02.05.1924
Efri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (2987)

143. mál, Landspítalamálið

Flm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Það er eins um þetta mál og hið síðasta, að jeg hefi talað fyrir því hjer áður, og það hefir sömuleiðis fengið góðar undirtektir, þar sem það kom fram undir umræðunum, að þetta væri einasta ráðið til þess að leysa stórmál þetta í náinni framtíð. Okkur flutningsmönnum till. hefir verið bent á, að orðalag í 2. lið till. okkar geti orkað tvímælis, þar sem segir svo: „um að leggja fram af sjóðnum“. Höfum við því flutt brtt. við till. á þskj. 507 á þá leið, að í stað þessara orða komi: „um að lána ríkissjóði af landsspítalasjóðnum“. Og mun till. þá verða orðuð eins og hún eftir eðli sínu þarf að vera.

Jeg tel nú fallinn svo gott sem hæstarjettardóm í þessu máli, þar sem læknadeild háskólans í fáum en skýrum orðum mælir mjög með því og bendir á nauðsyn þess. Og skal jeg í þessu sambandi taka það fram, að þegar jeg við fyrri umr. þessa máls talaði um tómlæti læknanna í þessu máli, þá var það alls ekki til þess að rýra álit þeirra; síður en svo, heldur til þess að fá þá til þess að láta álit sitt í ljós. Enda hafa þeir nú látið málið til sín taka og lýst yfir því áliti sínu, að bráða nauðsyn beri til að hrinda landsspítalabyggingunni sem fyrst í framkvæmd og talið þá leið, sem till. ræðir um, einu leiðina, sem nú væri hægt að fara í þessu máli.

Hæstv. fjrh. (JÞ) gat þess í gær, að ekki væri sjáanlegt, að á næsta ári yrði hægt að leggja fram úr ríkissjóði það fje, sem talað er um í till. okkar. En jeg vil undirstrika það, að tilboð landsspítalasjóðsstjórnarinnar stendur enn, og hún mun teygja sig eins langt og hægt er. Og jafnframt vil jeg taka það fram, að hjer verður ekki um venjulegt lán að ræða, því að endurgreiðslu þess verður ef til vill aldrei krafist, heldur að einhver sjerstakur hluti byggingarinnar verði tekinn út og afhentur þá sem sjerstök gjöf frá íslenskum konum. Og vaxtakjörin verða svo góð, að jeg hygg, að tæplega verði unt að fá lán með vægari kjörum.

Treysti jeg svo víðsýni og skilningi hv. deildarmanna í þessu stærsta nauðsynjamáli þjóðarinnar, að þeir samþykki tillögu þessa með öllum atkv.