15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (3037)

125. mál, hressingarhæli fyrir berklaveika

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg vil aðeins skýra frá því, að „Hringurinn“ sendi fjvn. Nd. erindi um þetta mál. En nefndin taldi það utan síns verkahrings. Þá skrifaði fjelagið stjórninni, og hún svaraði, að hún hefði ekkert vald til að ákveða um málið; til þess þyrfti samþykki þingsins. Af þessu er málið hingað komið. Annars er það að segja um þetta, að æfiábúð er á jörðinni, og þar fær hvorki þing nje stjórn um þokað. Tilætlun fjelagsins mun vera að reisa þarna lítið hæli í bráðina, með samkomulagi við ábúandann, og fá síðan jörðina, þegar hún losnar úr ábúð. Er jeg því fylgjandi, að landið verði við beiðninni. Hælið á fyrir sjer að vaxa og mundi spara landinu stórfje. Nú eru á Vífilsstöðum margir sjúklingar, sem í raun og veru þyrftu ekki vistina þar, ef til væri handa þeim svona hæli. Mundi það firra ríkissjóð ærnum útgjöldum, að svona hæli gæti tekið við sjúklingum, sem væri batnað svo, að þeir þörfnuðust ekki veru á Vífilsstöðum.

En jeg tel óvarlegt að takmarka ekki umráðarjett fjelagsins. Tel jeg rjettast að fá fjelaginu jörðina aðeins til afnota um ákveðið árabil, en þó alls ekki lengur en það rekur þarna hæli. Með þessu skilyrði vil jeg verða við beiðninni. Svo gæti farið, að jörðin kæmist í mikið verð, og því rjett að setja eitthvert tímatakmark. Ef fjelagið hefði að þeim tíma loknum komið þarna upp myndarhæli, mundi engri stjórn koma til hugar að vísa því burtu. En það væri hugsanlegt, að landið vildi hagnýta sjer jörðina, t. d. taka part af henni til ræktunar, og er þá rjett að binda ábúðina við ákveðinn tíma.