15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í D-deild Alþingistíðinda. (3039)

125. mál, hressingarhæli fyrir berklaveika

Flm. (Magnús Jónsson):

Jeg þakka hæstv. atvrh. (MG) og hv. þm. Str. (TrÞ) fyrir undirtektir þeirra. Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, skal jeg láta þess getið, að jeg er ekki svo fær til að dæma um það mál, að jeg geti nokkuð fullyrt. En nokkur skilyrði til ræktunar hafa mjer þó virst þarna. Býst annars við, að fjelagið sje ekki sjerlega ánægt með jörðina, en það mun hafa skoðað sig svo um, að það mun ekki telja á betra völ. Landið átti Arnarnes, en seldi það fyrir lítið verð, og er það illa farið, ef sú jörð hefði verið heppilegri til þessa. En þó að Kópavogur sje ef til vill ljeleg jörð, þá er henni ágætlega í sveit komið fyrir fjelagið til þessarar starfrækslu, og hugmyndin hjá því er ekki og getur ekki verið að reka þetta nema í smáum stíl, og má því með umbótum sjálfsagt gera jörðina hæfa til þess að bera það uppi.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. atvrh. (MG) sagði, vil jeg geta þess, að mjer þykir ólíklegt, að jörðin komist í mikið verð, síst ef hún er jafnrýr og sagt er. En hitt er auðvitað sjálfsagt, að fjelagið haldi ekki lengur jörðinni en það rekur þar hæli.

Um nauðsyn þessa máls held jeg að enginn þm. efist, og vona jeg því, að málið fái greiða afgreiðslu.