30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1073 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

1. mál, fjárlög 1925

Jón Baldvinsson:

Hæstv. fjrh. lagði á móti till. minni um að hækka stimpilgjaldið og kallaði það hreinustu ljettúð, ef hún yrði samþykt. Hann gerði þó ekki minstu tilraun til að hnekkja rökum mínum, enda hefði honum gengið það illa, því það er með öllu ómótmælanlegt, að hv fjhn. gerði ráð fyrir miklu meiri tekjum í nefndaráliti sínu heldur en áætlað er í frv. Þegar málið hefir nú skýrst við ýmsar yfirlýsingar hæstv. ráðherra, þá hlýtur að verða farið mjög vægt í að beita innflutningshöftum, og verður verðtollurinn við það hærri. Jeg er þess fullviss, að svo verði aldrei dregið úr innflutningnum, að verðtollurinn komi ekki til að nema 700–800 þús. kr. Það er að vísu oft svo, að þegar vörur hækka í verði, þá dregur úr kaupunum — en aðeins í bili. Þegar frá líður fara menn að venjast verðinu og byrja að kaupa aftur. Og þó að kaupþol almennings sje lítið, þá er jeg viss um, að þessar tekjur nást að minsta kosti. Frá þessu sjónarmiði er því ekkert að hafa á móti till. minni. Hitt er raunar satt, að það er engu tapað, þótt liðurinn sje ekki hækkaður, en þó mun það vera föst regla, sem ekki ætti helst að víkja frá, að reyna að hafa fjárhagsáætlanirnar sem næst sanni.

Þá mælti hæstv. fjrh. líka á móti till. minni um framlag til atvinnubóta. Kvað hann hart, ef slík till. yrði samþykt, eftir að skornar hefðu verið niður allar verklegar framkvæmdir af fjárlögunum. En það er einmitt verið að flytja þær hjer inn aftur, en bara í einu lagi. Stjórnin kæmi auðvitað til að ráða því, að hverju yrði helst starfað; hvort það yrði að Flóaáveitunni eða einhverju öðru, sem atvinnu veitir, er í till. ekki tekið fram; og nóg eru verkefnin fyrir hendi. Talað hefir verið um að reisa hjer landsspítala og einnig það að stækka geðveikrahælið á Kleppi. Yfirleitt er alstaðar nóg til að starfa og þetta er svo rúmt orðað, að það liggur algerlega í valdi stjórnarinnar, hvaða framkvæmdir hún velur.

Þá andmælti hæstv. fjrh. brtt. minni á þskj. 481 og taldi, að hjer væri aðeins að ræða um fjárhæð, þar sem Eimskipafjelagi Íslands væri endurgoldið skipagjald til ríkissjóðs. En þó svo sje, þá er það í því formi, að ætla má, að það komi ekki til útborgunar, ef menn vissu ekki, að hagur fjelagsins er erfiður. En jeg tel illa farið að veita Eimskipafjelagi Íslands styrk, sem líkist meira fátækrastyrk en nokkru öðru. Þá verð jeg að álíta, að betra sje að kaupa hluti í fjelaginu, sem þessari upphæð nemur, og sje það tekið fram, að brjefin borgist með nafnverði. Hæstv. fjrh. sagði, að styrkur þessi væri greiddur fjelaginu til þess að bæta því halla af strandferðum þeim, sem það hjeldi uppi. Það er rjett, að Eimskipafjelagið hefir verið mjög lipurt við landsmenn í því að senda skip sín á smáhafnir kringum land. En það var líka tilgangurinn með stofnun fjelagsins, að það bætti úr samgöngunum á þennan hátt. Nú hefir fjelaginu orðið mikill kostnaður að því að halda uppi þessum samgöngum. En eigi á annað borð að borga því fyrir strandferðirnar, þá ætti sú fjárveiting að vera á öðrum stað í fjárlögunum og í öðru formi en hjer er hún. Þá er rjett að flytja hana undir þá grein, sem við á, og orða þannig, að hún sje greidd fyrir þær strandferðir, sem fjelagið lætur framkvæma. Hæstv. fjrh. taldi ekki forsvaranlegt að gefa út ný hlutabrjef nema nýtt verðmæti kæmi í staðinn, ráðist yrði í nýjar framkvæmdir, sem þetta hlutafje gangi til. Þetta er ekki rjett. Það má sjá það daglega í erlendum blöðum, að fjelög, sem eru hálfilla stödd, reyna að bjarga sjer með því að fá nýtt hlutafje til þess að geta haldið áfram starfsemi sinni og komist yfir örðugleikana. Mörg hlutafjelög taka það auk heldur til ráðs að gefa út forgangshlutabrjef, sem eru meira virði en almenn hlutabrjef. Þetta er ekki talið óforsvaranlegt. Það er aðeins venjulegt úrræði, þegar fjelög eru í fjárþröng, og jeg sje ekkert því til fyrirstöðu, að Eimskipafjelag Íslands megi vel við það una að fá þetta fje í rekstur sinn og láta ríkið hafa í staðinn hlutabrjef. Auðvitað er betra fyrir hluthafana að fá þetta sem beina gjöf. En jeg sje ekki, að ríkissjóður sje svo vel stæður, að hann sje fær um að gefa slíkar gjafir. Jeg verð því að halda fast við það, að það sje fullkomlega forsvaranlegt að haga þessu eins og jeg hefi lagt til, bæði fyrir ríkissjóð og Eimskipafjelagið. Og það því fremur, sem ekki þarf að svara vöxtum af hlutafjenu nema eftir því, sem hluthafafundur telur fært að samþykkja, og það verður auðvitað ekki greiddur neinn arður nema hagur fjelagsins leyfi.

