30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

1. mál, fjárlög 1925

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg skal ekki vera langorður, enda er það ekki margt, sem jeg þarf að svara.

Jeg skal fyrst víkja að þeirri athugasemd hæstv. fjrh. (JÞ), sem hann gerði við þá till. fjvn., að lækka fjárveitingu til flutningabrauta úr 100 þús. kr. niður í 75 þús. kr.

Hann sagði, að þetta væri ógerningur vegna vegalaganna nýju. Nefndin átti tal við vegamálastjóra um þetta, sem taldi þetta nægilega hátt, þar sem mundi mega hlaupa upp á ýmsar smáupphæðir, sem ekki yrðu notaðar að öllum líkindum, t. d. 10 þús. kr. til áhaldakaupa. Önnur ástæðan er sú, að þetta fje er alls ekki ætlað til nýbygginga, heldur aðeins til viðhalds. Hæstv. fjrh. hefir nú að vísu lofað hv. 2. þm. Rang. (KlJ) nýbyggingu á Holtaveginum, enda er slíkt engin ný bóla, þegar Suðurland á í hlut. (PO: Að minsta kosti austanfjalls). Um Norðurland er alt öðru máli að gegna. Þar er jafnvel það efni, er þangað hefir verið flutt í slíku skyni, flutt aftur í burtu með ærnum kostnaði fyrir ríkissjóð. Nefndin leggur því til, að till. verði samþykt. Það er meira að segja ástæða til að ætla, að eitthvað af þeirri upphæð, sem hún leggur til, geti orðið afgangs, er til kemur. — Jeg hefi lítið fleira að segja um athugasemdir hæstv. fjrh. Hann á hjer brtt. viðvíkjandi styrk til prestsekkju einnar. Við því er ekkert að segja, og jeg býst við, að nefndin sje þessu sammála, enda þótt hún hafi ekki borið sig saman um það. En vafasamt þykir mjer, hvernig hinn framliðni eiginmaður hennar hefði litið á þessa lítilfjörlegu 150 kr. fjárveitingu, ef hann hefði verið ofanjarðar.

Þá mintist hæstv. fjrh. á liði, sem vantaldir væru í fjárlögunum, til prestsekkna, berklavarna, ríkisfjehirðis o. fl. Þetta er víst alt rjett, enda tekur nefndin tillit til þess. Auk þessa má telja víst, að aðrar upphæðir, um 50 þús. kr., sjeu vantaldar, en nefndin gerði sjer ekki ljósa grein fyrir þessu, einkum þar sem hún bjóst við, að hæstv. fjrh. kæmi með brtt., sem þó hefir ekki orðið úr.

Hv. 2. þm. Eyf. (BSt) kom fram með brtt. um, að stúdentar, sem eru við nám erlendis, nytu þar námsstyrks í 1–3 ár. Annars heyrðist mjer skoðun hans beinast í þá átt, að kippa ekki styrknum af neinum, en láta hann heldur vera lægri til hvers einstaks. Nefndin hefir heldur viljað fara hina leiðina, að kippa styrknum af þeim, er ekki hafa verið lengur en eitt ár, því að öðrum kosti mundi hann skiftast á milli svo margra, að hann yrði að engu liði. Þetta er harðræði, það skal jeg viðurkenna, en svo mætti segja um margt fleira, enda er ekki um gott að gera.

Þá átti hv. 2. þm. Eyf. aðra till., um að ríkið ábyrgðist 300 þús. kr. lán til að reisa rafstöð á Siglufirði. Fyrst og fremst leggur nefndin á móti þessu af því, að hún telur nógar ábyrgðir á baki ríkissjóðs nú þegar. Í öðru lagi er ekki getið neinnar tryggingar fyrir láninu, enda þótt svo hljóti að vera ákveðið. Í þriðja lagi er efnahagur bæjarins ekki svo glæsilegur, að hægt sje að ganga inn á till. þessa.

Svo er talið, að allar eignir bæjarins nemi 130 þús. kr., sem er þá rúmur þriðjungur þeirrar upphæðar, sem bærinn vill láta ríkið ábyrgjast.

Þá skal jeg loks snúa mjer að hv. þm. Dala. (BJ). Hann byrjaði á að kvarta yfir því, að hann væri orðinn svo geðgóður, að það væri tæplega vansalaust fyrir hann. (BJ: Jeg var ekki að kenna neinum um það). Jeg bjóst nú ekki heldur við því, að það væri af því að hann hefði komið nálægt portum hins æðsta dómstóls. (BJ: Það var af því að mjer lá illa rómur).

Hann byrjaði á að tala um mannval þingsins, en niðraði þó þeim niðurstöðum, er þetta mannval hafði komist að, og gat jeg því ekki skoðað þessi orð hans annað en skop. En hitt mátti lesa út úr orðum hans: Það sjest á störfum þingsins, að jeg hefi ekki verið við. Hann talaði sjerstaklega um meðferð þingsins á fjárlögunum; sagði, að þar hefði verið skorið niður og nurlað, ekkert verið gert til þess að bæta hag ríkissjóðs, en margt til að spilla hag landsmanna. Þetta voru hans óbreytt orð. (BJ: Alt rjett haft eftir mjer, og alt rjett, sem jeg sagði). Jeg veit, að það sjer hver skynbær maður, að öflugur ríkissjóður hlýtur altaf að vera sú stofnun, er fyrst og fremst getur rjett við þjóðarhaginn. Þetta hefir þingið viljað gera. Til að gera ríkissjóð öflugan, hefir verið treyst á gjaldþol skattþegnanna á fremsta hlunn. En þegar ríkissjóður hefir tekið það af gjaldþegnunum, sem hægt er, hvernig á þá að hjálpa ríkinu öðruvísi en með honum? Með lánum, býst jeg við að hv. þm. Dala. segi, eins og fyr. Einhverntíma kemur þó að skuldadögum, og í öðru lagi eru lán nú ófáanleg. Bankarnir hjer hafa lagt meira kapp á að leggja fje í húsaskrokka hjer í Reykjavík heldur en að efla framleiðsluna, enda þótt það sje aðalatriðið. Ríkið verður því að flýja á náðir gjaldþegna sinna. En til þess að halda í horfinu með því móti, verður að beita hörku, fella niður óþörf útgjöld og fresta öðrum meðan hægt er, og þetta er það, sem þingið hefir reynt. Og jeg býst við, að hv. þm. Dala. verði að fallast á, að þetta var eina leiðin, sem fær var. Að minsta kosti hefir hann ekki bent á aðra betri.

