15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í D-deild Alþingistíðinda. (3041)

125. mál, hressingarhæli fyrir berklaveika

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg get vel hugsað mjer það, að sú breyting gæti orðið, að Kópavogur yrði mikils virði, t. d. að þar gæti orðið að ræða um lóðasölu. Og því væri ekki rjett að láta jörðina af hendi, nema til ákveðins árafjölda. Annars held jeg, eins og jeg hefi áður tekið fram, að þing og stjórn mundu alls ekki hrekja hælið burtu, þegar það væri búið að búa um sig.

Hv. þm. hafa minst á, að gott væri fyrir hælið að fá betri jörð. Jeg vil því minna á það, að landið á ýmsar aðrar jarðir hjer í grendinni, svo sem Hólm og Lambhaga. Um Garða er ekki að ræða, því að jeg býst alls ekki við, að presturinn vildi sleppa þeim.