Þá hafa tveir hv. þm. gert að umtalsefni till. mína á þskj. 463,IV, um fjárveiting til lögheimilaðra framkvæmda í atvinnubótaskyni, og hafa þeir báðir talað vinsamlega um hana. Hv. þm. Barð. (H-K) var mjer sammála um það, að hjer væri um nauðsyn að ræða, þó hann raunar sæi sjer ekki fært að greiða till. atkv. Honum þótti líka undarlegt, að jeg skyldi vera því mótfallinn að takmarka þann mannfjölda, sem hingað sækti til Reykjavíkur. En jeg skal þá játa það hreinskilnislega, að jeg hefi ekki komið auga á neitt ráð til þess að hefta innflutning manna hingað til bæjarins. (PO: Frv. um bygðarleyfi!). Það er nú svo. Jeg álít slík ákvæði ekki hentug þar, sem eins hagar til og hjer á okkar landi, þar sem menn hljóta að flytja sig milli ýmsra landshluta í atvinnuskyni eftir árstíðum. Hingað til Reykjavíkur kemur fjöldi manna í atvinnuleit á vetrarvertíð. En aftur flytur mikill fjöldi Reykvíkinga burt yfir sumarmánuðina, júní–september. Það er dálítið erfitt að setja skorður við þessari atvinnuleit. Og jeg býst við því, að það hafi lengstum verið svo, að menn hafi flutt sig milli hjeraða eftir því, sem atvinna hefir gefist á ýmsum tímum árs, og svo mun lengst verða. Sem sagt, hv. þm. Barð. játaði, að atvinnuleysið væri mikið böl fyrir þjóðina. En jeg verð að segja það, af því að mjer virtist þessi hv. þm. líta svo á, að till. mín ætti eingöngu við atvinnubætur hjer í Reykjavík, að það er alls ekki ætlunin. Það er atvinnubrestur víðar á þessu landi, eins og þessi hv. þm. tók fram, og það er algerlega lagt í vald hæstv. stjórnar, hvar þessu fje er varið til framkvæmda í atvinnubótaskyni.

Þá mintist hv. frsm. á þessa till., og jeg býst kannske við því, að hann muni greiða atkvæði á móti henni. En annars talaði hann með svo miklum skilningi um atvinnuleysið og alt það mál, að jeg hefi ekki heyrt það á öðrum stað betur rakið. Það er einmitt eins og hann sagði, að gengi peninga okkar verður ekki lagað fyr en ráðin er bót á atvinnuleysinu í landinu. Það er ef til vill stórfeldast hjer í Reykjavík, en jeg skal þó ekkert um það fullyrða. En jeg er honum algerlega sammála um það, að það er atvinnuleysið, sem fellir gildi íslensku krónunnar. Enda eru menn nú alment komnir til viðurkenningar um þetta víða um lönd. Þetta er líka mjög eðlilegt. Menn þurfa að lifa og eyða, þó að ekkert verðgildi komi í staðinn. Og því meira og langvinnara, sem atvinnuleysið er, því meiri eyðslan og því ver standa peningarnir.

