02.05.1924
Neðri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í D-deild Alþingistíðinda. (3006)

135. mál, rýmkun landhelginnar

Hákon Kristófersson:

Jeg get tekið undir með hæstv. forsrh. (JM) og hv. þm. Dala. (BJ) um þetta mál, og bið jeg þá að hafa bestu þakkir fyrir sínar tillögur. Mjer skildist á hæstv. forsrh., að komið hefði til mála einhverntíma að fá einn flóa friðaðan sjerstaklega. En mig furðar á því, ef svo er ástatt, að þá skuli ekki vera nefndur nema einn flói, Faxaflói. Þá þykir mjer hreppapólitíkin vera farin að hafa nokkuð mikið um sig í velferðarmálum þjóðarinnar, er menn gerast svo einsýnir. Annars verð jeg að telja það til mikilla bóta, ef landhelgin yrði miðuð frá nesi til ness, eins og sagt er að tíðkist í Noregi. Og jeg legg áherslu á það, að um leið og jeg vænti þess, að hæstv. stjórn ljái þessu máli alt sitt fylgi, þá vona jeg, að hún sjái sjer mögulegt að fá, ekki aðeins Faxaflóa friðaðan, heldur líka Breiðafjörð og alla aðra firði, sem fiskisælir eru, fyrir yfirgangi útlendra og innlendra veiðiræningja. Þessu máli hefir verið hreyft áður, og má vera, að hæstv. stjórn geti nú eitthvað gert í því til framkvæmda. En til þess að koma í veg fyrir misskilning, tek jeg það fram, að jeg er ekki með þessu að hallmæla fyrv. stjórn. Í þessu máli er við svo ramman reip að draga, að þess er ekki að vænta, að laust liggi fyrir.