01.05.1924
Efri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (2980)

143. mál, Landspítalamálið

Flm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Eins og hv. þingdeildarmönnum er kunnugt, flytjum við hv. 5. landsk. (JJ) þáltill. á þskj. 465. Jeg geng út frá því, að hv. deild hafi kynt sjer þskj. Þetta, og ætla jeg að leyfa mjer að segja nokkur orð, till. til skýringar. Eins og um getur í till. og 2 fylgiskjölum á sama þskj., er fjárhagur ríkisins svo erfiður nú, að ekki eru miklar líkur til, að landsspítalinn geti orðið eins fullkominn og stór og gert er ráð fyrir á uppdrætti þeim, sem lagður var fyrir þingið í fyrra.

Nú er svo komið vegna berklavarnalaganna, að óhjákvæmilegt er að reisa spítalann bráðlega; nægir um það efni að vísa til brjefsins frá próf. G. H., á þskj. 465. Till. þessi fer í sömu átt og fylgiskjalið á sama þskj. Álit læknadeildar háskólans fer aðeins fram á nokkru meiri fjárveitingu úr ríkissjóði.

Í síðari hluta 2. tölul. till. á þskj. 465 er farið fram á það, að leitað verði samninga við stjórn landsspítalasjóðsins um að leggja fram úr sjóðnum sem svarar 1/3 hluta þess fjár, sem verja skal til byggingarinnar árlega.

Jeg geri ráð fyrir því, að þessir samningar mættu takast, og skal jeg í því sambandi leyfa mjer að skírskota til tilboðs landsspítalasjóðsstjórnarinnar með brjefi til ríkisstjórnarinnar, dags. 21. febr. þ. á., sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Undirrituð stjórn landsspítalasjóðs Íslands hefir orðið ásátt um að bjóða hæstv. landsstjórn að lána ríkissjóði helming sjóðs þess, sem þegar hefir verið safnað, og nemur þessi helmingur nálægt 120000 kr. Skilyrði fyrir láni þessu mundu í aðaldráttum verða þau:

1. Að vaxta mundi eigi verða krafist hærri en 4½ eða 5%.

2. Að ríkissjóður legði fram tvöfalda lánsupphæðina og láti byrja á landsspítalabyggingu samtímis og lánið er tekið, enda sje haldið áfram með bygginguna, þar til minst hefir til hennar farið kr. 360000,00 og svo um búið, að fyrir það fje, með eða án frekari viðbóta úr ríkissjóði, verði reist hús, er taka megi þá þegar til afnota sem sjúkrahús, þótt ekki verði það svo stórt eða fullkomið, sem ætlast er til, þegar byggingunni er að fullu lokið.

Nánari skilyrði þykir eigi þörf að ræða um fyr en sjeð er, hvort landsstjórnin vill taka lán þetta með þessum aðalskilyrðum, en vjer erum, ef til kemur, fúsar til samninga í þeim efnum, og munum þar sýna þá tilhliðrunarsemi, sem oss er unt og samrýmanleg er þeirri hugsjón vorri, að landsspítalinn komist sem allra fyrst á stofn. — Ástæðan til þess, að vjer bjóðum þetta, er sú, að oss virðist, að með þessu sje eigi ólíklegt, að þokað yrði áfram einu skrefi landsspítalabyggingu, hinu mikla áhugamáli voru og nauðsynjamáli allrar hinnar íslensku þjóðar. Í þessu sambandi viljum vjer geta þess, að sennilegt er, að vjer munum einnig, þótt síðar verði, bjóða að láni hinn hluta sjóðsins með væntanlegri viðbót, til þess að fullgera spítalann, og hvort endurgreiðslu yrði krafist á lánum þessum, mundi ef til vill fara að miklu leyti eftir því, hvort vjer finnum eindreginn áhuga hjá þingi og stjórn um að koma í viðunandi framkvæmd þessu mikla áhugamáli vora.

Reykjavík, 21. febr. 1924.

Virðingarfylst.

(Nöfn stjórnenda sjóðsins.).

