30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

1. mál, fjárlög 1925

Magnús Jónsson:

Jeg á XIX. brtt. á þskj. 460. Er þar farið fram á, að veittar verði 900 kr. til útgáfu Laga Íslands. Fjárveiting í þessu skyni hefir áður verið hjer til umræðu, en náði þá ekki fram að ganga. Nú hefir upphæðin verið færð niður. Það er samróma álit allra þeirra manna, sem um þessi efni hafa eitthvað að segja, að það sje mjög nauðsynlegt, að þessu verki sje, haldið áfram, og þarf ekki að fjölyrða um það. Hins hefi jeg aftur orðið var, að þessi styrkur muni eiga erfitt uppdráttar vegna þess, að feldar hafa verið niður eða lækkaðar fjárveitingar til annara hliðstæðra útgáfna, svo sem til Alþingisbóka og Fornbrjefasafnsins. Og það er ekki nema eðlilegt, að þegar feld er niður útgáfa slíkra verka, þá svipist menn líka um eftir fleiri, er hægt væri máske að komast af án. En jeg tel það ekki viturlega ráðið, þó einhver lítilfjörlegur sparnaður megi af hljótast, að höggið sje á þann þráðinn, sem helst þarf að halda áfram að spinna smátt og smátt. Á það er líka að líta, að þegar hefir talsverðu verið varið til að undirbúa þetta verk, en að hinu leytinu ekki um svo mikla fjárupphæð að tefla, að ríkissjóð geti munað um það til nje frá. Vona jeg, að hv. deild fallist á þetta.

Það má gera ráð fyrir, að það sje vanþakklátt verk að fjölga mikið brtt. við fjárlagafrv. En jeg get þó ekki látið hjá líða að geta þess, að jeg hefði óskað, að till. hv. þm. Dala. (BJ) um að hafa námsstyrk stúdenta óbreyttan hefði náð fram að ganga. Það er nú ljóst orðið af umræðum um málið, að það hefir ekki verið til þess ætlast, að stúdentar biðu tjón við lækkunina, heldur hefir þess verið vænst, að sáttmálasjóðurinn legði á móti af sínu fje. En nú er það svo, að fje er þar ekki fyrir hendi. Og með því einu móti að láta háskólaráðið víkja alveg frá stefnu sinni og gefnum loforðum, mætti ná örlítilli upphæð, en sem alls ekki gæti fylt skarðið. Jeg vildi óska, að hv. þm. vissu eins vel og við, sem eigum að úthluta þessum styrk, hversu þægilegt það er að skifta honum milli þessara manna, sem flestir eru algerlega eignalausir og sumir allmikið skuldugir. Jeg held því, að seinast megi grípa til þess að spara á þessum lið. Hjer er heldur ekki um neina hækkun að ræða, heldur aðeins um það, að halda styrknum eins og hann hefir verið undanfarið. Gæta verður þess líka í þessu sambandi, þegar verið er að leggja nýjar byrðar á sáttmálasjóð, að með gengisfalli ísl. krónunnar er hann í raun rjettri orðinn helmingi minni en hann var í upphafi.

Jeg sje, að hjer er komin fram till. um að fella niður ritstyrk próf. Sigurðar Nordals. Jeg skal ekki fara mörgum orðum um þetta, en jeg vil minna hið háa Alþingi á það, að það hefir alveg nýlega gengið inn á þá braut að veita styrk til ritstarfa manni, sem þó hann sje allgott skáld og lipur rithöfundur, kemst ekki nálægt próf. Sigurði Nordal á bókmentasviðinu. Hitt væri jeg ekki ánægður með, ef hann ljeti þennan styrk ginna sig til að hafna ágætri stöðu, sem honum býðst annarsstaðar. Er ein ástæðan til þess, að jeg segi þetta, sú, að jeg er ekki viss um nema loforðinu yrði brugðið eftir stuttan tíma, og sæti hann þá eftir með lakari kjör. Fylgja styrknum úr hv. Ed. (frá hv. þm. A-Húnv.) nokkurskonar loforð um að kippa styrknum burt eftir nokkurn tíma. Jeg vil því, að styrkveitingin sje algerlega óháð því, hvort próf. Nordal sest að í Noregi eða dvelur áfram hjer heima. Er það vel, að hann hljóti styrkinn sem viðurkenningu fyrir ágætt bókmentastarf þau árin, sem hann var hjer heima.