Orð eru til alls fyrst. Og nú hefir það verið viðurkent af tveim mikilsmetnum þingmönnum, að hjer sje böl, sem bæta þarf. Og þá er sjálfsagt að hefjast handa og reyna að ráða bót á því á hvern þann hátt, sem vænlegt þykir. En sjálfsagt verður ekki hægt að benda á neitt eitt, sem úr atvinnuleysinu bæti. Menn hafa líka talað um ýms ráð í þessu skyni; þannig hefir allmikið verið um það rætt hjer í Reykjavík að reyna að auka jarðrækt kringum bæinn, og veita mönnum þannig atvinnubót að styðjast við, jafnhliða eyrarvinnu eða sjósókn. Á þennan hátt er sýnilega hægt að bjarga ögn við. En sú hjálp kemur seint, og aldrei, ef ekki verður byrjað á framkvæmdum. En til þess þarf fje, bæði til þess að byggja skýli yfir fólkið og byrja að rækta landið, þó ekki sje meira. Þetta er eitt ráðið til þess að gera mönnum lífvænt og bæta úr atvinnuleysinu. En eins og hv. frsm. sagði, þá er þetta kannske nokkuð þungt í vöfum. Enda ræður af líkum, að ekki verður í einum svip bætt úr þeirri ógæfu, sem að steðjar. Þá hefir verið talað um fleira til bóta í þessu efni, svo sem það að setja á stofn fólksráðningarskrifstofu, þar sem fólki væri bent á atvinnu þar, sem hana væri að fá, svo það gæti flutt sig þangað. En slík skrifstofa er þýðingarlítil meðan ekkert er annað gert en bíða eftir því, að atvinnurekendurnir komi og biðji um menn.

En úr því menn eru nú komnir til viðurkenningar um það, að hjer sje um reglulegt þjóðarböl að ræða, þá datt mjer í hug að stinga upp á því, fyrst hv. þm. telja málið svona mikilsvert, hvort þeir geti ekki fallist á það, að skipuð sje milliþinganefnd til þess að gera till. um að ráða bót á atvinnuleysinu. Jeg vildi fyrir mitt leyti fúslega vinna að hverri tillögu, sem fram kæmi í þessa átt. Bændur kunna nú kannske að segja, að nóg sje að gera fyrir fólkið úti um land. Og það er satt, að oft getur verið erfitt að fá menn til vinnu úti um land, en það er þá af því, að menn komast ekki að heiman, erfiðar og dýrar ferðir og oft um stutta vinnu að ræða, sem aftrar því, að menn fáist. Svo kvarta bændur yfir því, að kaupgjaldið sje of hátt. En þess ber að gæta, að kaupgjaldið verður að vera hátt, þar sem sá tími, sem atvinnan stendur, er svo stuttur, sem raun er á. Það er svo um þá, sem í heimskautalöndunum búa, að þeir verða á 2–3 mánuðum að afla sjer vetrarforða. Eins verða verkamenn hjer að fá á 3–4 mánuðum yfir sumarið það kaup, sem þeim nægi til að lifa allan þann tíma, sem þeir eru atvinnulausir. Ef það tekst ekki, þá er auðvitað, að leita verður á náðir sveitarsjóðs. Og þegar þannig gengur til lengdar hjer í Reykjavík t. d., þá endar það þannig, að sá, sem hlut á að máli, er sendur heim á sína sveit, og hún krafin um þann kostnað, sem af manninum hefir leitt í dvalarsveitinni. Þetta er í sjálfu sjer mjög alvarlegt mál og jeg vænti, fyrst menn hafa komið auga á þetta, þá komi öllum saman um það, að gera verði einhverjar ráðstafanir til þess að ljetta af slíkum vandræðum. Jeg er viss um, að því verður mjög vel tekið, ef virkileg viðleitni er sýnd á því að bæta úr atvinnuskortinum. En ef alt er látið standa eins og nú er, þá er langlíklegast, að það endi með því, að allur þorrinn leiti á náðir sveitarsjóðanna, og þegar sveitarsjóðina þrýtur, þá til ríkissjóðs. En það hefir verið svo lítill skilningur á þessu máli, að hv. alþingismenn auk heldur hafa ekki viljað sjá skýrslur um atvinnuleysi í kaupstöðum nje láta safna slíkum skýrslum. Þó er vitanlegt, að í öllum siðuðum löndum eru heil ráðuneyti, sem ekkert gera annað en að sinna slíkum málum. Þar er safnað skýrslum um atvinnulausa menn, og þessar skýrslur eru gefnar út vikulega þar, sem þessum málum er vel fyrir komið, svo einlægt sje hægt að fylgjast með því, hvernig ástatt er í þessu efni. Þó vildu menn hjer hvorki heyra nje sjá þegar jeg bar fram tillögu um þetta. En nú þykir mjer horfa betur, fyrst menn eru þó farnir að sjá, hve alvarlegt þetta ástand er. Og þætti mjer þá allmikill árangur af tillögu minni, þó hún yrði ekki samþykt, ef hún gæti leitt til þess, að atvinnuleysismálið yrði tekið upp hjer á þingi og reynt á einhvern hátt að ráða á því bót, t. d. ef þingið skipaði nefnd til þess að gera tillögur um það, hvernig þessu eigi að haga. Mjer þætti vænt um að heyra frá hæstv. stjórn, hvernig hún tekur í þetta mál, ef sú leið yrði farin. En þá teldi jeg mikinn árangur orðinn af till. minni.