02.05.1924
Efri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í D-deild Alþingistíðinda. (2992)

143. mál, Landspítalamálið

Flm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Jeg hygg, að hæstv. forsrh. (JM) hafi ekki verið hjer við fyrri umr. þessa máls, en hæstv. fjrh. (JÞ) tók þá mjög vel í að láta gera nýja teikningu af fyrirhuguðum landsspítala. Þetta er stórt atriði fyrir mjer, því að það flýtir svo mjög fyrir gangi málsins síðar meir. Vona jeg því, að hæstv. forsrh. (JM) taki einnig vel í þetta mál. Því að það er satt, sem tekið hefir verið fram, að ekki er fyrirsjáanlegt, að í náinni framtíð verði byrjað á spítala eftir þeirri fyrirmynd, sem lá fyrir þinginu í fyrra. Og er því örvænt, að málið fái framgang, nema að byrjað verði í smáum stíl.

Annars hefði ekki verið óhugsandi, ef fjárlögin hefðu verið afgreidd frá þinginu eins og þau voru afgreidd frá þessari hv. deild, að svo hefði skipast, að hægt hefði orðið fyrir landið að leggja fram á næsta ári svo sem 75 þús. kr. í þessu skyni.

Vona jeg svo fastlega, að framkvæmda í þessu máli verði ekki langt að bíða.