02.05.1924
Neðri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í D-deild Alþingistíðinda. (3065)

142. mál, framhaldsnám í gagnfræðaskólanum á Akureyri

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Tillaga sú, sem hjer liggur fyrir, er borin fram að ósk skólameistara og kennara við gagnfræðaskólann á Akureyri. Ástæðan til þess, að þeir bera fram þessa ósk, er sú, að nú eru við skólann ýmsir efnilegir menn, sem vilja gjarnan afla sjer meiri mentunar en þeir eiga kost á þar, en er hinsvegar alveg ókleift að fara hingað suður til Reykjavíkur í því skyni. En aftur mundu þeir geta klofið það að halda námi áfram á Akureyri. Samkvæmt upplýsingum, er jeg hefi fengið um þetta atriði, munu nemendur við Akureyrarskóla, a. m. k. þeir, sem eru þar í mötuneytinu, komast af með 500 kr. yfir veturinn. En eftir upplýsingum, er við fengum hjer nýlega á fundi, sem stúdentar og háskólakennarar hjeldu, þá mun eyðsla þeirra, sem hjer dvelja vetrarlangt við nám, varla fara mikið niður fyrir 2 þús. kr. þetta er geysimikill munur, eins og allir sjá. Kostnaðurinn við eins vetrar námsdvöl á Akureyri er ekki meiri en það, að duglegir menn geta kostað hana af því fje, er þeir vinna sjer inn yfir sumarið. Jeg hefi hjer fyrir framan mig efnahagsskýrslur frá þremur efnilegum nemendum við gagnfræðaskólann á Akureyri. Þannig er ástatt um þessa menn alla, að þeir hafa ekki neinn styrk til náms síns, en verða að bjargast af sumarafla sínum. Þeir hafa gefið upp, hvað þeir hafi unnið sjer inn yfir sumarið. Einn hefir fengið 600 kr., annar 750 kr. og sá þriðji 700 kr. þetta sýnir, þegar gætt er námskostnaðarins, sem jeg nefndi áðan, að þessir menn geta klofið námið af eigin ramleik þar, sem ekki er dýrari námsvist en er á Akureyri.

Þessi till., sem hjer liggur fyrir, er fram borin af okkur hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) í þeim tilgangi að gera þessum mönnum fært að afla sjer frekari mentunar. Og jeg vona, að hv. þdm. taki eftir því, að till. fer alls ekki fram á það, að ríkissjóður leggi neitt fje fram. Þetta á að vinnast alveg kostnaðarlaust fyrir ríkissjóð. Till. er svo orðuð, að þetta getur ekki komið til framkvæmda nema því aðeins, að það verði ríkinu að kostnaðarlausu, annaðhvort á þann hátt, að nemendum við skólann fækki og kennarar fái þannig afgangs tíma til þess að vinna að þessari framhaldskenslu, eða þá að kennarar leggja á sig meiri vinnu en þeim ber skylda til. En hvort sem væri, er ríkinu útgjaldalaust að leyfa þetta, en leyfi Alþingis mun þurfa til þess að nota húsrúm skólans á þennan hátt. Vitanlega eru kennarar frjálsir að því, hvað þeir leggja á sig sem aukavinnu í þessu skyni, en húsrúmi skólans hafa þeir ekki vald yfir.

Það hefir nú verið svo um hríð við gagnfræðaskólann á Akureyri, að kenslukraftar hafa verið miðaðir við það, að neðri bekkirnir væru tvískiftir, þannig, að í skólunum væru í raun rjettri fimm bekkir. Nú er gert ráð fyrir því, að bekkirnir verði ekki tvískiftir næstu ár, heldur aðeins einskiftir. Og þetta sýnist muni verða, hvað sem öllu öðru líður. Þess má geta, að í vetur er 1. bekkur skólans aðeins einskiftur. Og allar líkur benda á, að svo muni verða fyrst um sinn.

