30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

1. mál, fjárlög 1925

Tryggvi Þórhallason:

Það voru aðeins örfá orð um nokkrar till.

Jeg er einn af þeim hamingjusömu eða óhamingjusömu mönnum, sem eiga sæti í fjvn., og er jeg mjög ánægður með að eigi hlut í þeirri óþökk, er nefndin hefir hlotið fyrir starf sitt hjá hv. þm. Dala. (BJ). Hann átaldi mig fyrir það í gær, að jeg brosti, en þó sat jeg á mjer að brosa í lengstu lög. Annars finst mjer eina rjetta svarið við ræðum hv. þm. sje að brosa að þeim. Og yfirleitt finst mjer þessi innreið hans í þingið nú mjög brosleg.

Jeg vildi aðeins víkja að örfáum till. Skal jeg þá fyrst minnast á stúdentastyrkinn. Er till. fjvn. um hann tilraun til þess að fá sáttmálasjóðinn til þess að leggja fram fje í þessu skyni. Það var fyrir 2 dögum haldinn fundur hjer í bænum um þetta mál, og lýsti þá einn af prófessorum háskólans yfir því, að hann ætlaði sjer að fá styrk úr sáttmálasjóðnum til þess að gefa út bók um axarsköft þingsins. En jeg get ekki neitað því, að mjer finst þarfara að styrkja stúdenta en að eyða fje í útgáfu slíkra bóka. Jeg vil beina því að hæstv. landsstjórn, að hún gangist fyrir því með oddi og egg, að háskólaráðið leggi fram af sáttmálasjóði helming á móts við landssjóð til styrktar stúdentum.

Styrkur sá, 4 þús. kr., er fjvn. þessarar hv. deildar lagði til, að yrðu veittar til frjettastofu blaðamanna, hefir í hv. Ed. verið lækkaður niður í 2 þús. kr. En það er ómögulegt fyrir frjettastofuna að komast af með svo lítinn styrk. Því hefir hv. 3. þm. Reykv. (JakM) borið fram till. um að laga þetta aftur, og styð jeg þá till. Þetta er þörf starfsemi, sem hefir þýðingu, ekki eingöngu fyrir blaðamenn, heldur og allan almenning, og fje það, sem landssjóður veitir fyrirtækinu, kemur til hans aftur, því það mun mest alt fara í símskeytakostnað. Önnur till. var á ferðinni hjer á dögunum, þáltill. frá 3. þm. Reykv. (JakM) og hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), um það að skora á landsstjórnina að semja við próf. Sigurð Nordal um að vera kyr við háskólann. Þessi þáltill. var samþykt hjer í hv. deild við fyrri umr., en hæstv. fjrh. (JÞ) hefir ekki álitið sjer skylt að greiða fje eftir þál., og því hefir það ráð verið tekið að setja í fjárlögin upphæð í þessu skyni. Var það samþykt í hv. Ed. Nú bera hv. þm. N.-M. (ÁJ og HSt) fram brtt. um það, að liðurinn falli burt. Jeg skal ekki fara mörgum orðum um þessa till. Um mál þetta var mikið rætt í hv. Ed. Aðeins vil jeg víkja að höfuðatriðunum í ræðu hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ). Kvað hann það stinga í stúf að veita fjárveitingu í þessu skyni, þegar reynt væri að spara á öllum öðrum liðum. Jeg játa fullkomlega, að það er rjett, að þetta stingur í stúf. En jeg vil halda því fram, að það sje engu að síður rjettmætt, að í þessu efni stingi í stúf, því að í þúsund ár Íslandsbygðar hefir það stungið í stúf, hve mikla rækt Íslendingar hafa lagt við þjóðleg fræði, og það er mesta hrósunarefni Íslendinga til þessa. Allan þennan tíma hefir þjóðin lagt alveg sjerstaka rækt við þjóðlegar fræðiiðkanir, og er þetta því eðlilegt og sjálfsagt framhald af fortíð okkar. Jeg hefi ekki hlífst við að skera niður á öðrum sviðum á þessu þingi, en þegar um þessi innlendu fræði er að ræða, sem við fyrst og fremst eigum að þakka sjálfstæði okkar, þá vil jeg ekki beita hnífnum. Þessi maður, sem hjer er um að ræða, er flestum öðrum betur fallinn til þess að veita mönnum hvatning í því að iðka íslensk fræði, og fyrir því megum við ekki með neinu móti missa hann. Það hefir verið gert á þessu þingi, sem jeg harma stórlega, að skera niður smáfjárveitingar, sem styrktu þjóðlegar fræðiiðkanir, t. d. styrk til Sögufjelagsins, til útgáfu Alþingisbóka, Fornbrjefasafnsins og Jarðabókar Árna Magnússonar. Hjer við bætist svo, að okkar aldursforseti í þeim fræðum, dr. Jón Þorkelsson, er nú dáinn. Það hefir því sneiðst ærið um á þessu sviði, þótt við hrekjum Sigurð Nordal nú ekki í burtu. — Það er því í rauninni harla lítil ástæða fyrir hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) að kvarta um, að hjer stingi í stúf, þótt við viljum halda þessum manni. Við eigum að meta íslenskar fræðiiðkanir meira en alt annað hjer á landi, og jafnvel á þeim tímum, sem við spörum alt, sem sparað verður, þá verðum við á því sviði að feta trúlega í fótspor feðranna.

Það var svo ein fyrirspurn, sem jeg vildi víkja til hæstv. stjórnar, og þá helst til hæstv. forsrh. (JM), sem að vísu er nú ekki við frekar en vant er, því þótt hann sje ekki sjerlega stefnufastur maður, þá hefir hann á þessu þingi sýnt frábæra stefnufestu í því að láta sem sjaldnast sjá sig í þessari hv. deild. — Jeg vænti þess þó, að hinir hæstv. ráðherrarnir beri honum ummæli mín. — Þessi fyrirspurn mín snertir frv., sem jeg bar fram í þessari hv. deild 22. febr. á þessu þingi, og var þess efnis að leggja niður sendiherrann í Kaupmannahöfn, en að ákveða skuli í fjárlögum hvers árs, hvort sendiherra skuli hafa. Það er nú rúmur mánuður síðan þetta frv. fór frá þessari hv. deild, og hefi jeg ekki sjeð neitt bóla á því síðan. Jeg hefi fengið grun um það, að það eigi að svæfa það í hv. Ed. Jeg verð að æskja yfirlýsingar hæstv. stjórnar um það, hvað hjer sje á seiði. Að minsta kosti mun hún geta sagt, hvort meiningin muni vera að svæfa málið. Er það meining hæstv. stjórnar að láta þetta fara fram hjá þinginu og veita svo fje til þessa utan fjárlaga? Jeg hefi talsverða löngun til að fá að vita þetta, og jeg hygg, að svo sje um fleiri, því jeg veit, að það er sterkur þingvilji með því, að fje verði ekki veitt til sendiherrans.

Skal jeg svo ekki teygja umr. frekar að þessu sinni.