02.05.1924
Neðri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í D-deild Alþingistíðinda. (3066)

142. mál, framhaldsnám í gagnfræðaskólanum á Akureyri

Björn Líndal:

Jeg fjekk frá kennurum gagnfræðaskólans samskonar skeyti og hv. 2. þm. Eyf. (BSt), og hefði staðið næst mjer að flytja þessa till. En jeg taldi þess enga þörf.

Í till. er farið fram á tvent. Fyrst það, að leyft sje að nota húsrúm skólans, sem afgangs kann að verða, og annað það, hvort nota megi kenslukrafta skólans, hvorttveggja ríkissjóði að kostnaðarlausu.

Um fyrra atriðið er það að segja, að jeg lít svo á, að stjórnin geti heimilað húsrúmið án þess að spyrja þingið að. Hitt er alveg á valdi kennaranna, hvort þeir leggja fram krafta sína, ef þeir kenna við skólann sinn ákveðna stundafjölda, og heimta ekki aukaborgun fyrir framhaldskensluna.

Almennar umræður um skólafyrirkomulagið ætla jeg ekki að fara út í. En jeg vil taka það fram, að jeg vil ekki þrengja að gagnfræðadeildinni vegna framhaldsnámsins, því að jeg tel meiri þörf á almennri mentun en fræðslu undir stúdentspróf. Og framhaldsnámið, sem hjer er gert ráð fyrir, hlýtur einmitt að auka stúdentatöluna. Jeg efast ekki um, að mörg ágæt embættis- og vísindamannaefni sjeu í hóp þeirra manna, er hjer ræðir um, en þjóðinni er áreiðanlega miklu meiri þörf á mörgu öðru nú en auknum stúdentafjölda. Og ef hann á að verða við hóf, þarf frekar að reyna að draga úr honum en auka hann.

Hjer liggja ekki fyrir upplýsingar um það, hvað þarna eigi sjerstaklega að kenna. Helst virðast það þó eiga að vera sömu námsgreinar sem kendar eru í 4. bekk hins almenna mentaskóla. En þar er einmitt byrjað á ýmsum námsgreinum, sem að litlu eða engu haldi koma, ef ekki er haldið lengra áfram námi í þeim. Yrði ekkert úr þessu nema kák, ef ekki yrði þá stefnt að stúdentsprófi, sem jeg tel ekki æskilegt.

Vil jeg gera það að tillögu minni, að málinu verði vísað til stjórnarinnar