Við þessu brjefi fjekk stjórn sjóðsins ekki svar fyr en 8. mars, að mig minnir, eða eftir að núverandi landsstjórn tók við. Það svar er mjög vingjarnlegt og tilboðið þakkað, en, eins og við bjuggumst reyndar við, þá sá hæstv. stjórn sjer ekki fært að taka tilboðinu nú þegar.

Til skýringar og viðbótar brjefi landsspítalasjóðsstjórnarinnar, sem jeg nú hefi lesið upp, skal jeg geta þess, að stjórn sjóðsins er reiðubúin til þess að leggja fram fjeð undir eins og hún sjer, að stjórnarvöldum landsins er full alvara að hefja verkið og trygging er fyrir því, að því verði haldið áfram án tafar.

Landsspítalasjóðurinn er nú um 230 þúsund kr., og getur hann því lagt fram til byggingar spítalans 75000 kr. árlega í þrjú ár. Og gangi fjársöfnun til sjóðsins nokkurnveginn vel næstu 3 ár, þá má gera ráð fyrir, að á þeim árum vaxi sjóðurinn ekki minna en 75000 kr. Með því móti gæti sjóðurinn lagt fram kr. 300000 á næstu 4 árum gegn 3–400 þús. kr. tillagi úr ríkissjóði, eins og gert er ráð fyrir í till. á þskj. 465.

Þessi fjárupphæð ætti að vera nægileg til þess að reisa fyrir byggingu þá, sem till. gerir ráð fyrir og talin er að muni nægja fyrst um sinn. Auðvitað vakti bæði fyrir okkur flm. þessarar till. og öllum, sem standa landsspítalamálinu nærri, að bygt verði í viðbót við þessa byggingu, þótt til þess sje ætlast, að hún verði svo úr garði gerð, að þegar verði auðið að taka hana til notkunar.

Skoðanir manna eru ekki lengur skiftar um nauðsyn landsspítalans, þótt því verði ekki neitað, að læknastjettin hafi sýnt því máli fullmikið tómlæti hingað til.

En nú má segja, að æðsti dómstóllinn í þessu máli hafi felt dóm sinn. Læknadeild háskólans telur ekki auðið að fresta spítalabyggingunni í mörg ár enn.

Með því að samþ. till. þessa er fundin leið til þess að hrinda málinu bráðlega í framkvæmd. Jeg er svo bjartsýn á hag ríkissjóðs, að jeg hygg, að hann muni leyfa, að lögð verði fram þessi upphæð nokkur næstu ár. Á þann hátt verður leiðin tiltölulega ljett og hentug; ríkissjóður þarf ekki að taka annað lán til byggingarinnar en það, sem hann væntanlega fær hjá landsspítalasjóðnum.

Jeg skal ekki leyna því, að tilgangur sjóðsstjórnarinnar og þeirra fjelaga, sem að honum standa, er sá, að á sínum tíma verði honum varið til byggingar einhverrar sjerstakrar deildar við hinn stóra og fullkomna landsspítala, sem vjer vonum, að upp komist áður en lýkur.

Mun ríkissjóður því ef til vill ekki þurfa að endurgreiða landsspítalasjóðnum lánið í sömu mynt, heldur gæti komið til mála, og fyndist mjer það jafnvel eðlilegast, að þegar byggingin verður fullgerð, þá verði leitað samninga um það, á hvaða deild hans sjóðurinn skuli yfirfærður, og yrði sú deild síðan skoðuð sem gjöf íslensku kvenþjóðarinnar til landsins.

Þá vil jeg minnast á þýðingarmikið atriði, sem felst í 3. lið till. og miðar að því að gera rekstur væntanlegs spítala sem ódýrastan. Það er öllum kunnugt, að upphitun og ljós eru mjög stórir útgjaldaliðir í rekstri slíkra stofnana, og tel jeg því afarþýðingarmikið, ef hægt verður að fá endurgjaldslaust vatn úr Laugunum til afnota handa spítalanum. Er ekki ólíklegt, að þeir samningar takist, því að Reykjavíkurbær og spítalinn verða svo skyldir liðir, að það, sem horfir öðrum til hagsmuna, verður hinum og til gagns.

