02.05.1924
Efri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í D-deild Alþingistíðinda. (2990)

143. mál, Landspítalamálið

Forsætisráðherra (JM):

Jeg veit ekki vel, hvernig jeg á að skilja hv. 1. landsk. (SE). Hvað 1. lið till. snertir, þá veit jeg ekki til, að þar sje neitt til fyrirstöðu, því að ekkert er annað en biðja húsameistara að breyta teikningunum.

En um framkvæmdir samkvæmt 2. lið getur stjórnin engu lofað. Hvort deildin því samþykkir tillöguna, eins og hún liggur fyrir, er vitanlega á hennar valdi, þó að jeg geri hinsvegar ráð fyrir, að það þýði lítið að því er snertir 2. lið hennar.

Að leita samninga við bæjarstjórnina um afnot af heitu vatni frá Laugunum er vitanlega vandalítið, og má athuga það.

Annars hygg jeg, að aðalatriðið fyrir flutningsmönnum till. hafi verið að fá verkinu komið í framkvæmd nú, en því getur stjórnin ekki lofað.