02.05.1924
Neðri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í D-deild Alþingistíðinda. (3005)

135. mál, rýmkun landhelginnar

Bjarni Jónsson:

Jeg er þakklátur hv. flm. þessarar till. (PO) fyrir að hafa komið fram með hana. Er jeg þeirrar skoðunar, að rýmkun landhelginnar sje þjóð vorri mikið nauðsynjamál og meira nauðsynjamál heldur en nokkrar strandvarnir. Hvernig þetta mál verði best til lykta leitt, skal jeg ekki segja neitt um, en þess minnist jeg og vil á það benda, að Norðmenn munu í sumum tilfellum hafa sjálfir fært út landhelgi sína. Jeg veit ekki, hvort hjer hefir leitað verið alþjóðasamþyktar, en hitt veit jeg, að þeir hafa framkvæmt lög þessi eftir eigin geðþótta. Jeg býst við því, að enn sje vakandi á Englandi áhugi á því að friða slíka flóa, ekki síst þann, sem þeir hafa friðað fyrir sínum eigin mönnum, en enn er opinn fyrir útlendingum. Má vænta þess, að að því komi, að þær raddir, er friðunina heimta, verði svo háværar, að tækifæri verði fyrir Íslendinga að bera fram sínar kröfur um jafnrjetti og frið fyrir sína firði og flóa. En hjer vildi jeg fara hóti lengra. Jeg sje ekkert móti því, að hæstv. stjórn snúi sjer til þeirra þjóða, sem áhuga hafa á slíkum málum, og reyni að hrinda af stað hreyfingu í þessa átt. Það gæti vel tekist. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. En nú hefir þingið gengið svo frá málum, að þjóðin hefir bæði kunna og duglega sendiherra utanlands til þess að reka erindi sín. Stjórnin getur t. d. sent sendiherra vorn í Kaupmannahöfn hvert sem hún vill. Hann er útbúinn með þeim brjefum og skjölum, sem slíkum mönnum byrjar að hafa, og getur, samkvæmt almennum venjum hvar sem er, krafist þess að tala við utanríkisráðherra og annað stórmenni. Og þar sem menn hafa slíkan áhuga á því að hafa góðan og reyndan sendiherra, þá er þetta engin ofætlun hæstv. stjórn. En verði sú stefna ofan á hjer í landi að hafa engan sendiherra í útlöndum, sem ótrúlegt er, þá getur stjórnin sent nefnd í þessum erindum hjeðan. Það er ekki ónýtt að senda nefnd manna, sem kæmi líklega að máli við 1. dyravörð og segði við hann: Við erum, trúi jeg, komnir til þess að færa út landhelgina. Rjett er nú það, segir 1. dyravörður. En hvar eru gögnin, gæska? Þá dregur nefndin Tímann upp úr vasanum og segir: Sjá, hjer eru þau. Það mun reynast betra en ekkert að hafa ótímann í vasanum. Jú, málið kæmist til 1. dyravarðar stjórnaraðsetursins, en ekki heldur lengra, með þessu mótinu. Það er rjett að benda á þetta, þegar um það er að ræða að koma sínum málum fram erlendis. Það er rjett, að menn sjái, hversu laglega hjer hefir verið að farið hvað snertir utanríkismál okkar, sjerstaklega í þessari þingdeild.