16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í D-deild Alþingistíðinda. (3046)

125. mál, hressingarhæli fyrir berklaveika

Flm. (Magnús Jónsson):

Jeg bjóst við, að ef eitthvað yrði haft á móti þessari till., þá yrði það helst þetta, að hún myndi draga útgjaldadilk á eftir sjer. Til þessa er alls ekkert tilefni gefið með tillögunni. Það er að minsta kosti ekki tilgangurinn nú að smeygja hjer inn litla fingrinum til þess að koma síðar inn allri hendinni. En slíkar ástæður eru oft áhrifameiri til falls góðum málum en nokkuð annað, sakir þess, að hjer er ekki um annað að ræða en hulinn og óákveðinn geig, sem jafnómögulegt er að afsanna sem sanna. Auk þess finst mjer lítil ástæða fyrir hv. Alþingi að vera svo óttaslegið í þessum efnum, því þegar öllu er á botninn hvolft, er það þó altaf það sjálft, sem ræður því, hvort lengra er gengið eða ekki, og hræðslan er því ekki annað en hræðsla við sjálfan sig. Þótt þessu fjelagi sje heimiluð ábúð á jörðinni, þá er þar með ekki gefið neitt loforð fyrir styrk til hælisins. — Þar með hefi jeg ekki sagt, hver afstaða mín yrði til slíkrar styrkbeiðni, ef hún yrði fram borin.

Þótt þingið samþ. þessa till., þá hefir ríkið ekki með því tekið þessa starfsemi upp á sína arma. Það hefir aðeins veitt henni betri aðstöðu.

Það má vera, ef þessi staður er borinn saman við hressingarhæli í Noregi, að hann geti ekki talist eins góður og þar. Eins skal jeg játa, að líklegt er, að fá mætti vistlegri og fegurri staði hjer á landi. En þetta fjelag hefir nú beðið um þennan stað og ekki aðra. Þetta er hæfilega langt frá bænum, og það er skjólgott þarna. Og þótt útsýni sje ekki mikið, þá er þetta samt, eins og Reykvíkingar myndu kalla á ljótri íslensku, „huggulegur“ staður. Þarna er talsvert hlýlegra en á Vífilsstöðum, gott um samgöngur og staðurinn rjett í nánd við lækninn á Vífilsstöðum. Þetta hæli er að engu saman berandi við erlend hæli. Þau hafa alt, sem þau þurfa með, sína sjerstöku lækna o. s. frv. Hjer er ekki um neitt slíkt að ræða. Það er ekki hjer um að ræða neitt framtíðarhressingarhæli fyrir alt landið, heldur bara um starfsemi þessa eina fjelags. Og þótt þessu hæli sje komið upp þarna, þá er engu síður hægt að reisa önnur hæli á fegurri stöðum, þótt þetta sje leyft. Þessi till. er aðeins fram komin fyrir ósk þessa eina fjelags og felur ekki neitt stórkostlegt í sjer.