15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (3040)

125. mál, hressingarhæli fyrir berklaveika

Ágúst Flygenring:

Jeg stend aðeins upp til þess að taka í sama streng og hv þm. Str. (TrÞ). Að mínu áliti er vert fyrir ríkið að veita því athygli, þegar einhver fjelög rísa upp, sem vilja ljetta byrðunum af ríkissjóði. Sem flest slík fjelög ættu að komast á stofn, sem með ráðum og dáð ynnu að nauðsynjamálum vorum. Og það er margreynt, að allar slíkar einkastofnanir, sem reknar eru af áhugamönnum, reynast bæði ódýrari og betri en ríkisstofnanir af sama tæi. Mjer finst því fyrir allra hluta sakir rjett, að ríkið greiði götu þeirra manna eða fjelaga, sem leitast við að ljetta af því og þjóðinni byrðunum.

Það er alveg rjett, að landið í Kópavogi er fádæma ljelegt, miklu ljelegra en vera ætti, þar sem framtíðarstofnun á að reisast. En landið á á sömu slóðum afbragðsjörð, sem aðeins er leigð fyrir 300 krónur. Þar er vel bygt og hægt að hafa stórt bú. Jeg á þarna við Garða á Álftanesi. Er það hreinasta synd að fara svo með opinbera eign sem farið er með Garða. Þar væri einmitt jörðin fyrir þetta hæli. Jeg vildi aðeins benda á þetta, og þarf ekki meira um það að segja.