10.04.1924
Neðri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í D-deild Alþingistíðinda. (3019)

128. mál, yfirskoðunarmenn landsreikningsins

Þórarinn Jónsson:

Mjer er kunnugt um, að mikið var keypt inn af þessu danska „kreolini“, sem átti að vera ugglaust baðlyf og gert undir opinberu eftirliti, en jeg veit ekki til þess, að mikið hafi verið sent af því út um landið og yfirleitt mjög lítið notað, en hitt veit víst enginn, hvað af því öllu muni nú orðið. Það munu hafa verið þessi lyf, sem háttv. 2. þm. Árn. (JörB) átti við. Að þetta var eigi notað meira og ekki heldur sent út um landið, hefir víst komið af því, að lyfin reyndust illa til sauðfjárböðunar. Jeg hjelt því, að birgðirnar mundu geymdar einhversstaðar hjer syðra, og þá helst, að þær hefðu verið afhentar landsversluninni til þess að koma þeim í peninga, en svo er nú alls ekki, það veit jeg nú. Landsverslunin selur aðeins baðlyf frá h/f „Hreini“. Það er því alleinkennilegt, ef enginn veit, hvað orðið er af þessum lyfjum, en það mun vera tvímælalaust, að stórfje liggur í þeim, hvar sem þau eru niður komin. Jeg hefi aldrei orðið þess var, að baðlyf hafi skemst í geymslu úti um land; þeirra hefir yfirleitt verið vel gætt. Þess vegna hygg jeg, að það sje full ástæða til að skjóta því til stjórnarinnar að grafast eftir, hvað af þessum baðlyfjum hefir orðið, og jafnframt að gefa út greinilegar notkunarreglur um þau, og munu þau þá vel hæf til notkunar.