16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í D-deild Alþingistíðinda. (3045)

125. mál, hressingarhæli fyrir berklaveika

Sveinn Ólafsson:

Jeg held, að það felist meira í þessari till. en orðbúningur hennar í fljótu bragði bendir til. Hún er ekki einföld umsókn ábýlis. Næsta skref verður að leita fjárveitingar til byggingar þessa hælis, og svo býst jeg við, að þriðja skrefið verði, að sótt verður um rekstrarfje til að reka hælið. Það er að vísu ekki svo að skilja, að jeg teldi það neina fjarstæðu, þótt til þessa kæmi, að ríkið styddi hressingarhæli, þótt efnin kunni að vera lítil til þess í bili. En það athugaverða fyrir mjer er að binda hælið við slíkan stað og Kópavog.

Jeg hefi haft nokkur kynni af samskonar starfsemi hjá frændum okkar Norðmönnum, og hefi jeg veitt því eftirtekt, að slík hæli þar eru helst reist í fjalllendi, þar sem skógur er og sólríkt, en sumarveran að öðru leyti hressandi og þægileg í góðviðri og gróðurilm skóganna. Þann stað, sem hjer er um að ræða, skortir, eins og menn vita, nær því alt í þessu efni. Hinsvegar þekki jeg þá staði hjer á landi, einkum austan lands og norðan, sem nálgast talsvert meira fyrirmyndirnar norsku. Kópavogur liggur rjett við fúla þarafjöru, þar sem loftið er alt annað en ljúft til öndunar, þar sem hvorki er gróðursæld eða skógur nje neitt annað, sem yndi má veita eða sjerstaka sumargleði. Yfirleitt má staðurinn heita heldur óvistlegur, hreggviðrasamur, skjóllaus og ljótur. Ef koma ætti upp slíku hressingarhæli hjer á landi, þá yrði það, að minni skoðun, að vera á einhverjum öðrum vistlegri stað. Og ef jeg ætti því að veita þessari till. atkv. mitt, þá yrði það að vera með það fyrir augum, að hælið yrði ekki bundið við stað sem þennan eftirleiðis, þótt hann yrði notaður í bili.

Að svo komnu vil jeg ekki binda atkv. mitt við samþykt þessarar till., af því að mjer þykir staðurinn óhæfilegur. Það er aðeins einn kostur við að hafa hælið þarna, og það er nálægð læknanna; en það má ugglaust finna talsvert betri staði annarsstaðar, sem notið geta nálægðar lækna.