Þessi hv. þm. talaði um sex svikaþætti, er spunnir hefðu verið á þessu þingi, og snerta þeir þessar fjárveitingar: Til dr. phil. Alexanders Jóhannessonar, til stúdenta erlendis, til Kristins Ármannssonar, til Guðmundar Finnbogasonar, til Jóh. L. L. Jóhannssonar, og þar að auki talaði hann um háskólahalaklipping og ýmislegt fleira.

Hv. þm. Dala. hefir nú áður talað um, að þingið efndi illa orð sín. Stóryrði sitja jafnan illa á vitrum mönnum. Jeg skal nú að nokkru athuga þessar staðhæfingar hv. þm. Dala. Þá kem jeg fyrst að dr. Alexander Jóhannessyni. Hann hefir um tíma haft laun í fjárlögum, en aldrei gegnt föstu embætti. Það veit hver maður, að fjárlögin hljóta altaf að vera breytileg og hver liður þeirra út af fyrir sig. Árið 1921 kom fram frv. um að gera þetta embætti dr. Alexanders Jóhannessonar að föstu embætti. Þetta frv. var felt þá með 15 atkv. gegn 10. Þingið lagði þá sinn dóm á þetta mál. Þingið sýndi með þessu, að það vildi ekki festa þetta embætti, maðurinn skyldi gegna þessu starfi meðan fje væri veitt til þess í fjárlögum, en lengur ekki. Þessi var vilji þingins.

Þá mintist hv. þm. Dala. á brigðmælgi við stúdenta við erlenda háskóla. Það hefir vitanlega engu verið lofað af þingsins hálfu, að þessir stúdentar skuli fá styrk í 4 ár, þó að mjer sje kunnugt um, að þeir hafa skilið það svo. Jeg býst ekki við, að jafnvel hv. þm. Dala. vilji slá því föstu, að ríkissjóður sje skyldur að halda áfram á þessari leið, hversu margir sem stúdentarnir verða. Næsta ár geta þeir verið orðnir 60, og þá ætti að verja 72 þús. kr. úr ríkissjóði til að styrkja þá. Þetta er alveg óhugsandi. Þessi straumur heldur áfram, og frá nefndarinnar sjónarmiði er ekki vit í öðru en að stöðva hann, og heldur fyr en síðar. Auðvitað verður að beita hörðu til þess, og kemur þetta verst niður á eins árs stúdentum, til þess að hinir geti fengið samskonar upphæð sem áður. Þetta er kallað ranglæti gagnvart stúdentum. En höfum vjer þá engar skyldur gagnvart þjóðinni? Hagur ríkissjóðs var á þann veg síðastliðið sumar, að stöðva varð allar framkvæmdir. Hæstv. fjrh. lýsti yfir í vetur, að þá væri í fjárhirslunni fje til tveggja daga. Ef það er ekki skylda vor gagnvart þjóðinni að stöðva á þessari braut og ef það á ekki að ganga fyrir stúdentum, þá er jeg ekki með. Nefndin vill ekki drepa þjóðina fyrir einstaklingana, heldur vill hún að stúdentarnir dragist fremur aftur úr fyrir þjóðina.

Það er eitt, sem ætti að gera hv. þm. Dala. trúaðan á það, að hjer eru ekki svik af hálfu þingsins. Hann er í lögjafnaðarnefnd. Í fyrra lækkaði þingið styrkinn til þessarar nefndar, og taldi hv. þm. þá svikin loforð þings og stjórnar. (BJ: Hjer er um laun að ræða, en ekki styrk). Jeg bið fyrirgefningar á því, að jeg hefi mistalað mig, enda efast jeg ekki um, að nefndin vinni fyrir kaupi sínu. Nefndin ljet ekki við þetta sitja, heldur leitaði til dómstólanna. Nú hefir dómsúrskurður sýnt, að hv. þm. Dala. hefir farið þarna með staðlausu stafi, og hið sama er um alla þessa liði. Hann mundi fá sömu útreið fyrir hæstarjetti um hvern sem væri af þessum liðum. Ætti þetta að hafa kent hv. þm. að tala gætilega um þessa hluti. Það má þó vera, að hv. þm. geti fundið ráð til þess að jafna það upp, sem hæstirjettur hefir dæmt af nefndarmönnum. Jeg hefi sjeð reikninga nefndarinnar frá síðasta fundi, og virðist ekki mikið dregið úr kostnaðinum. (BJ: Jeg hefi enga reikninga sent).

Í þessu sambandi get jeg ekki stilt mig um að minnast á brtt. nefndarinnar um að fella niður þá athugasemd, sem hv. Ed. setti við vaxtahæðina af viðlagasjóðsláni Guðmundar sýslumanns Björnssonar í Borgarnesi. Í því máli hefir hv. þm. Dala. gefið vottorð um það, að fjvn. neðri deildar hafi litið svo á, að sýslumaður hefði þann rjett, sem hann telur sig hafa. Skal jeg leyfa mjer að lesa upp kafla úr þessu vottorði:

„Nefndin vildi greiða fyrir honum sem best og ákvað að veita honum 60 þús. kr. lán. En þar sem hver banki gat gert honum sama drengskaparbragð um lánið, ákvað nefndin að lána honum fjeð fyrir lægri vexti, og tiltók 6%. Eðli málsins og öll tildrög þess benda að sjálfsögðu til þess, að ætlun nefndar og þings hafi verið sú, að hann borgaði jafnan 2% lægri vexti en bankar taka á hverjum tíma.“

