30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

1. mál, fjárlög 1925

Klemens Jónsson:

Jeg skal ekki vera langorður, enda þýðir lítið fyrir okkur hæstv. fjrh. að vera að karpa um þau atriði, sem við höfum báðir minst á; þau eru í rauninni fremur smávægileg. En mjer fanst, að jeg yrði að leita umsagnar landssímastjóra viðvíkjandi umframgreiðslunni, er hæstv. fjrh. mintist á, og jeg fjekk skýrslu frá honum, sem jeg birti í gær. Hann skýrði svo frá, að vanalegt væri að kaupa þá símastaura á haustin, sem nota ætti árið eftir, svo að í raun og veru kemur kostnaðurinn niður á tvö árin. Þessa gætti ekki svo mjög meðan fjárhagsárið náði yfir 2 ár, en ber meira á því síðan fjárhagstímabilið nær einungis yfir eitt ár. Þessari reglu hefir verið fylgt frá því fyrst var farið að leggja síma, að staurar og efni er keypt á haustin, en verkið unnið árið eftir.

Þá skal jeg minnast á hækkunina á 7. gr. Hæstv. fjrh. vildi halda því fram, að hún stafaði af lausum innanlandslánum. En það er nú einu sinni svo, að einn ráðherra getur ekki haft nefið niðri í öllu. Hann hefir sína undirmenn, er hann verður að treysta á, og sem vinna sín ákveðnu störf. Frá ríkisbókhaldara komu í des. nákvæmar skýrslur um lán ríkissjóðs, og hafa vextir verið reiknaðir eftir þeim. Jeg hefi ekki dregið þar út nema tvær upphæðir, lán úr kirkjujarðasjóði og aðra, er jeg man ekki hver var, og námu þær ekki nálægt 3 miljónum. Önnur þeirra var 120 þús. kr., en hin eitthvað lægri; áttu báðar að borgast í ár, og koma því fjárlagafrv. fyrir 1925 ekkert við. Ef hjer er um einhverjar misfellur að ræða, eru þær ríkisbókhaldinu að kenna. Jeg býst við, að skýrslan finnist í stjórnarráðinu, ef þess gerist þörf, þótt jeg viti það ekki upp á víst. Hitt er satt, að genginu á þessum lánum rjeði jeg. Að því er gjöldin til prestlaunasjóðsins snertir, þá vil jeg taka það fram, að þegar fjárlögin voru undirbúin 1922, kom hver ráðherra fram með sína till. og ræddu síðan frv. í sameiningu. Nú voru ráðherrarnir ekki nema 2 og annar fjarverandi aðallega þann tímann, sem undirbúningur stóð á, og varð jeg því að snúa mjer til skrifstofunnar. Hjer varð því að byggja þessa till. á skýrslum frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Jeg er ekki svo kunnugur í því ráðuneyti, sem jeg er ekki í sjálfur, að jeg geti vefengt tölur, sem þar eru fengnar.