26.04.1924
Efri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (3052)

125. mál, hressingarhæli fyrir berklaveika

Ingibjörg H. Bjarnason:

Eins og tekið er fram á þskj. 311, hefir kvenfjelagið „Hringurinn“ hjer í bænum sótt um ókeypis ábúð á þjóðjörðinni Kópavogi, þegar hún losnar úr ábúð þess, er hefir hana nú, til þess að þar verði starfrækt „hressingarhæli“ fyrir berklaveikt fólk, og að heimila núverandi ábúanda að semja við fjelagið um nokkur jarðarafnot, til þess að geta bráðlega hafið þessa starfsemi.

Vegna þeirra hv. þingmanna hjer í deildinni, sem ekki þekkja hið góðkunna kvenfjelag „Hringinn“, sem nú ætlar að beita sjer fyrir þessu mjög þarfa máli, ætla jeg í stórum dráttum að kynna hv. deild fjelag þetta.

Kvenfjelagið „Hringurinn“ er stofnað 26. janúar 1906, og er það fyrsta fjelagið, sem starfað hefir gegn berklaveiki hjer á landi. Og hefir það öll árin síðan það var stofnað starfað ötullega og óskift að þessu verki sínu. Þannig hefir það orðið að leggja á sig mikið erfiði og fyrirhöfn til þess að afla sjer fjár, enda hefir það safnað á þessum árum 60 þús. kr.

Fjelagið hefir kostað um 40 sjúklinga í spítala og í Vífilsstaðahælinu eftir að hælið tók til starfa, og varið til þessarar starfsemi 30 þús. kr. — Fjelagið á nú í sjóði 30 þús. kr., og eru fjelagar 170. Formaður fjelagsins er frú Kristín Jacobson. — Jeg hefi átt tal við hana um þetta mál, þessa fyrirhuguðu starfsemi fjelagsins, að koma á fót og starfrækja „hressingarhæli“ það, sem um er að ræða, og þótt óneitanlega sje í allmikið ráðist, er formaður fjelagsins vongóð og treystir því, að þetta muni takast.

Fyrirtækið er eitthvert nytsamasta sporið, sem stigið verður til berklavarna, og bætir mjög úr brýnni þörf sem framhaldshæli fyrir þá sjúklinga, sem verið hafa í heilsuhæli, en ekki orðið fullkomlega heilbrigðir, en eru þó svo hressir, að ónauðsynlegt er, að þeir dvelji í heilsuhæli og taki þannig upp rúm þar fyrir þeim, sem lífsnauðsyn er á að komast þar að.

Eins og hv. deildarmönnum er kunnugt, þá eru slík hressingarhæli mjög útbreidd í öðrum löndum, og eru þar jafnan talin nauðsynlegur liður í mannúðar- og heilbrigðismálum. Komist því hæli þetta á fót, þá er hjer stórt spor stigið til menningar og framfara.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, hve mikil vandkvæði eru á því að koma fólki fyrir á heimilum eða annarsstaðar, þegar það hefir fengið þann bata í heilsuhælinu eða spítölum, sem hægt er að búast við, en hinsvegar eigi æskilegt fyrir slíka sjúklinga að dvelja þar árum saman, þótt þeir sjeu eigi vinnufærir með öllu, því að slík dvöl veikir sennilega vilja þeirra og starfsþrek. En því miður verður það oft einasta úrræði þessara sjúklinga að dvelja misserum saman í einhverju hinna dýru sjúkrahúsa landsins, þar sem þeir samkv. berklalögunum eiga rjett á að vera. En komist þetta fyrirhugaða hressingarhæli í framkvæmd, þá er stefnt í rjetta átt, sjúklingunum sjeð fyrir verustað, þegar þeir hafa fengið þann bata, að ekki er nauðsyn fyrir þá að dvelja í heilsuhæli eða spítala, og þeim með slíkri hressingar- og hvíldarvist „hjálpað til að hjálpa sjer sjálfum“, með því að í hinu fyrirhugaða hæli er gert ráð fyrir, að sjúklingar þeir, sem færir eru um það, vinni sjer eitthvað inn, sumpart í hælinu sjálfu, ef því verður við komið, eða að stjórn hressingarhælisins útvegi þeim vinnu og annan samastað, þegar þeir teldust færir um að fara af hælinu.

Hressingarhælið yrði miklu líkara stóru heimili en venjulegu heilsuhæli eða spítala, og því í alla staði hentugri dvalarstaður þeim, sem búnir væru að fá svo mikinn bata, að þeir ættu fremur samleið með heilbrigðum en sjúkum.

Staðinn tel jeg miklu máli skifta. Kópavogur er hentugur staður, bæði vegna þess, að hann er í nánd við Reykjavík — að vísu finst eigi öllum það meðmæli — og að því leyti, að jörðin hefir talsverða möguleika til umbóta, eins og tekið er fram í greinargerð till., en þó ekki síst vegna þess, að staðurinn er svo nærri Vífilsstaðahælinu og Reykjavík, og þar af leiðandi auðvelt fyrir sjúklingana að njóta áframhaldandi læknishjálpar, t. d. ljóslækninga, sem oft eru nauðsynlegar þeim, sem fengið hafa nokkum bata, svo að þeir geti komist til góðrar heilsu.

Einnig ber að líta á það, að aðdrættir allir eru frekar auðveldir, ef þessi staður fæst. Og síðast en ekki síst er staðurinn hentugur vegna þess, að fjelag það, sem fyrir stofnun og starfrækslu hælisins stendur, er búsett í Reykjavík.

Að öllu þessu athuguðu tel jeg víst, að hv. deild ljái máli þessu stuðning sinn og meðmæli, þar sem ekki einu sinni er farið fram á nokkurt fjárframlag til þessarar fyrirhuguðu starfsemi fjelagsins, en hinsvegar verður meðlagskostnaður sá, er hinu opinbera ber að gjalda fyrir berklaveika sjúklinga, minni í þessu hressingarhæli en öðrum sjúkrahúsum landsins, ef þessari beiðni fjelagsins verður sint.

Formaður fjelagsins, frú Kristín Jacobson, og aðrar þær konur, sem ætla að beita sjer fyrir þessu starfi, er besta trygging þess, að verði hælið stofnað, þá verður það starfrækt með ráðum og dáð.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um mál þetta að sinni, en jeg vona, að hv. deild ljái því fylgi sitt.