Það er eins og hv. þm. vilji láta í ljós, að nefndin hafi verið í kapphlaupi við bankana um að gera þessum manni greiða. Nú hafa 2 hv. þm., sem áttu þá sæti í nefndinni, hv. 4. þm. Reykv. (MJ) og hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ), vottað, að það hafi aldrei borið á góma í nefndinni, að vextirnir skyldu vera 2% lægri en bankavextir. Þá er einkennilegt, að vottorðið nefnir 6%, því að nefndin gerði tillögu um 5%, en þáverandi fjrh. ákvað 6%, og við það sat. Hjer virðist ekki tekið nærri sjer að fara dálítið á svig við sannleikann, Og þannig er nú tilkominn einn svikaþátturinn, sem hv. þm. nefndi. Hvort hyggur nú hv. þm. Dala., að betur standi að vígi í þessu máli, þingið eða hann sjálfur með þetta vottorð. (BJ: Jeg mintist ekki á brugðin loforð við Guðmund sýslumann Björnsson, en það er gott, að hv. frsm. bætir nýju við). Hv. þm. hefir talið alt, sem þessu kemur við, svik af hálfu þingsins. Á sama hátt má rekja alt í sundur, sem hv. þm. bar fram. Það er sama hvar niður er borið, alstaðar er jafnlítið byggjandi á ummælum hans.

Í þessu sambandi mintist hv. þm. á þinglóminn, sem breiddi út vængina hjer í hv. deild, væri altaf að berja sjer, skera niður og klípa af. Það er ef til vill ilt að vera þinglómur, en þá má kalla hv. þm. Dala. allsherjar vísindalóm. En hann vantar stjelið til að stýra sjer með innan um allar staðhæfingarnar, svo að þær verði sannfærandi og sannar.

Þá gat hv. þm. um veðurspárnar og átaldi nefndina fyrir vitskort, er hún hefði ekki ákveðið miklu stærri upphæð. Í sambandi við þetta gat hann þess, að nú þyrfti að koma upp viðvörunarkerfi um alt land, til þess að vara menn við, er sjó sækja, þegar illviðri færu í hönd. Nefndin lækkaði upphæðina í samráði við forstöðumann þessarar stofnunar. Nú hefir hún verið hækkuð aftur og nefndin látið það afskiftalaust, enda tók hún fram, að hún mundi ekki leggjast á móti hækkun, ef mikil nauðsyn væri á henni. En hitt, um viðvörunarkerfið, hygg jeg ekki tímabært. Veðurspárnar eru ennþá svo óáreiðanlegar, að óhugsandi er að leggja út í slíkt nú þegar. Reynslan hefir sýnt, að þær hafa ekki staðist. Hv. þm. hugsar sjer, að kúlur verði dregnar á stöng í öllum verstöðvum, þegar illviðri fara í hönd. Nú eru veðurspárnar oft vitlausar, eins og jeg gat um, og gæti það því einatt komið fyrir, að óveðursmerki væri gefið og allir sjómenn gintir í land áður en þeir kæmu á miðin, þó að besta sjóveður hjeldist. Hverju skiftir það? Hjer er einnig um stórfje að ræða. Þetta má ekki komast á fyr en spárnar eru orðnar nokkurn veginn öruggar, en það á langt í land. Býst jeg við, að nefndin hafi íhugað þetta mál betur en hv. þm. Dala.

Hv. þm. kvað lítið hafa verið gert til að festa gildi peninganna. Hann hefir aldrei haft hugmynd um eða haldið því fram, að styrking ríkissjóðs væri um leið styrking á genginu. En hann hefir trú á öðru, sem sje því, að reikna alt í landaurum. Jeg veit ekki, hvað hann hefir fyrir sjer í því, að það geti bætt gengið. En hitt mun honum frekar ganga til, að við það hækkuðu laun allra starfsmanna ríkisins að mun, því að dýrtíðaruppbótin hefir ekki staðið í rjettu hlutfalli við verðlagið. Sagði hv. þm. ýmislegt í þessu sambandi, sem jeg get hlaupið yfir, endurtók ummæli sín, að þingið sviki gefin loforð og gerði landinu skömm.

Þá er að minnast á sjúkraskýlin. Hv. þm. taldi Flateyjarhjerað standa til þess að fá jafnsnemma styrk úr ríkissjóði sem önnur hjeruð. Jeg hefi haldið því fram áður, en þá var hv. þm. Dala. ekki viðstaddur, að þetta hjerað ætti mikla sanngirniskröfu á slíkum styrk, ef sjúkrahúsleysi ylli því, að enginn læknir fengist í hjeraðið, þar sem mjög er erfitt að ná til annara lækna. En þetta mál er mjög illa undirbúið. Taldi nefndin varhugavert að leggja til, að ríkissjóður veiti styrk til sjúkraskýla fyr en fjárreiður hjeraðsins eru svo góðar, að örugt má telja, að skýlið komist upp. Vjer höfum dæmi úr Árnessýslu, sem ætti að vera töluvert lifandi. Þar hefir stórfje verið lagt fram, en sjúkrahúsið er ekki komið upp ennþá. — Þar, sem nefndin hefir lagt til að veita fje í þessu skyni, hefir málið verið komið í svo gott horf, að örugt var um, að nægt fje væri til þess að framkvæma verkið. Jeg skal ekki gera að umtalsefni, hvort rjettara er að veita stjórninni ákveðna upphæð eða ákveða beinlínis, að Borgarfjarðarhjerað skuli njóta þessa styrks, eins og hv. Ed. hefir gert. Sú tillaga kom í upphafi frá nefndinni. Jeg vil ekki gera þetta að ágreiningsatriði, þó að nefndin haldi fram sinni tillögu og þyki hún rjettust.

