01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í D-deild Alþingistíðinda. (2958)

136. mál, skattur af heiðursmerkjum

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg þarf ekki að kvarta um undirtektir hæstv. forsrh. (JM). Hann segir hiklaust, að málið muni verða athugað, og geri jeg ráð fyrir, að framkvæmdir fylgi.

Út af því, sem hæstv. forsrh. (JM) sagði um mótstöðuna gegn fálkaorðunni, skal jeg fúslega kannast við, að jeg hefi tekið þátt í henni. En þar sem hann segir, að hún hafi nálega eingöngu komið úr einni átt, skal jeg leyfa mjer að minna á, að jeg veit ekki betur en einn af fylgismönnum hæstv. forsrh. (JM) hafi tekið í sama streng hjer í deildinni, svo að þetta er þá ekki flokksmál.

Hv. þm. Ak. (BL) rís upp á móti till. af umhyggju fyrir þeim fátæku. Hann getur reynt að láta líta svo út sem hann sje þeirra vörður. Jeg ætla að minsta kosti að fylgja tillögunni óhræddur þeirra hluta vegna.