef til að standast rekstrarkostnaðinn er ekki forsvaranlegt, og það er síst rjett af löggjafarvaldinu að þvinga neitt fjelag til að ganga inn á þá hættulegu braut.

Þá vil jeg með nokkrum orðum víkja að fáeinum atriðum í ræðu hv. 2. þm. Rang. (KlJ) frá í gær. Er þá fyrst það, sem jeg hafði gert að umtalsefni, að ávísað var 127 þús. kr. 1923 til símalagninga, lið, sem áætlaður var í fjárlögum 1923 með 20 þús. kr. Jeg deildi ekki á þáverandi stjórn fyrir þetta, en krafði landssímastjóra um heimildir hans fyrir þessu. Nú kveður hv. þm. þessu svo varið, að fjenu hafi verið varið til að ljúka við símalagningar, sem fje hafi verið veitt til 1922, en ekki hafi verið lokið við á því ári. En væri þetta svo, þá hefðu átt að vera um 100 þús. kr. eftirstöðvar af þessum lið það sama ár, 1922, en það var ekki. Fjárveitingin til nýrra símalagninga það ár mun hafa verið notuð til fulls, og þó orðið nokkrar umframgreiðslur. Þessi skýring mun því tæpast vera rjett. Er mjer nær að halda, að þetta stafi fremur af því, að lagðar hafi verið aðrar símalínur samkvæmt símalögum eða á annan hátt.

Þá gerði hv. þm. að umtalsefni hækkunina á 7. gr. fjárlaganna. Er þar um að ræða fje, sem áætlað er, að fari til vaxtagreiðslu af lánum ríkisins. Í meðferð þingsins hefir þessi liður hækkað um 216 þús. kr., og er það sem næst því — og þó öllu lægra — sem jeg hafði gert grein fyrir, að þyrfti í þessu skyni eins og nú standa sakir. Hv. þm. vildi gera grein fyrir þessum mismun þannig, að hann taldi hann stafa af gengismun vaxta af erlendum lánum, En svo er það ekki. Pundið var í stjórnarfrv. reiknað á 30 kr. hvert og dönsk kr. á 115 aura íslenska. Þeim grundvallartölum hefir ekki verið haggað og engum athugasemdum hreyft við það, því þó gengið sje óhagstæðara nú, þá er engin ástæða til að ætla, að svo verði 1925. Nei, hækkunin, sem um er að ræða, og sem komin er inn í frv., stafar einvörðungu af innlendum lausaskuldum, sem munu nema um 3700000 kr., en ekkert er áætlað fyrir vöxtum af þeim skuldum í frv. stjórnarinnar. Hv. þm. gat þess, að hann hefði lagt til grundvallar skýrslu um skuldirnar frá ríkisbókhaldinu, en það er ljóst, að sú skýrsla er ófullkomin, því þar eru ekki nær því allar skuldir taldar með.

Þá talaði hv. sami þm. um það, að stjórninni væri innan handar að fá lækkaða húsaleigu fyrir skrifstofur ríkisins í Landsbankahúsinu, að minsta kosti svo, að samsvaraði byggingarkostnaði. En nú er það svo, að Landsbankinn hefir lagt til grundvallar kostnaðinn við bygginguna, er hann ákvað húsaleiguna, og telur sig víst ekki geta fært hana niður. Það væri því fremur, ef hægt væri að neyta samanburðar á húsaleigu annarsstaðar. Annars hefði það verið æskilegt, úr því að til stóð, að þessar skrifstofur fengju húsnæði í húsinu, að stjórnin hefði samið um húsaleiguna áður en skrifstofurnar fluttu þangað inn.

Viðvíkjandi skýrslunni um laun presta vildi jeg að lokum geta þess, að láðst hefir að taka með í reikninginn, að prestlaunasjóður greiðir líka laun prófasta. Einnig virðist vanta eftirlaun og ellistyrk presta, sem nú mun nema um 20 þús. kr. Hefir sjest yfir að taka það til greina, og vildi jeg grípa tækifærið til að benda á þessa skekkju.