15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í D-deild Alþingistíðinda. (3036)

125. mál, hressingarhæli fyrir berklaveika

Flm. (Magnús Jónsson):

Jeg býst við því, að þessi till. sje ekki svo flókin, að jeg þurfi langt mál henni til skýringar og fyrirgreiðslu. Kvenfjelagið „Hringurinn“ fer fram á að fá þjóðjörðina Kópavog til umráða, til þess að setja þar á stofn hressingarhæli fyrir berklaveikissjúklinga, sem ekki er þörf á sjúkrahælisvist. Þetta kvenfjelag hefir starfað í mörg ár, utan og innan Reykjavíkur, og lagt fram mikið fje til hjálpar berklaveiku fólki, sem ekki hefir getað verið í hæli, fyrir sakir fátæktar. Nú hefir fjelagið, eins og skýrt er frá í greinargerðinni, hugsað sjer að auka starfsemina með því að koma upp í Kópavogi hressingarhæli fyrir þá sjúklinga, sem orðnir eru svo hressir, að þeir þarfnast ekki vistar á Vífilsstöðum. En nauðsynlegt er að hafa hælið þar, sem hægt er að ná fljótlega í lækni, og þarna er það svo nærri Vífilsstöðum, að sjúklingarnir geta notið umsjár yfirlæknisins og annara lækna þar. Jörðin er fræg úr sögu vorri; hún er illfræg, þar sem einmitt í Kópavogi var þröngvað upp á oss einveldinu, og nærri lá, að Alþingi yrði flutt þangað, vegna þess, að höfuðsmennirnir nentu ekki að ríða austur yfir heiði, eða þótti það erfitt. Væri nú ekki nema vel til fallið að láta þessar illu endurminningar snúast upp í blessun fyrir marga bágstadda, og ættu sem flestir slíkir gamlir draugar frá niðurlægingartímum þjóðarinnar að verða endurbornir sem góðir fylgiandar. En þessi fræga jörð er frekar lítil og ljeleg og tekjur ríkissjóðs af henni ekki miklar. Þær munu vera um hálft annað hundrað krónur á ári. Segja mætti nú, að fjelagið munaði ekki mikið um að greiða þetta gjald. En jeg lít nú svo á, að eftirgjaldið sje aðeins lítið atriði í þessu máli. Einn hv. þm. stakk því að mjer, að í raun og veru væri sjálfsagt að gefa fjelaginu jörðina, ef það hjeldi þarna uppi hæli. En hvað sem því líður, er það smámál fyrir ríkissjóð, en stórmál fyrir þjóðina, að hælið komist á stofn. Skal jeg svo ekki eyða um þetta fleiri orðum.