Hv. þm. kom næst að námsstyrk stúdenta, sem nefndin hefir ekki fært niður, en þó gert nokkra breytingu á. Það er ekki rjett, sem hv. þm. segir, að nefndin hafi lækkað styrkinn, heldur lagði hún til, að háskólaráðið legði fje úr sáttmálasjóði til móts við ríkissjóðsstyrkinn. Þetta gerði nefndin í góðri trú. Hæstv. forsrh. (JM) átti tal um þetta við mig, og kvað hann sennilegt, að það mundi geta orðið, eða eitthvað á þá leið; man jeg ekki, hvort hann komst ákveðnara að orði. Rektor háskólans fór fram á það við nefndina, að hún tæki brtt. sínar um þetta efni aftur til 3. umr., þar sem háskólaráðið ætlaði að halda fund um þetta leyti. Nefndin hafði því ástæðu til að telja það nokkurn veginn víst, að háskólaráðið mundi ganga að því að veita einhverja ákveðna upphæð. Þó að upphæð sú væri allhá, sem nefndin tiltók, var ekki fjærri henni að færa hana eitthvað niður, hefði háskólaráðið komið eitthvað á móti nefndinni, sem hún taldi sterkar líkur á. En er háskólaráðið kemur saman, þverneitar það að leggja eyri af mörkum og bar það fram sem aðalástæðu, að þingið hefði engin ráð yfir sjóðnum. Virðist hálfger metnaðarbragur vera á framkomu háskólaráðsins í þessu máli, og mun það ekki hafa íhugað það sem skyldi. Það er von, að hv. þm. Dala. ræski sig við því, að háskólaráðið skuli ekki vilja styrkja námsmenn, sem þó er beinlínis verkefni sjóðsins samkvæmt skipulagsskránni. Eru ekki stúdentar námsmenn? (BJ: Eins og t. d. verslunarskólanemendur). Jeg slæ því föstu, að stúdentar eru námsmenn. (BJ: Ekki allir námsmenn). Það má vera, að þeir sjeu ekki allir góðir námsmenn, og sje það ástæðan til þess, að háskólaráðið vilji ekki styrkja þá. (BJ: Fleiri eru námsmenn en stúdentar). En háskólaráðið treystir þeim ef til vill betur til að hafa gagn af styrknum, ef ríkissjóður leggur hann fram.

Undanfarið hefir háskólaráðið veitt ritlaun fyrir vísindalegar ritgerðir. Hv. þm. Dala. veit líklega flestum betur, hve há þau eru, en jeg hefi heyrt, að þau sjeu nokkuð há. Sumar af þessum ritgerðum eru sjálfsagt góðar, en aðaleinkenni þeirra er, hve langar þær eru, og kemur mönnum í hug, að það stafi af því, að ritlaunin eru miðuð við arkatölu. Hv. þm. Dala. kann auðvitað að meta, til hve mikilla þjóðþrifa þessar ritgerðir eru og hvort þarflegra er að verðlauna þær en að styrkja unga námsmenn. Jeg býst við því, að hann muni fallast á skoðun nefndarinnar, að ekki væri óheppilegra að veita úr sáttmálasjóði styrk til stúdenta heldur en greiða þessi ritlaun.

Annars er margt, sem segja mætti um stúdentafjölgunina. Hún er áreiðanlega orðin mikið alvörumál. Það er óhugsandi, að ríkissjóður hafi bolmagn til að styrkja stúdenta framvegis svo sem verið hefir; þeir eru orðnir svo margir. Og þessi fjölgun er ekkert undarleg. Sumir af lærðu mönnunum, sem tala mest um hæstarjett, háskóla og vísindi, hafa komið þeirri skoðun inn hjá ungum námsmönnum, að þessi leið sje sjálfsögðust og öruggust til þess að komast áfram í landinu. Þetta er óheppilegt, að mínu áliti. Það er orðinn svo mikill fjöldi, sem fer þessa leið og lítur niður á hinar óæðri stjettirnar, að það verður til að losa um þjóðfjelagsskipulagið. Vinnuskiftingin verður öfug. Það vantar menn til að vinna algenga vinnu, en þessir menn fást ekki til þess; eru svo of margir um þá atvinnu, sem þeir hafa búið sig undir að stunda, og hafa ekkert að gera. Jeg sje ekki fram á annað en að þessi yfirfylling muni verða til þess, að ofhlaðið verður á annað borðið á þjóðarfleytunni, svo að hún hlýtur að taka inn sjó eða jafnvel sökkva. Þetta er því mikið alvörumál. Hv. þm. Dala. þykist auðvitað hafa bent á, hvernig megi gera tilraun til að stöðva þennan straum. En það er áreiðanlega ekki einhlítt. Þetta er komið inn í hugsunarháttinn, og honum þarf að breyta.

Það er ekki sjaldgæft að heyra hv. þm. Dala. tala um, hvernig þingið er skipað; bændurnir, sem þar sitji, hafi ekkert vit á æðri mentun. (BJ: Hvenær hefi jeg sagt það?). Hv. þm. hefir oft haldið því fram, að bændur hafi ekki vit á þeim málum. (BJ. Sko sannleikann). Þetta hefir líka heyrst utan þings og sjálfsagt ekki langt á að minnast. Gæti jeg ef jeg vildi tilfært ummæli ýmsra þessara svokölluðu lærðu manna, sem sýna mjög litla virðingu fyrir hinum lægri stjettum. Það má veiða menn með þessu. (BJ: Þetta er hauga-, og svo það, sem ekki má segja). Þeir líta á þetta ekki ósvipað því, sem veiðimenn, er ná í ánamaðkinn á öngulinn, til þess að beita honum. Þarna er ýtt við yngri mönnunum og þeir varaðir við þessari stjett á þingi og hinum óupplýstari stjettum. Þetta er beitan; með þessu er veiðin dregin að landi.

Hv. þm. gat þess, að hægt væri að biðja Nathan & Olsen um fjárframlag til stúdenta með eins miklum rjetti og hægt væri að ætlast til þess af sáttmálasjóði, að hann legði þeim til styrk nokkurn. Það má vel vera, að hægt væri að biðja nefnt firma um einhvern styrk í þessu skyni, en jeg býst varla við því, að það telji sjer skylt að veita hann. En jeg vil minna hv. þm. á það, sem hæstv. atvrh. hefir sagt, að vegur myndi vera til þess að láta sáttmálasjóðinn hlýða þessu ákvæði, að greiða stúdentum þann styrk, sem nefndin hefir ætlast til. Enda er jeg viss um það, að stjórn sjóðsins muni verða við þessum tilmælum, þegar til kemur. Hjer er sem oftar verið að þrýsta ríkissjóði til þess að láta sem allra mest af hendi rakna, þó að aðrir sjóðir hafi til þess enn betri aðstöðu.

