30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

1. mál, fjárlög 1925

Sigurjón Jónsson:

Það eru aðeins nokkur orð viðvíkjandi fyrstu brtt. fjvn. á þskj. 460. Hv. frsm. nefndarinnar (ÞórJ) lýsti yfir því, að nefndin væri klofin í þessu máli og að brtt. væri komin frá meiri hl. nefndarinnar. Hv. frsm. lýsti skoðun meiri hl. — eins og hans var von og vísa — þó að hann sje sjálfur í minni hl. Mjer fanst því sjálfsagt, að einhver okkar þriggja, sem erum í minni hl., lýsti afstöðu okkar.

Þessi styrkur til fangahúsa í Vestmannaeyjum og á Ísafirði, sem hv. Ed. tók upp, er að okkar dómi mjög nauðsynlegur og við fáum ekki sjeð, hvernig hið háa Alþingi fær neitað þessum stöðum um hann.

Á hvorugum staðnum er nú nokkurt hús til að geyma í þá menn, sem rjettvísin verður að sjá um, eða til þess að setja þá menn inn í, sem lögreglan álítur nauðsynlegt, að sjeu ekki á almannafæri.

Á báðum stöðum, í Vestmannaeyjum og á Ísafirði, er talsvert miklu fje varið til lögreglustarfa, og það er kynlegt, að jeg ekki segi hlægilegt, að þegar lögreglan vill banna einhverjum manni að vera á almannafæri, þá skuli hún ekki hafa neitt húsaskjól handa honum. Það eina, sem hægt væri að koma með á móti þessu, er það, að leigja mætti hús í þessu skyni. En það hefir reynst ómögulegt í Vestmannaeyjum, og hefir staðið í miklu stríði um þetta þar, því enginn vill láta hluta af sínu húsi til þessa. Í Vestmannaeyjum var fangaklefi áður fyrri, en hann var seldur og peningarnir, sem inn komu fyrir hann, runnu í ríkissjóð. Á Ísafirði brann fangahúsið, eins og kunnugt er, í vetur, og var það óvátryggt, svo ekki er um það að ræða, að þaðan komi peningar til að byggja nýtt fangahús fyrir.

Annars verða þessar 16 þús., sem hv. Ed. tók upp til þessa, ekki taldar eyðslufje, heldur verða þær lagðar í þessar húseignir. Og þó þessi hús verði ekki bygð 1925, má ganga að því vísu, að það muni kosta ríkissjóð talsvert að koma þessum húsum ekki upp. Því það er ómögulegt hjá því að komast, að fangar þeir, sem rjettvísinni ber að sjá um, verði þá sendir eitthvað eða reynt að bæta úr húsleysinu með því að leigja einhver skýli, ef hægt er. Þetta eru fjölmenn fiskiþorp, sem eins og kunnugt er þurfa oft á lögregluvaldi að halda, og er það brýn nauðsyn að hafa hús þar, sem hægt er að stinga mönnum inn í.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta; jeg hefi nú lýst því, hvað vakti fyrir okkur 3 nefndarmönnum, sem ekki vildum fella þennan styrk niður.

Jeg hefi enga ástæðu sem fjárveitinganefndarmaður að tala um aðrar brtt., sem hv. frsm. kemur til að tala um, en jeg vil aðeins drepa á eina brtt., II. á þskj. 460, sem ekki mun vera búið að tala fyrir enn. Það er styrkurinn til aðstoðarlæknisins á Ísafirði. Jeg vil geta þess eins, að jeg heyrði af tilviljun ræðu um þetta mál í hv. Ed. og varð þess var, að sá hv. þm., sem hana hjelt, hv. 5. landsk. þm. (JJ), hefir ekki fengið rjettar fregnir af þessum manni. Það er svo rjettsýnn þm. og grandvar í tali sínu, að orð hans hefðu ekki fallið eins og þau gerðu, ef hann hefði fengið rjettar fregnir af aðstoðarlækninnm. Óhlutvandir menn hafa hjer látið þm. hlaupa með ósannan söguburð. Því þessi aðstoðarlæknir er góður læknir og mikilsmetinn af öllum, sem honum hafa best kynst á Ísafirði. Annað skal jeg ekki um þetta segja.