30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

1. mál, fjárlög 1925

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg á hjer aðeins eina litla till. og raskar hún að engu fjárhæðum frv. og er sparnaðartillaga að því leyti, að lagt er til, að tvö óþörf orð falli niður. Vænti jeg þess, að hún verði samþykt, þar sem liðurinn er sannari eftir en áður, þó að í smáu sje. En svo er kveðið á um fjárveitingu til dr. Helga Pjeturss, að hún skuli vera til jarðfræðirannsókna. Dr. Helgi hefir engin laun annarsstaðar frá og er með öllu frjáls um það, hvernig hann ver fjenu, enda mun ekki kleift að ferðast langt til jarðfræðirannsókna, þegar ekki er af meiru að taka. Munu menn mega vera vissir um, að hann ver því þannig, að fult gjald kemur fyrir, þó að eigi verði það í krónum talið. Finst mjer því rjettara, að í fjárlögum standi ekkert um það, hversu skuli varið fjenu, þar sem þetta er veitt dr. Helga til lífsuppeldis, svo að hann geti unnið að áhugamálum sínum svo sem honum sjálfum sýnist.

Þá hefi jeg lofað hv. þm. Vestm. (JJós) að fara nokkrum orðum um till. hv. fjvn. um að fella niður fjárveitingu til fangahúsbyggingar í Vestmannaeyjum. Svo sem allir vita, eru eyjaskeggjar nú orðnir 3 þúsund og á vertíðinni dvelja þar alt að 4 þúsund manns. Auk þessa er þar ekki lítill ágangur af útlendingum, og er því auðsætt, að ilt muni að komast af án fangahúss. Menn munu segja, að hægt sje að leigja herbergi til þess að geyma í fanga. En mundu ekki fáir verða til að leigja herbergi í húsum sínum fyrir þann lýð, er ekki þykir hæfur á götum úti? Nú vill svo til, að landið seldi það fangahús, sem þar var áður, en hefir ekkert látið í staðinn, þrátt fyrir ítrekaðar óskir eyjabúa. Mun ekki vanþörf á fangahúsum bæði í Eyjum og á Ísafirði — með allri virðingu fyrir hv. kjósendum hv. þm. Vestm. og Ísaf.

Næst skal jeg minnast á styrkinn til stúdenta við erlenda háskóla. Hæstv. atvinnumálaráðherra hefir nú á fundinum lýst yfir, að hvernig sem alt snúist, þá skuli stúdentar við háskóla Íslands einskis í missa. En svo erfitt sem stúdentar, er lesa hjer við háskólann, eiga, þá er þó enn meiri vorkunn þeim, sem lesa við erlenda háskóla. Hingað til hefir verið svo ákveðið, að þeir skyldu fá 1200 kr. á ári í 4 ár, og er það beint loforð frá þinginu til þeirra, sem þegar hafa byrjað nám erlendis. Tel jeg því rjett að samþykkja till. hv. þm. Dala. (BJ). Um till. hv. 2. þm. Eyf. (BSt), að í stað 2–3 ár komi 1–3 ár, er það að segja, að hún er sjálfsögð, því ef styrkurinn væri aðeins bundinn við þá, sem nám hafa stundað 2–3 ár, þá væru það bein svik við þá stúdenta, sem sigldu til erlendra háskóla í haust. Breytingin má ekki komast í gildi fyr en á hausti komanda. Annars vil jeg geta þess, að jeg tel nauðsynlegt, að komið verði skipulagi á þessi mál. Ætti háskólaráðið helst að ráða þar mestu um, enda væri það vel viðeigandi, að það yrði ekki aðeins háskólaráð fyrir þá stúdenta, er lesa hjer heima, heldur einnig fyrir hina, sem nám stunda við erlenda háskóla, það, er nauðsynlegt má telja fyrir vort þjóðfjelag.

Þá er brtt. nefndarinnar um að lækka styrkinn til Þórbergs Þórðarsonar um 200 kr. frá því, sem hv. Ed. hefir gengið frá honum. Hv. frsm. virtist halda, að fjvn. í Ed. hefði ekki flutt till. um hækkun styrksins til Þórbergs, en það er rangt. Það var einmitt fjvn. Ed., sem flutti till. Og þar sem hv. fjvn. mun sem minst vilja hreyfa við gerðum systur sinnar í hv. Ed., þá vænti jeg, að hún taki till. sína aftur. (PO: Hvenær hefir nefndin sagt það?). Hv. frsm. nefndarinnar sagði, að nefndin hafi miðað till. sínar um Þórberg Þórðarson og Jóhannes L. L. Jóhannsson við till. fjvn. Ed.

Jeg ætla ekki að minnast þeirra niðurskurðartill., sem jeg er fylgjandi. Háttv. fjvn. tekur af mönnum ómak af því. En fyrir liggja nokkrar hækkunartill., sem erfitt er að mynda sjer skoðun um, t. d. þrjár tillögur, sem fara fram á styrk til sjúkrahúsbygginga. Ástæðan fyrir einni er sú, að verði sjúkrahúsið ekki bygt, þá missi hjeraðið lækni sinn; annari, að það losni ekki við lækninn, nema sjúkrahúsi verði komið upp, og þeirri þriðju, að það fái alls engan lækni, nema sjúkrahús verði reist. Þetta má nú samt þola, en þá fyrst varð jeg undrandi, þegar jeg heyrði einn hv. þm. segja, að hann greiddi atkv. með styrk til prófessors Nordals í þeirri von, að hann færi af landi burt eftir sem áður. Auðvitað erum við flm. till. þakklátir hverjum þeim, sem vill stuðla að því, að hún nái fram að ganga, en jeg vil ekki, að neinn gangi þess dulinn, að tilgangur okkar með henni er sá, að prófessor Nordal fari alls ekki af landi burt. Þennan styrk á ekki að veita vegna erlendrar menningar, heldur íslenskrar. Það er misskilningur, að hann verði okkur að jafnmiklu gagni, hvort sem hann dvelur hjer á landi eða erlendis. Próf. Sigurður Nordal er líklegur til að skrifa margt, er ekki verður þýtt til fulls, en slíkir rithöfundar verða aldrei að fullu gagni annari þjóð en þeirri, sem hefir alið þá og þeir dvelja með. Viðfangsefni sín hljóta menn og nokkuð að velja eftir því, hvar þeir hafast við. Er því ljóst, að Nordal verður okkur svo best að fullu gagni, að hann dvelji hjer heima. Er hann einn af þeim fáu rithöfundum, sem ágætir mega heita. Kann jeg þá ekki að þekkja klassiskar bókmentir, ef sum af hans ritum eru ekki með þeim blæ. Það er og rangt, að öðrum prófessorum við háskólann sje gert rangt til með þessu. Flestir hinna prófessoranna munu hafa einhver aukastörf með höndum, og ekki þurfa þeir að verða rangeygðir af öfund, þó að Alþingi reynist rjettsýnt um Nordal. Hitt er satt, að þetta stingur nokkuð í stúf við aðrar till. hjer í þinginu, en sú er hin rjetta braut, að vera þeim vel, sem mesta hafa verðleika, en ekki eyða fje til þess, sem er tildur eitt og óþarfi.