Jeg hefi skrifað það eftir hv. sama þm., að margir stúdentar væru svo skuldugir, að þeir fái ekki undir risið, og að að þeim steðji eyðilegging, ef ríkissjóður hlaupi ekki undir bagga þeim til bjargar. Ef svo er ástatt, þá eru litlar líkur til þess, að námsstyrkur sá, sem stúdentar venjulega fá, komi þeim að verulegu liði, mörgum hverjum. Annars datt mjer í hug dæmi, sem sýnir, að enda þótt stúdentar sjeu oft skuldugir, þá komast þeir áfram þrátt fyrir það. Árið 1918 var jeg í fullveldisnefnd með hv. þm. Dala. Einu sinni þegar hann kom á fund í nefnd. inni bað hann okkur meðnefndarmenn sína um að geta okkur til, hvað hann hefði verið að gera rjett áður en hann kom á fundinn; en enginn okkar gat getið upp á því. Jú, hann hafði verið að borga síðustu skuld sína frá stúdentsárunum. Og hvernig? Með því að taka nýtt lán. Þetta sýnir, að hann hefir komist áfram og að skuldir þessar hafa ekki orðið honum að fótakefli. Jeg þykist vera viss um, að þær hafa í engu stöðvað framgang hans eða starfsemi á neinu sviði. Og svo mun vera um fleiri duglega stúdenta. Skuldirnar munu út af fyrir sig hafa tiltölulega lítil áhrif á lífsferil þeirra, þó að altaf sje betra að vera laus við þær. Það kann að hafa verið rangt af mjer að nefna þetta dæmi, en jeg hefi á engan hátt sagt frá því hv. þm. til lasts, heldur til þess að sýna, að skuldirnar hafa ekki orðið honum til fyrirstöðu. En hitt er skiljanlegt, og það skýrir, hvernig afstaða hv. þm. er oft hjer á þingi, að þetta hefir gert hann of örlátan, þegar komið hefir til að veita öðrum styrki. Það vill oft verða svo, að menn verða fullörlátir, þegar um það er að ræða að koma í veg fyrir, að aðra skorti það, sem þá hefir sjálfa áður vanhagað um. Þetta er ekki nema mannlegt.

Þá er dálítið athugaverð till. sama hv. þm. viðvíkjandi styrknum til ísl. stúdenta erlendis, sem hann vill miða við Garðstyrk, að frádregnum 200 kr. Þetta hefir það í för með sjer, að styrkurinn á að greiðast í dönskum krónum, og er það, út af fyrir sig, ekki svo lítil hækkun frá því, sem nú er lagt til í frv.

Jeg get þessa, ef svo skyldi vera, að einhverjir hv. þm. hafi ekki gefið þessu atriði gaum.

Þá mintist hv. þm. á styrk til listaverkakaupa og vjek þar máli sínu einkum til mín og sagði, að það væri draumur okkar, að landið gæti keypt listaverk. Það er rjett, að jeg hefi sagt og segi enn, að það er rjettara fyrir landið að kaupa listaverk en að veita þennan svokallaða listamannastyrk. En ef hv. þm. vill fá mig til þess að ljá þessari till. sinni atkv., þá verður hann jafnframt að bera fram aðra, um að afnema listamannastyrkinn, og skal jeg fús til þeirra skifta, ef hann vill. Það er engan veginn rjett að styrkja menn þannig áður en þeir eru orðnir nokkrir listamenn, og á því að afnema þann styrk. Það er miklu betra, að landið kaupi sæmileg listaverk, þó að jeg álíti nauðsyn þess heldur ekki svo mikla, að hún verði ekki að hverfa fyrir nauðsyn ríkissjóðs. Þessi listaverkakaup getum við talað saman um, þegar „góðu árin“ koma, og má vel vera, að við getum þá tekið höndum saman í þessu efni. — Annars sagði hv. þm., að það væri „praktiskt“ fyrir landið að kaupa nú þessi listaverk, því að þau gætu orðið þúsund sinnum dýrari síðar. Jeg held nú samt, að við getum beðið rólegir með kaupin þess vegna. Flest þeirra listaverka, sem til mála gæti komið að kaupa, eru víst ekki svo dýrmæt, að nokkur hætta sje á því, að þau þúsundfaldist í verði þangað til við höfum efni á að kaupa þau.

Þá kom hv. þm. að Jóhannesi L. L. Jóhannssyni og þóttist nú heldur en ekki hafa tangarhald á mjer, vegna þess, að jeg hafði látið orð hníga í þá átt, að maður þessi væri víst ekki fullkomlega hæfur til þess að gegna því starfi, sem honum eru greidd laun fyrir. Jeg býst samt við því, að ekki verði talið fjarri öllum sanni, þó að nefndin ætlist til þess, að sjera Jóhannes geti starfað jafnframt eitthvað lítilsháttar að einhverju öðru en undirbúningi orðabókarinnar. Háttv. þm. saknaði þess mjög, að ekki væri hægt að kveðja látinn mann, dr. Jón Þorkelsson, til vitnisburðar um hæfileika þessa manns og sína. Vera má, að þeir hafi verið aðrir og betri til þessa starfa, þegar dr. Jón sál. þekti hann, þar sem hann var þá ungur og í fullum lífskrafti, en þó svo væri ekki, þá ætti það engin goðgá að vera, þó að álitið væri, að hann sje ekki fullstarfhæfur nú á þessu sviði, mikið á sjötugsaldri, en gæti þó nokkuð aðhafst á öðrum sviðum. Vil jeg nú nefna dæmi nokkurt, þar sem þessa manns hefði sjálfsagt getað notið við. Það er ótrúlegt, að enginn hafi gegnt grískudósentsembætti hv. þm. Dala. allan þann tíma, sem hann lá veikur nú á dögunum, — svo mikils hefi jeg altaf metið þetta starf hv. þm., að það mætti ekki niður falla um langan tíma, — og býst jeg einmitt við því, að til þess starfa hafi sjera Jóhannes verið valinn maður. Og svona mun um fleiri störf, sem hann gæti gegnt, eftir hæfileikum hans að dæma. Þá er það og alkunna, að það hvílir bæði menn og skepnur að skifta um starf. Það mun því ekki fjarri sanni, þó að mjer yrði á að segja, að sjera Jóhannes gæti starfað að öðru jafnhliða orðabókarstarfanum.