Jeg á von á því, að tvent kunni ef til vill að verða haft á móti till. Jeg skil ekki, að það verði fleira. Í fyrsta lagi kunna einhverjir að óttast það, ef till. verður framkvæmd, að hún hindri menn í því að leita sjer gagnfræðamentunar við skólann. Þá yrðu ekki eins margir teknir inn í skólann, til þess að geta komið þessum framhaldsnemendum að. Og í öðru lagi býst jeg við því, að einhverjir álíti, að þetta verði til þess að fjölga þeim mönnum, sem taka stúdentspróf og ganga lærða veginn. En flestir álíta, að stúdentar sjeu nú nógu margir í þessu landi.

Hvað fyrra atriðið snertir, þá býst jeg ekki við, að það komi að sök. Aðsóknin er ekki svo mikil og ekki líkur til, að hún aukist mikið fyrst um sinn, og liggja til þess ýmsar ástæður. Eru þá fyrst almennir erfiðleikar, sem dýrtíðin leiðir af sjer, en auk þess það, að Austfirðingar, sem mjög hafa sótt skólann, hafa nú fengið sinn eigin skóla að Eiðum. Þá ber og þess að gæta, að Þingeyingar eru að koma upp alþýðuskóla fyrir sig, en úr Þingeyjarsýslu var jafnvel meiri aðsókn að skólanum en úr Eyjafjarðarsýslu og hinum sýslunum. Býst jeg því við, að ekki verði næstu árin þörf á að tvískifta skólanum, og verður þá afgangs bæði húsrúm og kenslukraftar. Mundu þá sumir segja, að eigi væri annað rjettara en fækka kennurum. En jeg vil benda á, að það gæti verið varhugavert, þar sem búast mætti við, að aðsóknin ykist aftur, þá er dýrtíðin minkaði.

Þá er hættan á, að stúdentaframleiðslan ykist mjög. Jeg geri ráð fyrir, að kenslunni yrði hagað þannig, að menn ættu hægra með að lesa undir stúdentspróf utan skóla. En þrátt fyrir þetta er jeg ekki viss um, að stúdentaframleiðslan aukist mikið, þó að þetta komist á. Jeg býst við því, að flestir ljetu staðar numið og tækju fyrir almenna atvinnu. Jeg hugsa, að margir þeir unglingar, sem lokið hafa gagnfræðanámi, fari frekar í mentaskólann af löngun til að læra meira en að þeir hafi hitt fyrir augum, að verða embættismenn. Þegar þeir svo með ærnum kostnaði hafa náð stúdentsprófi, þykir þeim leiðinlegt að hætta. En ættu þeir kost á ódýru framhaldsnámi, án þess að þurfa að ganga í mentaskólann, mundu þeir frekar láta staðar numið að því loknu. Raunar kynni það að verða svo, að einhverjir yrðu stúdentar, ef kostur gæfist á framhaldsnámi á Akureyri, sem annars hefðu ekki orðið það. En þótt jeg viðurkenni fyllilega, að þörf væri á að takmarka tölu þeirra manna, sem búa sig undir embætti, þá get jeg þó ekki viðurkent, að rjett sje að gera það á þann hátt að gera fátækum mönnum þá leið ófæra, eða að láta peningana ráða í því efni. Það þarf að finnast heppilegri leið, og ættu hæfileikar að ráða meiru um þetta en peningar. Með framhaldsnámi yrði efnilegum piltum gert fært að brjótast áfram af eigin ramleik, og býst jeg við, að þeir yrðu landinu gagnlegri en hinir, sem ekki þurfa að sjá fyrir sjer sjálfir og eru kostaðir af efnuðum vandamönnum. Má og benda á eitt atriði í þessu máli, sem jeg hefi ekki nefnt. Eftir núverandi skipulagi mentaskólans eru þroskaðir menn útilokaðir frá námi þar samkvæmt reglugerð skólans. Veit jeg, að undanþága er veitt frá þessu í efri bekkjunum, en samkvæmt reglugerðinni mega menn ekki ganga inn í 1. bekk eldri en 15 ára og ekki í 4. bekk eldri en 18 ára. Þetta útilokar það, að þeir, sem ekki hafa aðra til að kosta sig, geti notið fræðslu í skólanum, því börn geta ekki kostað sig sjálf. Á liðnum árum hefir sú orðið reynslan, að margir af þeim, sem orðið hafa vorir bestu menn, hafa ekki getað byrjað nám fyr en á fullorðinsárum. Get jeg ekki skilið annað en að framhaldsnámið nyrðra yrði til að greiða götu slíkra manna til náms. Auk þess er jeg ekki í efa um, að margir þeir, sem síðan stunduðu algenga atvinnu, yrðu bændur, útgerðarmenn, verslunarmenn o. s. frv., mundu nota þetta framhaldsnám, og þannig geta aflað sjer á ódýran hátt góðrar mentunar.

