02.05.1924
Neðri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í D-deild Alþingistíðinda. (3003)

135. mál, rýmkun landhelginnar

Flm. (Pjetur Ottesen):

Það er í sjálfu sjer óþarfi að fara nú mörgum orðum um þessa tillögu eða nauðsynina á því að fá einhverju þokað til um rýmkun landhelginnar, og það því síður, þar sem fyrir þinginu 1919 lá samskonar tillaga og var samþykt þá. En kröfurnar um, að eitthvað verði aðhafst í þessu efni, verða háværari og háværari ár frá ári og þörfin vitanlega því meiri sem lengri tími líður og aðsókn botnvörpunga á fiskimiðin hjer vex og margfaldast. En það er staðreynd, að botnvörpuveiðarnar aukast árlega hjer við land, bæði af því, að sú útgerð vex, og svo af hinu, að fiskisæl svæði, t. d. í Norðursjónum, eru nú í þann veginn að verða gersamlega uppurin og fiskilaus, og af þeim ástæðum vex einnig sífelt fjöldi þeirra botnvörpunga, sem hingað sækja.

Það er því ekki annað fyrirsjáanlegt en að yfir okkur vofi sama hættan, sem gert hefir vart við sig sumstaðar annarsstaðar, þar sem örtröðin hefir verið mest af botnvörpuveiðum, sem sje gersamleg eyðilegging og uppræting fiskjarins. Orsökin til þessa er auðsæ. Því er nefnilega þannig varið um botnvörpuveiðarnar, að þar er engu kviku þyrmt, sem verður fyrir botnvörpukjaftinum; ungviðið er dregið upp jöfnum höndum með nytjafiskinum, og ekki nóg með það, heldur rótar varpan upp og eyðileggur sævargróðurinn á hrygningarstöðvunum.

Þetta er því hættulegra hjer sem botnvörpungarnir munu nú þegar vera búnir að finna nálega öll fiskigrunnin, alla hrygningarstaði, sem til eru hjer við land, og leggja þá undir sig.

Þó að enn sem komið er sje kanske ekki beinlínis hægt að segja eða benda á það, að bein fiskiþurð sje farin að lýsa sjer hjer við land, — á annan hátt en þann, að síðan botnvörpuveiðarnar komust í algleyming aftur, hefir fiskurinn að mestu hætt að ganga á grunnmiðin, — þá er það augljóst, að þegar svo er komið, að fiskurinn á sjer hvergi griðastað fyrir botnvörpuveiðum, og ungviðið ekki heldur, þá hlýtur fiskimergðin að minka og aflabrögðin ganga úr sjer. Það blasir því ekki annað við en bein eyðilegging á fiskiveiðunum í framtíðinni. Það er djúpur brunnur, sem ekki verður uppausinn, og þó að fiskimiðin hjer við land sjeu víðáttumikil og fiskisæl, þá eru engar líkur fyrir því, að þau standist slíkar aðfarir, þegar veiðarfærum er svo háttað sem nú, að öllu ungviði er tortímt jafnframt þeim fiski, sem gagn er að, nema eitthvað sjerstakt sje gert, og þá í tíma, til þess að koma í veg fyrir þetta.

Og ráðið gegn þessari hættu blasir náttúrlega beint við, það að fá stærri svæði friðuð fyrir þessari veiðiaðferð, og þá náttúrlega helst þau svæðin, sem næst liggja landhelgislínunni, sem nú er, svo að þar geti farið saman friðun ungviðisins og friðun fyrir veiðar á smærri báta, sem uppfæðingnum eru óskaðvænar. En þetta hvorttveggja ynnist, ef firðir og flóar fengjust friðaðir.

Hitt liggur náttúrlega enn fjær, að hugsa til að fá friðuð fiskigrunn utan fjarða og flóa, sem t. d. mótorbátar sækja á, þó að á það sje drepið í tillögunni, enda væri hitt svo mikill vinningur, að fá þó firði og flóa friðaða, að vel mætti við það una, í bráð að minsta kosti.

Því er náttúrlega ekki að neita, að innan landhelginnar, eins og hún er ákveðin nú, eru víða góð fiskimið og hrygningarstaðir, og væri hún vel varin, er það auðvitað allmikil vernd fyrir ungviði fiskjarins og smábátaveiðamar á sömu slóðum. En aftur annarsstaðar, þar sem bátaútvegur var hvað mestur og í mestum blóma, eins og t. d. hjer við innanverðan Faxaflóa, og sennilega víðar, eru aðalfiskimiðin utan landhelginnar. Svo er t. d. um Sviðið, sem mestur aflinn var sóttur á úr veiðistöðvunum hjer við innanverðan flóann: Akranesi, Reykjavík, Seltjarnarnesi, Álftanesi, Hafnarfirði og Vatnsleysuströnd. Svona er þessu auðvitað víðar háttað.