Þá kem jeg að styrk til Þórdísar Ólafsdóttur, til þess að halda uppi kenslu í hannyrðum og heimilisiðnaði. Jeg skal játa, að jeg er lítið kunnugur þessari styrkveitingu, en hinsvegar hefi jeg heyrt, að kvenmaður þessi hafi dvalið hjer í Reykjavík í vetur og sömuleiðis síðastliðinn vetur, en nefndinni hefir skilist, að kenslan ætti að fara fram vestur í Dalasýslu. (BJ: Það er líka meiningin). Já, nefndin skildi það líka svo, en þar sem aldrei hafa legið fyrir neinar skýrslur um starfsemi þessarar konu, þá er nefndin að svo stöddu á móti þessari till. hv. þm. En geti hann aftur á móti upplýst, að hún hafi unnið að þessari kenslu, bæði í vetur og eins síðastliðinn vetur, þá skal jeg ekkert um það segja, nema sumir nefndarmenn kunni að fallast á till., þó að þeir sjeu nú á móti henni.

Þá er eftir að minnast á síðustu brtt. hv. þm. Dala., um lánsheimild handa sjúklingi vestur í Dölum, til þess, að hann geti leitað sjer heilsubótar erlendis. Það hefir áður legið fyrir frá honum brtt. sama efnis, en hún var feld í þessari hv. deild. Upphæð lánsins er lítil, aðeins 2000 kr., svo að landssjóður ætti að geta veitt það, ef hann á annað borð væri nokkurs megnugur. En það er annað atriði í sambandi við þetta mál, sem sje, að það sýnist eiga að vera auðvelt fyrir mann þennan að fá lánið í hvaða peningastofnun sem er, gegn þeim tryggingum, sem í boði eru, og ætti því að vera óþarfi fyrir hann að leita til ríkissjóðs í þessu skyni. Auk þess sýna læknisvottorð þau, sem lánsbeiðninni fylgja, engan veginn, að víst sje, að maðurinn fengi bata, og jafnvel ekki einu sinni stöðvun sjúkdóms síns, þó að hann fari utan. Í einu þeirra er þó gefið í skyn, að hugsanlegt sje að stöðva sjúkdóminn, og það hjer á landi. Þegar nefndin nú sá, að ekki var víst, að dómi lækna, að manninum kæmi lánið að fullum notum, þannig, að hann fengi bót meina sinna, ef hann kæmist utan, og þegar þess hinsvegar er gætt, að hann ætti að geta fengið lánið annarsstaðar, þá taldi hún ekki rjett, að lagt yrði inn á þá braut, sem samþykt till. beinir til. Hv. þm. gat þess, að ef keypt hefði verið áhald það, gagnvermir, sem talað var um á síðasta þingi, þá hefði verið hægt að stöðva sjúkdóminn hjer. Fjvn. veit ekkert um það, hvers vegna það var ekki gert — og þýðir því ekki að ásaka hana um það. Þá hefi jeg lokið við hv. þm. Dala. og kem næst að hæstv. atvrh. Hann vildi ekki, fremur en hæstv. fjrh., færa niður þá upphæð til viðhalds vega, sem hv. Ed. hefir samþykt. Mjer kom þetta mjög á óvart, því að hann átti áður sæti í fjvn. og hafði þá álitið nóg í lagt að ákveða upphæðina 75 þús. kr., með því að taka fult tillit til vegalagafrv. þess, sem þá lá fyrir þinginu. (Atvrh. MG: En síðan hefir það frv. verið samþykt). Já, að vísu, en hæstv. atvrh. áleit þá, að þessi upphæð væri nóg upp á að hlaupa, þó að vegalagafrv. næði samþykki, ef ekki yrði ráðist í nýjar vegalagningar, sem ekki ættu rjett á sjer. Og nefndin verður að telja það órjett mjög að hlaupa eftir hverri beiðni hjer sunnanlands um nýbyggingu vega, jafnhliða því, sem svikist er um árlega að vinna fyrir ákveðnu tillagi til vega víða á Norðurlandi.

Þá mintist hæstv. atvrh. á kauptúnamælingar og skipulagsuppdrætti og gat í því sambandi um mörg símskeyti, sem borist hefðu þessu viðvíkjandi. Jeg gat nú ekki sannfærst af þessu, því að mjer var það fullkunnugt, að fyrir lágu kröfur um þessa uppdrætti frá kauptúnum og kaupstöðum víða um land. Hinsvegar álítur nefndin, að full tök sjeu á því að vinna að einhverju leyti úr þeim mælingum, sem þegar hafa verið gerðar, þar sem kunnugt er, að vegamálastjóri, sem unnið hefir að þessu verki, mun hafa mikið minna að gera í náinni framtíð en hann hefir haft undanfarið. Ennfremur er eins ástatt um aðstoðarmann húsameistara, sem búast má við, að taki laun framvegis og líklegt er, að hafi lítið að gera. Má því ætla, að hægt verði að halda verki þessu eitthvað áfram, þó að ekki sje veitt fje til þess sjerstaklega í fjárlögum.

Þar fyrir utan lítur nefndin svo á, að þetta sje ekki svo bráðnauðsynlegt verk, að ekki megi bíða eitt ár eða svo.

Hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) gat um styrkinn til Árna Theódórs og breytingu þá, sem hv. Ed. hafði gert á honum. Jeg hefi áður tekið fram, að nefndin hefir óbundin atkvæði í þessu máli, og þarf því ekki að fara frekar út í þá sálma.