Ennfremur er komin brtt. um að færa niður styrkinn til Jóhannesar L. Lynge um 1000 kr. frá því, sem samþykt var í hv. Ed. Það má ef til vill segja sem svo, að vel sje gert við þennan mann, þótt hann fái ekki nema 5000 kr., en jeg kysi þó heldur, að brtt. yrði feld og að hann fengi að halda þessum 6 þús. kr. Þeir sem þekkja til kringumstæðna þessa manns, vita vel, að hann getur ekki komist af með minna. Og það er jeg sannfærður um, að svo framarlega sem fjárhagur ríkisins er ekki algerlega ófær, þá hefir Alþingi aldrei nema sóma af að veita þennan styrk.

Loks kem jeg þá að gömlum kunningja mínum, þar sem er eftirgjöf af viðlagasjóðsláni til Ólafs Hvanndals myndamótara. Jeg hafði áður farið fram á, að honum yrði gefin eftir afborgun af láninu og vaxtagreiðsla næstu 5 árin. Af þessu hefir nú verið klipið, svo það nær aðeins til afborgunar af láninu og aðeins um 3 ára skeið. Er þess nú að vænta, að hv. deild lofi till. fram að ganga, eftir þann holdskurð, sem á henni hefir verið gerður. Það er alveg víst, að það yrði síst happ að því, að þessi starfsemi legðist niður í landinu, svo senda þyrfti fje út í hvert sinn, sem prenta þyrfti hjer myndir. En það er svo hjer sem annarsstaðar, að þessi iðn á erfitt uppdráttar.

Af því að jeg hefi orðið var við það, að tvennar sögur hafa farið af því, hvað gerst hafi í fjvn. þegar viðlagasjóðslánið var veitt til sýslumannsbústaðarins í Borgarfirði, og því hefir verið haldið fram, að nefndin hafi ákveðið, að vextirnir skyldu vera 2% lægri en bankavextir, skal jeg geta þess, að jeg sat þá í nefndinni og man alls ekki að svo væri. Sjest það líka, að nefndin ákvað alls ekki þá rentu, sem inn komst í fjárlögin. Nefndin lagði sem sje til, að vextirnir væru 5%, en svo kom fram till. frá þáverandi fjármálaráðherra um að hækka rentuna af þessu og öðrum lánum upp í 6%, og varð sú niðurstaðan. Þessi renta var þá ekki miðuð við bankana, heldur nokkurskonar slumpareikningur. Jeg hefi í sjálfu sjer ekkert að athuga við þetta mál, en taldi rjett, að þetta kæmi fram.

Hjer liggja fyrir tvær brtt. við áætlunarupphæðir, sem í rauninni gera ekkert til fyrir hag ríkissjóðs. Það er till. frá hv. fjvn. um að hækka gjöld til berklaveikisvarna um 100 þús. kr. og till. frá hv. 2. þm. Reykv. (JBald) um að hækka stimpilgjaldið um ½ milj. kr.

Jeg er nú sammála hv. samþm. mínum (JBald) um það, að þetta gjald muni ekki verka svo mikið sem innflutningshöft, að tekjurnar af því verði ekki meiri en gert er ráð fyrir, en á hinn bóginn fellst jeg á, að gott sje að áætla alt varlega. Þó má ekki takmarka áætlunina svo mikið vísvitandi, að fjárlög, sem hv. þm. þykjast vissir um að verði tekjuhallalaus, líti út eins og tekjuhalli sje vegna of varlegrar áætlunar á tekjuhlið. Varfærni í þessu efni er altaf mikilsverð, en þeirri reglu að fara varlega má þó ekki fylgja sjer til skaða, svo óhug valdi hjá þeim, sem utan við eru og sjá, að fjárlögin eru afgreidd með tekjuhalla, þó hann sje aðeins á pappírnum í raun og veru. Getur að því verið lánstraustsspilling. Jeg tel því rjett að fella báðar þessar till., og jafna þær að nokkru hvor aðra.

Upphæðin til berklavarna hefir nú verið hækkuð um helming frá því, sem hún var í stjórnarfrv., og þó að berklaveikislögunum verði ekki breytt, er ekki víst, að framkvæmdin verði svo dýr sem menn ætla, enda hefir hv. allshn. afgreitt málið með þeirri áskorun til hæstv. stjórnar, að hún reyni að draga það sem hægt er úr kostnaðinum.