Það er kunnugt, að bæjarstjórn Reykjavíkur hefir afráðið að byggja skólahús austarlega í bænum undir eins og efni leyfa. Mun og vera áformað að leiða vatn úr Laugunum til upphitunar því húsi. Bæri því vel í veiði, að fengið yrði hið heita vatn, sem bærinn mætti missa frá þeirri byggingu, til afnota fyrir væntanlegan landsspítala, sem yrði hin mesta hjálp að þessari ráðstöfun.

Þess má geta í sambandi við rekstrarkostnað spítalans, sem rjettilega vex mörgum í augum, að landsspítalasjóðsnefndin ákvað á fundi 1. nóv. síðastl., að fje því, sem safnast hefir í „minningagjafasjóð“ væntanlegs landsspítala, alt frá stofnun hans í maí 1916, og framvegis kann að safnast í hann, skuli varið til styrktar fátækum sjúklingum hvaðanæfa af landinu.

Sjóðurinn er að vísu ekki stór enn var um síðustu áramót kr. 73.328.58, en benda má á það, að síðastl. ár óx hann um kr. 13.835.70. Má gera sjer góðar vonir um, að sjóður þessi vaxi örar framvegis, sjerstaklega þar sem herra Forberg landssímastjóri og stöðvarstjórinn í Reykjavík, hr. Gísli J. Ólafson, hafa sýnt þessu áhugamáli vor kvenna þann mikla stuðning að koma því í kring, að hjer eftir er hægt að senda „samúðarskeyti“ frá öllum aðalstöðvum landssímans til ágóða fyrir sjóðinn og honum að kostnaðarlausu, nema að því leyti sem hann leggur til eyðublöð undir skeytin. Finn jeg mjer skylt að nota þetta tækifæri til þess að þakka þessum mönnum stuðning þennan, svo og fyrverandi hæstv. landsstjórn, sem gaf samþykki sitt til þessarar ráðstöfunar.

Það er ekki hægt að segja með neinni vissu, hversu mikið þessi fjársöfnun kann að gefa í aðra hönd, en jeg get upplýst, að á tveim fyrstu mánuðum ársins höfðu safnast, aðallega í Reykjavík, um 1000 kr. fyrir skeyti þessi. Getur því á þessum lið safnast drjúgur skerfur til styrktar fátækum sjúklingum; auk þess sem það eru mikil þægindi fyrir þá, sem vilja sýna samúð við fráfall fjarlægra látinna vina, að geta sent símleiðis þannig skeyti.

Ennfremur hefir landssímastjóri komið því til vegar, að dálítið gjald af hverju heillaskeyti, sem sent er með landssímanum, renni í landsspítalasjóðinn.

Jeg hefi dvalið svo við minningagjafasjóðinn vegna þess, að jeg vildi varpa ljósi yfir það, að hann verður í framtíðinni drjúgur skerfur til hjálpar rekstrarkostnaðinum, og ennfremur vildi jeg vekja athygli hv. deildar á því, hversu mikinn skilning landssímastjóri og starfsbróðir hans, símastjórinn í Reykjavík, hafa sýnt í þessu máli. Þeir hafa sjeð, sem fleiri, hversu afarnauðsynlegt það er þjóðinni, að landsspítala málinu verði hrundið í framkvæmd. Mun þessara afskifta þeirra jafnan minst með þakklæti.

Við, sem erum í stjórn landsspítalasjóðsins, vonum, að við höfum ekki farið ógætilega af stað í þessu máli og ekki krafist meira en ríkissjóði er fært að inna af hendi, og það get jeg fullvissað hv. deild um, að ekkert tækifæri munu íslenskar konur láta ónotað, sem aflað geti báðum sjóðunum, landsspítalasjóðnum og minningagjafasjóðnum, tekna, svo að þeir megi koma að sem mestum notum til að ljetta undir með byggingar- og rekstrarkostnaði landsspítalans.

Jeg vil svo ekki fjölyrða frekar um mál þetta að sinni, en vænti þess, að hv. deild ljái því stuðning sinn með því að samþykkja till. þá, sem hjer liggur fyrir.