Hv. 2. þm. Rang. (KlJ) hneykslaðist á því, að jeg hafði kastað því fram, að svo liti út, sem eitthvað af skuldum ríkissjóðs hefði týnst. Sagði hann, að enginn hefði leyft sjer að bera brigður á það, að ríkisbókhaldið væri í lagi. Nú hefi hann nýlega átt orðastað um þetta atriði við hæstv. fjrh., og virtist mjer þá, sem hann vildi kenna ríkisbókhaldinu um það, að hann hefði ekki vitað nákvæmlega um skuldir ríkissjóðs á meðan hann var fjrh. Enda er það ljóst, að í einhverju hefir bókhaldinu yfirsjest, þar sem þingið hefir nú í fjárlagafrv. hækkað vexti af innlendum lánum um 216 þús. kr. frá því, sem upphaflega var gert ráð fyrir í stjórnarfrv. því, sem hann sjálfur lagði fyrir þingið. Það sýnist ekki vera fullkomið ríkisbókhald, ef ráðherra á annað borð leitar til þess, sem getur ekki farið nær hinu rjetta um skuldir ríkissjóðs en svo, að á þriðja hundrað þús. kr. muni í vöxtunum einum.

Sami hv. þm. mintist á styrkinn til Guðmundar læknis Guðfinnssonar. Jeg get látið þess getið f. h. nefndarinnar, að meiri hl. hennar vildi fella þennan styrk niður, en minni hl. ekki, vegna þess, hversu sjerstök þörf er á því að fá hingað annan augnlækni til, og svo vegna hins, að nýir erfiðleikar hafa bæst við síðan Guðmundur byrjaði sjerfræðinám sitt.

Þá mintist hv. þm. og á bifreiðastyrkinn og skipulagsuppdrættina, og var hann það sanngjarnari en hæstv. atvrh., að hann sagði, að þeir þyldu bið 1–2 ár enn. Er áreiðanlega hægt að taka þau ummæli til greina.

Hv. 2. þm. Árn. (JörB) talaði líka um bifreiðastyrkinn og vildi halda honum í því formi, sem hv. Ed. hafði samþykt, sem eðlilegt er, þar sem það er einkum kjördæmi hans, sem nýtur styrks þessa. Nefndin er nú samt þeirrar skoðunar, að hann sje fullhár eins og hann er nú í frv., og liggja til þess ástæður, sem jeg hefi talað um áður.

Þá kem jeg að hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Hann talaði fyrst um stimpilgjaldið, og þótti honum of vægt í sakirnar farið að áætla ekki hækkun þess nema 300 þús. kr. vegna verðtollsins. Jeg held, að hann hafi ekki rannsakað mál þetta nógu rækilega. Hæstv. fjrh., sem hefir kynt sjer málið betur en aðrir eiga tök á, hefir látið uppi það álit, að hv. Ed. hafi áætlað þessar tekjur fullhátt, og hefir hann getið þess við fjvn., að nóg myndi að áætla þær ekki nema 200 þús. kr., vegna þess, að innflutningsbann yrði á mörgum þeim vörutegundum, sem tollurinn næði til. Jeg veit ekki, hvort hv. 1. þm. S.-M. vill ætlast til þess, að ekkert innflutningsbann verði notað; en ef svo er, þá væri rjettara að áætla verðtollinn hærri.

Hv. þm. sagði, að fjhn., sem bar verðtollsfrv. fram, hafi áætlað tekjur af því 2 milj. kr. Þetta mun ekki vera rjett. Að minsta kosti minnist jeg þess ekki, að hafa heyrt gert ráð fyrir meiri tekjuauka vegna tolls þessa en 1½ milj. kr., eins og það var upphaflega úr garði gert frá hendi háttv. fjhn. En þegar þess er nú gætt, að innflutningur verður mikið takmarkaður og að enginn veit, hversu tollurinn sjálfur dregur mikið úr innflutningi, og enn það, að í meðförum þingsins á frv. fjell mikið undan verðtollinum af því, sem fjhn. ætlaðist í fyrstu til, þá er ekkert spursmál, að áætla verður tekjur þær, sem hann gefur ríkissjóði, mjög gætilega. Og þó nú að þessi liður yrði færður upp um segjum 100 þús. kr., þá er ekkert unnið við það í sjálfu sjer; síður en svo. Það yrði aðeins til þess, að nýjar útgjaldatill. kæmu fram undir umr., sem þá næðu ef til vill frekar samþykki. Frá þeirri hlið sjeð væri kannske mjög athugavert að hækka þessa tekjuáætlun, en það kemur reyndar ekki til greina hjer, því að upphæðin er nægilega há eins og hún nú er.

Þá mintist hv. þm. á till. þá, sem hann hefir steypt saman við till. hv. þm. Mýra. (PÞ) á þskj. 467. Hann hefir gefið hjer saman tvenn hjón, og það sýnir strax, að fljótlega vill bætast við slíkar styrkveitingar, eins og nefndin bjóst við, þegar hún leggur til, að styrkur til hjónanna í Hítardal verði feldur niður. En hv. þm. Mýra. fór reyndar strax fram á hjónaskilnað og vill alls ekki láta sín hjón, Hítardalshjónin, vera í neinu samfjelagi við hjón hv. 1. þm. S.-M. Skildist mjer, að hann vildi meina, að sín hjón hefðu miklu meiri þörf fyrir slíkan styrk heldur en hjón hv. 1. þm. S.-M. Það er nú svo. En þó er því ekki að leyna, að fleiri eru krakkarnir, sem hjón hv. 1. þm. S.-M. eiga. En nú er spurningin: Hvorum þessara þm. á að trúa, þegar þeir togast þannig á? Hv. 1. þm. S.-M. sagði, að óvíða á landinu væru hjón, sem ættu fleiri börn en þau, sem hann sækir nú um styrk fyrir. Það má vel vera, En hjón með 10 börn eru mjög víða um alt land, sem betur fer. Mun óhætt að fullyrða, að í hverri sveit sjeu dæmi slíks, t. d. veit jeg þess þrjú dæmi í mínum hreppi. Ef því gengið verður inn á þessa braut, sem hv. Ed. hefir gert, þá verður straumurinn óstöðvandi og erfitt mun þinginu reynast að gera upp á milli þeirra styrkbeiðna, sem munu berast því svipaðar þessum. Nei, það eru sveitarfjelögin og hjeruðin, sem hjer eiga að hlaupa undir bagga — þó ekki með sveitarstyrk — en ríkissjóð á að láta þar fyrir utan.

