02.05.1924
Efri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (2991)

143. mál, Landspítalamálið

Jónas Jónsson:

Út af athugasemd hæstv. forsrh. (JM) um 2. lið tillögu okkar, á þskj. 465, vil jeg taka það fram, að þó að hann verði samþyktur, þá er það ekki bundið fram yfir vilja þingsins í hvert skifti, hve mikið fje er lagt fram. En það, sem hjer er verið að gera, er það, að verið er að færa málið í nýtt horf, og því aðeins um rannsókn að ræða. Það er satt, að það er þýðingarlaust að gera nýja teikningu af byggingu þessari, nema því aðeins, að skipulaginu sje breytt, þar sem hjer er um framtíðar en ekki augnabliksmál að ræða.

Annars þarf ekki að fæla neinn frá að greiða atkvæði með tillögu þessari, þó að talað sje um peninga, því að vitanlega verður ekki um framlag í þessu skyni að ræða fyr en ríkissjóður er þess megnugur, sem jeg vona fastlega að verði mjög bráðlega, þar sem landið getur t. d. nú lagt fram 20 þús. kr. til eins bæjarfjelags einmitt í þessu skyni, sem jeg er síst að lasta.

Um 3. lið till. er það að segja, að það var upplýst við fyrri umræðu þessa máls, að bærinn ætlaði að leiða heitt vatn frá Laugunum til væntanlegs barnaskóla, og frá verkfræðinganna sjónarmiði væri því ekkert til fyrirstöðu. Að hægt verði að fá þetta heita vatn sömuleiðis til hitunar í væntanlegum landsspítala, tel jeg svo stórt skilyrði, að mjer finst óumflýjanlegt, að leitað verði samninga strax, áður en bærinn ráðstafar því á annan hátt.