Þó að svo væri nú, að þetta mjóa landhelgissvæði væri sæmilega varið, er engin von til, að það veitti uppfæðingnum í framtíðinni þá vernd, sem nauðsynleg er til þess að fiskimergðin gangi ekki samt sem áður til þurðar, þegar hvergi er annarsstaðar griða að leita. En þegar þar við bætist, hvernig landhelgisgæslunni nú er háttað hjá okkur, sumpart kanske af getuskorti, en meir af áhugaleysi og skilningsleysi á þýðingu hennar og ósamkomulagi um að neyta þeirra ráða, sem að stóru gagni mættu verða, án fjárframlaga, þá getur það ekki dulist neinum, að útfærsla landhelginnar er beinlínis lífsspursmál fyrir land og þjóð.

Hitt er auðsætt, að fengist landhelginni breytt, þannig, að firðir og flóar yrðu friðaðir, þá mundi það um leið gera eftirlitið auðveldara á ýmsum þeim stöðvum, þar sem mest hætta stafar af botnvörpuveiðum, svo sem inni á fjörðum og flóum. Ef nú tækist að fá samninga um það, við þær erlendar þjóðir, sem hlut eiga að máli ,að landhelgislínan verði færð út svo sem hjer er farið fram á, þá ætti það þar með að vera trygt, sem tekið er fram í greinargerðinni fyrir þessari tillögu. Í fyrsta lagi, að sá útvegurinn, sem landsmönnum er notadrýgstur, bátaútvegurinn, verði fullkomlega trygður, og í öðru lagi mundi takast að stemma stigu fyrir fyrirsjáanlegri eyðileggingu ungfiskjarins, og þar með yfirleitt allra fiskiveiða.

Jeg þarf ekki að rökstyðja það, að þessu sje þannig varið hvað smábátana snertir, ef smábátarnir á annað borð ættu sjer einhvern griðastað. Það er alkunna, að sá útvegur er notadrýgstur, bæði af því, að útgerðarkostnaðurinn er þar svo lítill í hlutfalli við aflann, og svo af hinu, að þar kemur allur aflinn að notum, ekki einasta bolurinn og lifrin, sem eitt er hirt á botnvörpungum og mótorbátum, heldur alt ruslið af fiskinum, þar með innyfli og slor, hvað þá heldur annað, og túnræktin og garðræktin við sjávarsíðuna byggist víða einmitt á þessu, og er það mjög mikilsvert atriði.

Hvað rýmkunina annars snertir, þá erum við þar ekki einráðir um, heldur eigum við þar undir högg að sækja við aðrar þjóðir, þar á meðal einna mesta stórveldi álfunnar.

Jeg gat um það í upphafi ræðu minnar, að nú væri svo komið, að stór svæði í Norðursjónum, sem áður voru mjög fiskisæl, væru nú orðin að mestu eða öllu leyti uppurin. En þessi fiskimið eru mest notuð af Englendingum, enda eiga þeir styst á þau, og er nú, að því er sjeð verður í enskum blöðum, allsterk hreyfing þar í landi um að leita samkomulags við þær þjóðir, er standa að samningum um landhelgina, í þá átt að fá þessi svæði í Norðursjónum friðuð, og auk þess vilja þeir fá samskonar samþykt þessara aðilja til friðunar á stórum flóa (Moray-flóanum), sem þeir um nokkur ár hafa friðað fyrir botnvörpu veiðum sinna eigin landsmanna. Vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp kafla, sem þýddur hefir verið úr ensku blaði um þetta mál. Hann hljóðar svo:

„Í skýrslu hinnar skosku nefndar, sem stjórnin skipaði til að rannsaka botnvörpuveiðar og löggæslu við Skotland, eru gerðar tillögur um verndun skoskrar fiskiframleiðslu gegn samkepni útlendinga.

Eins og nú er ástatt, mega útlendingar reka fiskiveiðar í Moray-firði, en Bretar eru þar útilokaðir. Virðist og þetta ástand (segir nefndin) vera mjög óheppilegt, hvernig sem á það er litið frá bresku sjónarmiði, og mikil nauðsyn á, að það sje hið bráðasta lagfært.

Vonum vjer fastlega, að unnið verði að því af alefli að fá alþjóðasamþykki til lokunar fjarðarins, samhliða lokun þess svæðis í suðurhluta Norðursjávarins, sem alþjóðanefnd hafrannsóknarmanna hefir lagt til að friðað yrði fyrir botnvörpungum“. Það sjest á þessu, að leiðangur hefir verið gerður út til þess að rannsaka þær skemdir, sem orðið hafa þar á fiskimiðunum, og hefir niðurstaða hans orðið sú, að nauðsyn bæri til að friða svæðið, ef fiskiveiðar þar eiga ekki alveg að falla úr sögunni.

En þar sem Englendingar finna svo til nauðsynjanna á þessu hjá sjer, þá er varla hugsanlegt, að þeir myndu ekki viðurkenna samskonar nauðsyn hjá öðrum. Má það vera okkur gleðiefni, að Englendingar hafa rumskað í þessu máli, og það því fremur sem þeir geta að sjálfsögðu ráðið miklu um þetta. Það má því engan veginn láta það hjá líða, að kröfum okkar í þessu máli verði komið á framfæri og þeim haldið fram með þeirri festu og alvöru, sem slíku nauðsynjamáli sæmir. Treysti jeg hæstv. stjórn til að gera alt, sem í hennar valdi stendur, til að vinna málinu það gagn, sem hægt er.