Það er með vilja gert að ákveða ekki í till. neitt um það, hvernig framhaldsnáminu skuli hagað. Einn hv. þm. hefir bent mjer á það, að rjettara væri að bæta því í till., að námið ætti að vera framhaldsnám í 4. bekkjar fræðum. En með tilliti til þess, að við flm. teljum æskilegra, að námið verði einskonar framhald gagnfræðanáms, heldur en að það verði nám með stúdentspróf beint fyrir augum, þá höfum við einmitt slept öllum ákvæðum um tilhögun námsins.

Það er nú orðið nokkuð áliðið, og margt mætti segja um þetta mál. En jeg ætla nú ekki að fjölyrða frekar um það, en tel þó rjett að minnast á eitt atriði enn.

Eins og menn vita, eru margir þeirrar skoðunar, að rjett sje að breyta mentaskólanum í óskiftan, lærðan skóla, eins og latínuskólinn var áður. Þarna virðist mönnum vera leið til að fækka þeim, er sækja skólann, og býst jeg við, að þetta hafi allmikið fylgi. Væri því ekki ólíklegt, að þetta kæmist á innan skamms tíma. En kæmist þetta á, væri óhjákvæmilegt að slíta hinu beina sambandi, sem verið hefir milli mentaskólans og gagnfræðaskólans á Akureyri. Gætu þá gagnfræðingar ekki lengur komist próflaust í 4. bekk. Og hræddur er jeg um, að Norðlendingum þætti sinn hlutur fyrir borð borinn, ef slitið yrði sambandinu og ekkert sett í staðinn.

Fyrir nokkru átti jeg tal um þetta við einn mentamann þessa bæjar; er mjer engin launung á því, að það var einn af hv. þm. Kvartaði jeg um það, fyrir hönd Norðlendinga, að þeir mundu illa settir, þegar slitið væri sambandinu milli gagnfræðaskólans og mentaskólans. Kvað hann það alls ekki geta komið til mála, án þess, að einhver milliliður kæmi í staðinn, þar sem gagnfræðingum væri veitt sú kensla, sem gerði þeim fært að komast í efri bekki hins lærða skóla. Jeg þekki lítið til þeirra fræða, sem kend eru í lærðum skóla, en jeg hygg, að ekki sje nein fjarstæða að byggja á gamalli reynslu. Kom það fyrir í gamla daga, að þeir, sem lokið höfðu námi við skólann á Möðruvöllum, fengu fræðslu í latínu og ýmsum öðrum námsgreinum hjá einhverjum presti eða öðrum lærðum manni, og komust síðan inn í latínuskólann án þess að vera í 1. bekk. En nú er það vitanlegt, að gagnfræðaskólinn á Akureyri veitir fullkomnari fræðslu en veitt var í skólanum á Möðruvöllum. Ef til vill gæti framhaldsnámið komið að haldi, svo að Norðlendingar yrðu ekki sem verst settir, þó að mentaskólanum yrði breytt í óskiftan, lærðan skóla.

Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um till. okkar, en vænti þess, að hv. deild vilji ekki meina kennurunum að hjálpa efnilegum, fátækum piltum. Vænti jeg, að hv. þm. líti á það, að sú hjálp getur orðið til ómetanlegs gagns, en kostar hinsvegar ekkert.