02.05.1924
Neðri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (3008)

135. mál, rýmkun landhelginnar

Ásgeir Ásgeirsson:

Hjer var drepið nýlega frv. um að auka refsing innlendra skipstjóra, sem gerðust brotlegir við landhelgislögin, enda ekki á valdi þingsins að láta refsiákvæðin ná til þegna annara ríkja. Frv. þetta var af ýmsum hv. þdm. talið hið mesta hneyksli. En nú koma hjer upplýsingar um það, að Englendingar hafi gert allt aðra skipun á um veiðar innlendra og útlendra manna á flóa einum hjá sjer. Af því að ekki er lengra um liðið, þá vil jeg benda á það, að frv. það, sem hjer var felt, er þannig alls ekki einsdæmi. En þó nú hv. deild feldi þá ódýru strandvörn, sem í því frv. fólst, þá er engu að síður sjálfsagt, að hún samþykki þessa till., sem er mjög æskileg, þótt ekki sje líklegt, að hún leiði til bóta í næstu framtíð, úr því sjálfir Englendingar hafa ekki til þessa getað friðað fyrir sínum ströndum. Vonir okkar hljóta að byggjast á því, að hægt verði að nota þá hreyfingu, sem komin er á þetta mál meðal stórþjóðanna, og sigla í þeirra kjölfar. En sjálfsagt er að reyna að vinna að þessu nauðsynjamáli, og byrja á því strax, því ekki fellur eik við fyrsta högg. Við höfum fengið að reyna það í dag í tollmálinu norska, að ekki er að vita, hvenær undan er látið.