01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í D-deild Alþingistíðinda. (2960)

136. mál, skattur af heiðursmerkjum

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg ætla að láta í ljós þá skoðun, að jeg er mótfallinn tillögunni. Ef þjóðfjelagið getur launað ágæt verk með krossum og titlum, ætti því ekki að vera um megn að greiða þann litla kostnað, sem af því leiðir. Hinsvegar er jeg þeirrar skoðunar, að innlenda menn þurfi ekki að einkenna með þessu móti. Hjer þekkir hver annan, og þarf því engin sjerstök merki á þá, sem skara fram úr. Þessu máli mun hafa verið ráðið til lykta á lokuðum fundi, og hefi jeg heyrt, að stofnun orðunnar hafi verið samþykt með því skilyrði, hvort sem það hefir verið orðað afdráttarlaust eða verið þegjandi samkomulag, að hún yrði ekki veitt innlendum mönnum.

Það ætti ekki að leika á tveim tungum, að hið unga, íslenska ríki ætti ekki að leitast við að vera hermikráka stórveldanna. Það er algerlega demókratiskt, og heiður þess þá mestur, að það sje í samræmi við sjálft sig og hermi það ekki eftir öðrum þjóðum, sem kann að hafa þýðingu hjá þeim, en á ekki við hjer. Jeg skal ekki að þessu sinni amast við, að útlendum mönnum sjeu veitt íslensk heiðursmerki, en þó hygg jeg, að vegur vor yrði engu minni, þó að vjer hefðum enga krossa. Þeir menn, sem vjer höfum gagn og ánægju af að eiga vingott við, munu meta oss engu síður, þó að vjer höfum enga slíka hluti að veita þeim. Þeir meta oss sem lítið, demókratiskt ríki og virða oss mest fyrir að vilja ekki sýnast það, sem vjer ekki erum.

Þegar erlendir rithöfundar skrifa um Ísland, hygg jeg, að þeir muni gera það af jafnhlýjum hug í vorn garð, þó að lófinn sje ekki kitlaður með krossum.

Jeg hygg það vera aðaltilgang þessarar tillögu að draga úr því, að innlendum mönnum verði veitt heiðursmerki. Jeg vil því leyfa mjer að bera fram skriflega brtt., sem er að vísu ólík sjálfri aðaltillögunni, en gengur að þessu leyti í sömu átt. Samskonar tillaga hefir einnig komið fram áður hjer á þingi. Brtt. mín er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

(sjá þskj. 510.).

Jeg tel rjettara af hv. deild að samþykkja tillöguna í þessari mynd, ef henni er alvara um það, að heiðursmerki sjeu ekki meira virði en svo, að engin útgjöld megi af hljótast.