Hæstv. forsrh. mintist á ýmsa liði, en þar sem hann er nú ekki viðstaddur, þá get jeg leitt hjá mjer að tala um þá, með því líka að jeg hefi minst á þá áður. Hann drap á fangahúsin, stúdentastyrkinn, tímakenslu mentaskólans o. s. frv. Hafði hann lítið við það að athuga, þó að fjárveitingin til tímakenslunnar yrði lækkuð dálítið, og er það í samræmi við það, sem jeg hefi áður haldið fram.

Að því er snertir styrkinn til útgáfu veraldarsögunnar, þá hefi jeg áður getið þess, að nefndin er þeirrar skoðunar, að slá megi því verki á frest. Mun vera hægt að komast af án þess fyrst um sinn, eins og hingað til, og enda er ekki ólíklegt, að dráttur á þessu geti orðið til þess, að ríkissjóði verði útgáfan ódýrari síðar.

Hann mintist á styrkinn til leikfimiskenslu og kvað illa farið, að hann væri feldur niður. Það gerði nefndin aðallega af því, að engar skýrslur um kensluna hafa verið lagðar fyrir þingið; það þótti nefndinni óviðfeldið, og einnig leit hún svo á, að hjer væri ekki um svo brýna nauðsyn að ræða, að ekki mætti fella styrkinn niður.

Jeg held það sje ekki fleira, sem jeg þarf að minnast á, og vænti þess, að jeg þurfi ekki að segja neitt frekara, því þó hv. þm. Dala. segi sitt af hverju, tek jeg það vel upp fyrir honum eins og oft áður.

Þó eru nokkrir punktar, sem jeg verð lítillega að minnast á. Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) mintist á styrkinn til Skúla Guðjónssonar læknis. Jeg verð að segja, að nefndin lagði á móti þeim styrk. Hv. þm. gat þess, að brýn nauðsyn bæri til að styrkja hann, svo að hann gæti fullnumað sig í þessum fræðum; ennfremur sagði hv. þm., að hjer væru bygð hús án alls heilbrigðiseftirlits. (JakM: Þetta er ekki rjett). Jeg hefi þetta skrifað hjá mjer. Jeg veit, að hann ætlast til, að þau yrðu fullkomnari, en jeg held að engin umkvörtun hafi komið um, að því sje ábótavant. Annars ætla jeg ekki að mæla sjerstaklega á móti till., en læt hv. deild alveg ráða.

Blaðamannafjelagið hefir nefndin áður átt till. um, svo jeg þarf ekki að lýsa afstöðu hennar nú.

Þá mintist hv. þm. lauslega á landlækni og ljósmæðraskólann. Jeg get sagt honum, að jeg hefi altaf verið með þeirri styrkhækkun. Hvað snertir hjeraðslækninn, held jeg að ekki verði hjá því komist að greiða þessa upphæð, að samningarnir sjeu þannig úr garði gerðir, að hann eigi heimtingu á henni. Enda álít jeg, að meta megi störf þessa hjeraðslæknis til jafns við störf prófessora við háskólann. Öðru því, sem hv. þm. mintist á, hefi jeg áður svarað.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) á brtt., og bera þær vott um fínan stjórnmálamann. Hann hefir hækkað einn tekjulið á móti fjárveitingunni, sem hann leggur til. Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir talað um þessa liði; finn jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um þá. Nefndin lítur svo á, að það sje óhugsandi að framkvæma það, sem hann leggur til. Það er ilt til þess að vita, að í Reykjavík skuli safnast saman svo mikill fjöldi manna til að ganga hjer atvinnulausir mestan hluta ársins. Þetta leiðir til þess, að öll verkalaun hljóta að hækka meira en heilbrigt er. Framleiðslan úti um land getur alls ekki borið sig með því kaupgjaldi. Með þessari gífurlegu fólkssöfnun á einn stað er verið að raska okkar þjóðskipulagi. Jeg hygg, að þetta ólag eigi sinn sterka þátt í að halda peningum okkar niðri. Fyr en þetta lagast geta menn ekki búist við, að krónan hækki að ráði. Ef ríkissjóður færi nú að veita sjerstakt fje í atvinnubótaskyni, finst mjer skörin færast upp í bekkinn. Jeg held, að taka verði til einhverra annara ráða. Úti um landið verða menn að fresta nauðsynlegum framkvæmdum af því að vinnukraftinn vantar. En hjer situr fjöldi manns með höndur í vösum; ómögulegt er að nudda þessu fólki burt úr Reykjavík, fá það í vinnu út um land með þeim kjörum, sem þar er hægt að bjóða.

Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) mintist á Ólaf Hvanndal. Hann er talsvert iðinn við till. sína. Nefndin leggur enn á móti henni, eftir fengnar upplýsingar frá sama stað og áður. Þetta er tiltölulega lítill styrkur og gæti ekki bjargað manninum, ef því væri að skifta. Álít jeg það mest fyrirtekt af hv. þm. að halda þessu áfram meðan nokkur kostur er á að koma með brtt.

Hv. þm. Mýra. (PÞ) var eini maðurinn, sem hældi nefndinni töluvert, — en hann tók það líka alt saman aftur. Hann sagði meðal annars, að hún gengi á örvasa gamalmennum og ómálga börnum. Betra hefði það verið minna og jafnara hjá hv. þm. Þetta kannast jeg alls ekki við fyrir nefndarinnar hönd. Í stað þess að koma með sannanir neinstaðar frá, fór hann með miklum krafti að ákveða hjónaskilnað frá hv. 1. þm. S.-M., af því hann einn hefði rjett til þessa styrks. Jeg ræð hv. þm. til að snúa sjer til hlutaðeigandi sveitarfjelags, en lofa ríkissjóði að eiga sig. Þar á það best við. Með þessu vill nefndin ekki segja, að það sje ekki mannúðarverk að hjálpa þessu fólki, heldur hitt, að það sje ekki rjett eða gerlegt að skella þessu á ríkissjóð.

Þá vil jeg lofa hv. þm. Dala. að skamma mig talsvert án þess jeg búist við að svara honum frekar.