02.05.1924
Neðri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (3004)

135. mál, rýmkun landhelginnar

Forsætisráðherra (JM):

Jeg var ekki viðstaddur, þegar hv. þm. Borgf. (PO) hóf mál sitt. Jeg býst við, að hann hafi getið þess, að þetta er ekki nýtt mál, því eins og hv. deild mun kunnugt, hefir það alloft komið til umræðu að fá landhelgina færða út, og þá einkum svo, að Faxaflói yrði friðað svæði. Og þegar ensk flotadeid kom hingað fyrir nokkuð mörgum árum, þá var máli þessu alvarlega hreyft. En það má segja, að útlitið er ekki glæsilegt í þessu efni, þar sem Englendingar sjálfir hafa ekki ennþá fengið Moray-fjörðinn friðaðan. Þegar íslenska stjórnin ljet hreyfa þessu máli í London fyrir skömmu, leit svo út sem áhuginn fyrir rýmkun landhelginnar væri nokkur sumstaðar erlendis, en fjelli svo niður um stund. Nú virðist aftur vera að lifna yfir þessari hreyfingu, en fyr en sú hreyfing er orðin sterk, eru lítil líkindi til að fá nokkru um þokað hjá oss. Að sjálfsögðu mun stjórnin ekki láta neins ófreistað, sem til góðs getur leitt fyrir þetta nauðsynjamál. Hvern veg það fer, er auðvitað mest komið undir þeim stóru þjóðum, sem fiskiveiðar reka á djúpmiðunum.

Fleira held jeg ekki að nauðsynlegt sje að taka fram að þessu sinni. En eins og jeg hefi þegar minst á, þá mun stjórnin að sjálfsögðu taka till. þessa til athugunar.